Hin hliðin – Jóhann Magnússon
Áfram höldum við að kynnast hinni hliðinni á hestamönnum víðsvegar um heiminn. Síðast skoraði Kristín Lárusdóttir á Jóhann Magnússon bónda og skeiðsnilling á Bessastöðum að sýna okkur hina hliðina.
Það stóð ekki á svörum að norðan.
Fullt nafn: Jóhann Birgir Magnússon
Gælunafn: Jói Magg
Starf: Bóndi
Aldur: 54
Stjörnumerki: Naut
Hjúskaparstaða: Giftur, svo vel giftur að konan mín skrifar þetta allt fyrir mig meðan ég sit makindalegur í hægindastólnum og þyl upp visku mína.
Uppáhalds drykkur: Hálfþurrt rauðvín með ávaxtakeim og þéttu tannini
Uppáhalds matur: Nautakjöt með öllu tilheyrandi eldað af sjálfum mér
Uppáhalds matsölustaður: Ísbúðin Brynja
Hvernig bíl áttu: Svartan pallbíl, reyni að finna ástæðu til að fara á honum ef konan vill að við förum á hennar bíl
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Lottó, það er svo stutt og mikill spenningur í konunni.
Uppáhalds tónlistarmaður: Freddie Mercury
Fyndnasti Íslendingurinn: Bjarni Mar.
Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Forðast bragðarefi.
Þín fyrirmynd: Allir sem geta eitthvað sem mig langar til að geta.
Mest óþolandi keppandi sem þú hefur mætt: Konni, því hann vinnur mig of oft og ekki hægt að þola hann ekki.
Sætasti sigurinn: Ég held að það sé í unglingakeppninni 1979 á Vindheimamelum um Verslunarmannahelgi. Þá sigraði ég Önnu Þóru Jónsdóttur, hún á stóðhestinum Greifa frá Vatnsleysu en ég á hestinum mínum honum Fjósa. Sýningin hennar var rosalega góð og ég ákað að vanda mig svo mikið að ég hélt niðri í mér andanum alla sýninguna. Var blár í framan þegar ég kom út af og púlsinn kominn langt yfir 200.
Mestu vonbrigðin: Vonbrigði eru af og til nauðsynleg áminning og hvatning til að gera betur.
Uppáhalds lið í íslenska boltanum: Tindastóll, félagið sem ég æfði og spilaði lengst af körfubolta með.
Uppáhalds lið í enska boltanum: Hef ekki tíma til að setja mig inn í þessi mál í Bretlandi.
Ef þú fengir að eiga einn hest, lífs eða liðinn, hvern myndir þú velja og af hverju: Eldjárn frá Hvassafelli. Fyrsti alhliða hesturinn sem ég sé, sem er svona ofboðslega góður, með yfirburða getu á öllum gangi og fallegur.
Efnilegasti hestamaður/kona landsins: Tel mig frekar efnilegan.
Fallegasti hestamaður/kona á Íslandi: Bróðir minn Magnús Bragi og við erum töluvert líkir.
Besti knapi frá upphafi: Meistari Reynir Aðalsteinsson. Hann er enn að segja mér til.
Besti hestur sem þú hefur prófað: Sá þekktasti af þeim er Hrímnir frá Hrafnagili. En hrossin sem ég er að rækta eru engu síðri, t.d. Mjölnir og Frelsun frá Bessastöðum og einbeitnin í Fröken er engu lík.
Uppáhalds staður á Íslandi: Svefnherbergið mitt og konunnar.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Ég vil ekki segja það upphátt.
Fyrir utan hestamennsku, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já íslenska körfuboltanum og spenntur fyrir árangri okkar afreksfólks á heimsvísu í öllum íþróttagreinum.
Í hverju varstu lélegastur/lélegust í skóla: Tungumálum, aldrei verið tungulipur.
Í hverju varstu bestur/best í skóla: Íþróttir, en hélt ég væri bestur í stærðfræði.
Vandræðalegasta augnablik: Þegar ég var að fara að keppa með Brynjar gamla og Borgar á Þytsvellinum uppi í Kirkjuhvammi. Ég gleymdi mér eitthvað og keyrði með þá upp að sláturhúsinu. Stuttu áður hafði ég verið að keyra naut í sláturhúsið. Ég fékk ærlega í magann fyrir hönd þessara höfðingja og dreif mig upp á völl hvar við gerðum góða ferð og náðum settu markmiði.
Hvaða þrjá hestamenn tækir þú með þér á eyðieyju: Gest Júlíusson dýralækni, útsjónarsamur og duglegur maður, sem kemur í veg fyrir að við sveltum og gæti jafnvel haft áhrif á að við kæmumst af eyjunni. Konuna mína, hún gæti komið í veg fyrir að ég geri alvarleg mistök og er snillingur með öll tæknileg vandamál. Ragga Hinriks til að létta okkur lundina og miðla af sinni miklu þekkingu.
Sturluð staðreynd um sjálfa(n) þig: Spila á þríhorn.
Hvaða hestamaður hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum/henni og af hverju: Ísólfur Líndal, fyrir einbeitnina.
Ef þú fengir eina spurningu til að spyrja hvern sem er, hver yrði spurningin og hvern myndirðu spyrja: Já, ég myndi klárlega spyrja Albert Einstein að því hvers vegna hann valdi akkúrat þessa bókstafi í jöfnu afstæðiskenningarinnar.
Ég tilnefni Svavar Örn Hreiðarsson
Til tilbreytingar er ekki skeiðmynd heldur töltmynd. Jói og Frelsun frá Bessastöðum 🙂
Hin hliðin – Kristín Lárusdóttir
Hin hliðin – Eysteinn Leifsson
Hin hliðin – Lilja Pálmadóttir
Hin hliðin – Andrea Margrét Þorvaldsdóttir