Heimsmeistaramót Frábær fimmgangskeppni – stefnir í hörku úrslit

  • 7. ágúst 2025
  • Fréttir

Elvar Þormarsson og Djáknar frá Selfossi toppuðu á réttum tíma. Ljósmynd: Henk & Patty

Lena og Tekla í efstu sætunum

Frábærir knapar og hestar voru skráðir til leiks í fimmgangi á heimsmeistaramótinu og sýningarnar í forkeppni eftir því. Flestir náðu að laða fram það besta í hestum sýnum og það stefnir í hörku keppni bæði í b og a-úrslitum.

Efst í fullorðinsflokki að lokinni forkeppni er Lena Maxheimer frá Þýskalandi á Abel fra Nordal með einkunnina 7,40. Í ungmennaflokki er það Tekla Petersson frá Svíþjóð á Vatnadísi från Noastallet sem leiðir með 6,90.

Lena og Abel leiða fimmgang í fullorðinsflokki. Ljósmynd: Henk & Patty

Glódís Rún Sigurðardóttir var fyrst Íslendinga í brautina á Snillingi frá Íbishóli en þetta er frumraun Glódísar í fullorðinsflokki á HM. Hún leysti sitt verkefni mjög vel og hlaut í einkunn 7,20 sem gefur henni sæti í A-úrslitum á sunnudag. Í viðtali við Eiðfaxa sagðist hún nokkuð ánægð með frammistöðuna en telur sig geta bætt í á tölti og skeiði.

Glódís og Snillingur á flugaskeiði. Ljósmynd: Henk & Patty

 

Þá var komið að Jóni Ársæli Bergmann og Hörpu frá Höskuldsstöðum en þau áttu góða sýningu að undanskildum erfiðleikum í niðurhægingu í seinni skeiðspretti, einkunn þeirra 6,87 sem skilar öðru sæti í ungmennaflokki og þátttökurétt í A-úrslitum. Jón sagði í samtali við Eiðfaxa að Harpa fengi nú að hvíla á morgun og þau myndi mæta fersk til úrslita í fimmgangi

Jón Ársæll og Harpa frá Höskuldsstöðum Ljósmynd: Henk & Patty

Elvar Þormarsson og Djáknar frá Selfossi virðast vera að toppa á hárréttum tíma og áttu þeir frábæra og jafna sýningu og hlutu í einkunn 7,33 og öruggt sæti í A-úrslitum. Í viðtali við Eiðfaxa sagði hann frá því að markmiðið hefði alltaf verið að toppa á þessum tímapunkti líkt og sjá má í viðtalinu hér að neðan og þakkaði dýralækninum Susanne Braun fyrir veitta aðstoð við að hafa Djáknar í toppstandi á heimsmeistaramóti

Elvar Þormarsson og Djáknar Ljósmynd: Henk & Patty

Þórgunnur Þórarinsdóttir og Djarfur frá Flatatungu stóðu sig vel í fimmgangskeppni dagsins og hlutu 6,40 í einkunn sem því miður dugði ekki til þess að komast í úrslit. Hún sagði frá því í viðtali að þetta hefði ekki gengið alveg eins og hún ætlaði en hún væri sátt við frammistöðuna.

Þórgunnur og Djarfur. Ljósmynd: Henk & Patty

Þórarinn Ragnarsson og Herkúles frá Vesturkoti voru síðastir Íslendinga í brautina og hlutu þeir í einkunn 6,83 sem skilaði þeim sæti í b-úrslitum en Þórarinn talaði um að hitinn hefði reynst þeim nokkuð erfiður þar sem orkan hefði dvínað eftir því sem á leið sýninguna.

Þórarinn Ragnarsson og Herkúles frá Vesturkoti Ljósmynd: Henk & Patty

Úrslitahestar í fimmgangi fullorðinna

# Knapi Hestur Einkunn
1 Lena Maxheimer Abel fra Nordal 7.40
2 Elvar Þormarsson Djáknar frá Selfossi 7.33
3 Pierre Sandsten-Hoyos Goðasteinn frá Haukagili Hvítársíðu 7.27
4 Glódís Rún Sigurðardóttir Snillingur frá Íbishóli 7.20
4 Frauke Schenzel Óðinn vom Habichtswald 7.20
6 Anne Frank Andresen Vökull frá Leirubakka 7.03
7 Þórarinn Ragnarsson Herkúles frá Vesturkoti 6.83
8 Caspar Logan Hegardt Oddi från Skeppargården 6.73
9 Oliver Egli Hákon frá Báreksstöðum 6.67
10 Carina Piber Milljarður frá Stóra-Aðalskarði 6.63

Úrslitahestar í fimmgangi ungmenna

# Knapi Hestur Einkunn
1 Tekla Petersson Vatnadís från Noastallet 6.90
2 Jón Ársæll Bergmann Harpa frá Höskuldsstöðum 6.87
3 Filippa Gram Kristall frá Skagaströnd 6.70
4 Rebecca Hesselbjerg Taulborg Tindra fra Kirstineholm 6.53
5 Palma Sandlau Jacobsen Búi frá Húsavík 6.43

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar