Verkefnið „Treystu mér“ – Úrræði fyrir andlega veik börn

  • 26. maí 2020
  • Fréttir

Elísabet og hestur hennar Hrammar mynd: Petra Lönnqvist

Elísabet Sveinsdóttir er menntaður kennari og illa haldin af hrossasótt. Hún hefur verið að þróa úrræði fyrir börn með andleg veikindin og/eða frávik. Þjónustan er hugsuð fyrir börn sem glíma við einhvers konar erfiðleika í skólakerfinu. Þessi börn eiga oft erfitt með að fóta sig í hinu hefðbundna skólakerfi, eru utangátta og útundan. Oft eru börnin vinafá og eiga oft einnig í erfiðleikum með tengslamyndum, traust og almenn samskipti við þá aðila sem að því koma, bæði fjölskyldumeðlimi og starfsfólk í skólanum.

Þú getur lagt verkefninu lið með því að smella hér

Í vinnu sinni sem grunnskólakennari hefur forsvarskona verkefnisins reynslu af því að vinna með börnum og hefur komið að margskonar vandamálum sem börn glíma við í dag og reynt að leita lausna. Með því að nota dýr, hesta og hunda, er hægt að nálgast skjólstæðing á annan hátt en hann er vanur.

Hestar eru nýttir til meðferðar vegna þess að þeir bregðast strax við og gefa svörun. Þeir bregðast einungis við hegðun þess sem er að eiga við þá hverju sinni. Það gera þeir fordómalaust og eru ekki að setja út á útlit eða þau vandamál sem viðkomandi glímir við eða mistök sem hafa verið gerð áður fyrr. Hesturinn speglar oft hegðun mannsins, ef maðurinn er spenntur verður hesturinn spenntur og svo framvegis.

Einnig eiga börn oft erfitt með að koma tilfinningum sínum í orð og setja sig í spor annarra. En ef þau nota dýrin og eiga að setja sig í þeirra spor eða segja hvernig þeim líður eiga þau oft auðveldara með það. Dýrin hugsa öðruvísi en maðurinn og geta oft einfaldað hlutina fyrir okkur. Þau finna ótrúlegustu hluti á sér og með því að nota þau sem úrræðamöguleika er hægt að nálgast skjólstæðingin á annan hátt og fá aðra sýn á viðfangsefnið. Þessi þjónusta er hugsuð sem viðbót við þá úrræðamöguleika sem til eru fyrir börn á grunnskólaaldri.

Þjónustan er fólgin í samneyti við dýrin, hesta og hunda. Notkun dýra í ýmis konar meðferðum hjá börnum og fullorðnum hefur gefið góða raun og eru mikið notaðar erlendis. Hér á landi eru meðferðir í boði og er hægt að nefna að í Mosfellsbær er boðið uppá þjónustu fyrir fatlaða að fara á hestbak og er það oft liður í sjúkraþjálfun þeirra. Sérstök meðferð fyrir einstaklinga með andlega fötlun, tengslavanda eða önnur frávik sem koma að samskiptum hefur ekki verið í boði þar sem hestar eru nýttir sem meðferðaraðilar. Þörfin fyrir slíka meðferð er fyrir hendi því í dag eru þarfir barna með frávik mismunandi og með nýrri nálgun er hægt að fá barnið til að bregðast við á annan hátt en áður.

Skjólstæðingarnir koma í hesthúsið og umgangast hestinn og hundana, bæði inni í hesthúsinu sem og úti í gerði.

Engin krafa er gerð um að skjólstæðingur eigi að snerta eða koma nálægt hestinum en þá er hægt að setjast niður í heyið og spjalla um hestana. Það getur oft brotið ísinn að tala um þá eða við þá og þá er hægt að vinna traust skjólstæðingsins með samtalinu sem og nálægðinni við hestinn skref fyrir skerf. Aðgangur að inniaðstöðu er fyrir hendi og er hægt að nýta hana ef þurfa þykir. Í þeim tilfellum verður skjólstæðingur einn ásamt umsjónaraðilum og hestum í því rými, óviðkomandi fá ekki aðgang. Boðið verður uppá tvenns konar pakka þar sem annar inniheldur samneyti og samveru við hrossin og hin inniheldur hestbak, hvort sem er í gerði eða stuttur reiðtúr.

Skjólstæðingar læra ýmislegt um hesta, atferli þeirra og fleiri þætti sem einkenna þá. Einnig verður farið í umhirðu (kemba þeim og strjúka) og fóðrun, hvað þeir borða og hvað finnst þeim gott. Skjólstæðingur mun

ávallt vera í samneyti við dýrin undir leiðsögn/tilsögn en alfarið verður farið eftir því hversu tilbúin hann er í það samneyti. Mismunandi umhverfi verður nýtt, hesthúsið, gerði fyrir framan hesthúsið, reiðhöll og nánasta umhverfi sem hentar hverju sinni. Ef tilefni gefst og forsendur séu fyrir hendi stendur skjólstæðingnum til boða að fara á hestabak þar sem umsjónaraðili teymir undir viðkomandi. Fyllsta öryggis er gætt og eru helstu öryggisatriði og búnaður fyrir hendi.

Elísabet hefur verið í kringum hesta frá barnsaldri og alltaf átt dýr. Í dag á hún 3 hunda, Sólon 6 ára labrador/border collie, Ronju 5 ára chihuahua og Fíusól 3ja mánaða Flat coated retriver. Hún er með 3 hesta á húsi á Selfossi og á sumrin eru þeir á Hárlaugsstöðum í Ásahreppi. Árið 2013 fór Elísabet í brjóstnám vegna brjóstakrabbameins og þurfti í kjölfarið að taka sér frí frá hestamennsku í nokkrar vikur. Í endurhæfingunni nýtti hún sér hestana sína til að styrkja sig bæði andlega og líkamlega. Þrátt fyrir að hafa verið í kringum hesta alla sína ævi gerði Elísabet sér ekki grein fyrir þeim lækningarmætti sem þeir búa yfir. Hún kynntist þeim uppá nýtt og sá að þeir voru ekki síður mikilvægir í hennar endurhæfingarferli. Hestur, Hrammur frá Galtastöðum, sem Elísabet var vön að þjálfa og keppa á fann hvernig fyrir henni var komið og aðlagaði sig að hennar hæfni og ástandi. Eftir lyfjameðferð og endurhæfingu hefur samband Elísabetar og Hramms breyst og meira traust ríkir á milli þeirra.

Elísabet og Heiðdís Erla en það skal tekið fram að hún er ekki barn í verkefninu heldur ,,hestafósturbarn“ sem Elísabet tók að sér.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar