Viðar og Blakkur á leið úr landi

  • 26. september 2022
  • Fréttir
Tveir vinsælir stóðhestar yfirgefa landið

Hæst dæmdi stóðhestur heims, Viðar frá Skör, og Blakkur frá Þykkvabæ halda til Danmerkur á morgun. Það var svo sem alltaf stefnan að hestarnir myndu yfirgefa landið eftir að þeir skiptu um eigendur en það eru eflaust margir sem sjá á eftir þessum stóðhestum. Hestarnir eru báðir í eigu Gitte og Flemming Fast sem hafa keypt marga góða stóðhesta hér á landi þ.á.m. Kveik frá Stangarlæk og Hnokka frá Eylandi.

Viðar frá Skör sló heimsmet í sumar þegar hann hlaut 9,04 í aðaleinkunn, sýnandi var Helga Una Björnsdóttir. Viðar er jafn fallegur og hann er hæfileikaríkur en hann hlaut fyrir sköpulag 8,89 og fyrir hæfileika 9,12. Viðar er undan Hrannari frá Flugumýri II og Vár frá Auðsholtshjáleigu. Viðar á skráð nú þegar 106 afkvæmi en elstu afkvæmi hans eru fædd 2019 og því ættu fyrstu afkvæmi hans að vera koma í tamningu nú í haust.

Blakkur frá Þykkvabæ er líka Hrannarssonur en móðir hans er Lyfting frá Þykkvabæ I. Blakkur er með glæsilegan klárhestadóm en hann hlaut fyrir sköpulag 8,51 og fyrir hæfileika 8,35 sem gerir 8,41 í aðaleinkunn. Hann hlaut m.a. 9,5 fyrir bak og lend, tölt, brokk og hægt tölt. Blakkur var sýndur af Teiti Árnasyni og komu þeir fram á t.d. stóðhestaveislunni fyrr í vetur og vöktu mikla eftirtekt. Blakkur á 92 skráð afkvæmi, elstu afkvæmin eru fædd 2019 og því er fyrsti árgangurinn að koma í tamningu nú í haust.

Það verður spennandi að sjá hvað þessir hestar eiga eftir að skilja eftir sig hér á landi en það eru eflaust margir sem gleðjast á meginlandinu að fá þessa tvo kappa í stóðhestaflóruna þar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar