Á sagnaslóð við smalamennsku

  • 4. desember 2020
  • Fréttir

fjallhestarnir fegnir að fá að grípa niður fyrir aftan þá má sjá hið tignarlega Hrútfell

Fjallferð á Biskupstungnaafrétt

Í nýútkomnu tímariti Eiðfaxa er heitir Eiðfaxi Haust er að finna ferðagrein ritstjóra blaðsins sem segir frá fjallferð sem hann fór í haust með Biskupstungnamönnum. Þau leiðinlegu mistök urðu við vinnslu tímaritsins að það vantar hluta greinarinnar og því birtist greinin í heild sinni hér á vef Eiðfaxa.

Á sagnaslóð við smalamennsku – Fjallferð á Biskupstungnaafrétt

Landsvæðið er nefnist Kjölur er víðáttu mikið svæði á milli Langjökuls í vestri og Hofsjökuls í austri, Hvítá í suðri að Blöndu og Seyðisá í norðri. Þar eru m.a. afréttarlönd Biskupstungnahrepps hins forna. Hvíta og Hvítárvatn skipta svo afréttinum í tvennt því yfirleitt er talað um framafrétt þar fyrir sunnan. Afréttur Tungnamanna liggur að afréttarlöndum Austur-Húnavatnssýslu í norðri og Hrunamannahrepps í austri. Landsvæði þetta allt er samofið sögu þjóðarinnar því Kjalvegur var þjóðleið á milli landshluta og í fornsögunum eru til frásagnir af þessari leið og ýmsum þjóðsögum og öðrum sögnum sem gerðust á þessum slóðum. Það að vera við smalamennskur á þessu svæði setur því ímyndunaraflið á fullt og auðvelt er að láta söguna verða ljóslifandi allt í kringum sig og ímynda sér bæði bjarta daga sem og hörmungar þeirra sem þar lentu í vondum veðrum og hrakningum. Inn á miðhálendi Íslands á íslenska sauðkindin sumarhaga sína og unir sér þar vel frjáls í fjallasölum. Hálendið yrði aumt og líflaust að sjá ef hennar nyti ekki við. Í þessari grein má lesa ferðasögu greinarhöfundar þar sem hann var ásamt 25 öðrum fjallmönnum úr Biskupstungum á ferð á hestum við smalamennskur á sauðfé.

Afréttur á sagnaslóð

Liðið er hátt á aðra öld,
enn mun þó reimt á Kili,
þar sem í snjónum bræðra beið,
beisklegur aldurtili.

Þannig hefst hið magnþrungna ljóð eftir Jón Helgason er heitir Áfangar og fjallar um ýmsa merkisstaði á landinu. Með þessum upphafsorðum vitnar hann í hinn hörmulega atburð sem átti sér stað í Kjalhrauni árið 1780 þegar Reynistaðabræður urðu þar úti ásamt þeim Sigurði Þorsteinssyni á Daufá, Guðmundi Daðasyni frá Reyni, Jóni Austmann og tæplega 200 kindum og 16 hrossum. Ekki er hægt að byrja þessa grein án þess að minnast á þennan hörmulega atburð því nú í haust eru liðin 240 ár frá honum.
Dauði Reynisstaðabræða hafði í raun áhrif á nær allt þjóðlíf og varð til þess að Kjalvegur var nær ónotaður í tugi ára sökum þess hve landsmenn voru hræddir við reimleika og útilegumenn. En áður en hin eiginlega ferðasaga hefst skulum við lesa niðurlag fyrsta erindis Áfanga.

Skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
Hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.

Stoppað í Kjalhrauni við rætur Kjalfells þar sem þeim fjallmönnum sem ríða áttu inn að Hveravöllum var skipað í leitir

Um Strýtur á Hveravelli

Upphafið á fjallferð þessari var í Svartárbotnum en þar er Gíslaskáli, þangað sem flestum fjallmönnum og hrossum þeirra hafði verið ekið laugardaginn 5. September. Áður fyrr var riðið neðan úr byggð en nú í seinni tíð verður það algengara að fjallmönnum og hestum þeirra sé ekið inn á afrétt. Smalarnir hafa ýmist tvo eða þrjá hesta með sér til reiðar og má því ætla að alls hafi verið 60 hross með í ferðinni.Þetta kvöld var snæddur kvöldverður og næstu dagar ræddir auk þess að tekið var hraustlega til við söng áður en haldið var til hvílu.

Snemma morguns á sunnudeginum voru svo hestarnir beislaðir og Guðrún Magnúsdóttir í Bræðratungu, fjallkóngur Tungnamanna, skipaði í leitir og var smölum skipt í tvo hópa, annars vegar þá sem leita áttu svæðið inn að Hveravöllum, norður Kjalhraun, og hins vegar þeir sem leita áttu Austurkrókinn, en svo nefnist landsvæðið norðaustur af Svartárbotnum og nær það austur undir Hofsjökul og fram að Jökulfalli sem skilur að Biskupstungur og Hrunamannahrepp. Greinarhöfundur fór með þeim hópi er ríða átti inn að Hveravöllum og var för okkar heitið í upphafi í vestur í átt að Kjalfelli þar sem hópnum var svo skipt í leitir. Mér var falið að leita yfir Kjalhraun og í norðurátt um Strýtur inn að Hveravöllum.
Strýtur standa í 840 m.y.s. og eru þær hluti af þeim gígum sem Kjalhraun rann úr. Á þessu svæði er heilmikil fjárvon og snúast smalamennskur í fyrstu um að reka féð vestur á bóginn þar sem það er svo rekið suður vestan við Kjalfell. Eftir að komið er nær Strýtum er féð rekið inn að Hveravöllum þar sem því er safnað saman í gerði og ýmist rekið fram Kjalhraun daginn eftir eða það tekið á kerru og keyrt fram í Svartárbotna, allt eftir fjölda, í ár voru 48 hausar sem komu að inn á Hveravöllum og því hægt að koma þeim fyrir á kerru.

Guðrún Magnúsdóttir fjallkóngur gáir til kinda, í baksýn má sjá Kjalell í þokuslæðu. Mynd: Ragna Emilsdóttir Simson

Hveravellir eru ein af náttúruperlum Íslands en þeir tilheyra í raun Austur-Húnavatnssýslu. Þau Fjalla-Eyvindur og Halla, sem eru einhverjir frægustu útilegumenn landsins, höfðust við í tvígang á Hveravöllum í útlegð sinni. Þar mun að öllum líkindum hafa farið betur um þau en á mörgum öðrum stöðum því þar er nóg af heitu vatni. Einn af hverunum þar nefnist Eyvindarhver en í kringum hann er forn hleðsla sem talið er að þau hjú hafi hlaðið til að sjóða mat í. Áður fyrr gistu fjallmenn á Hveravöllum en nú er þeim ekið í Gíslaskála, hestarnir dveljast þó þar í rúmgóðri girðingu þar sem þeim er gefið áður en haldið er í Gíslaskála. Dagur þessi var um 22 kílómetrar, en margir smalar munu hafa farið töluvert lengri dagleið en greinarhöfundur þennan daginn.

Andstæður í jökli og gróðri

Mánudaginn 7. september var vaknað klukkan hálf fimm um nóttina og hafragrauturinn borðaður áður en haldið var aftur akandi að Hveravöllum. Ráðskonur þeirra Tungnamanna, Camilla Ólafsdóttir og Guðný Rósa Magnúsdóttir, sáu um grautargerð auk þess að hafa smurt nesti tilbúið fyrir fjallmenn. Þeir nafnar Egill Guðjónsson og Egill Jónasson sáu svo um að keyra fjallmenn inn á Hveravelli, en þessir tveir kappar sáu um að koma trússi á milli staða og sækja sauðfé þangað er þess gerðist þörf.

Venju samkvæmt skipaði fjallkóngur í leitir er komið var á Hveravelli og var ég sendur ásamt þeim Kjartani Sveinssyni í Bræðratungu, Rúnari Guðmundssyni á Vatnsleysu og Þorgeiri Ólafssyni, tamningamanni í Fellskoti, vestur á bóginn en verkefni dagsins var að leita svæðið vestan Fúlukvíslar, frá Fögruhlið fram í Þverbrekkur.

Við riðum af stað um Tjarnadali, með fram fellinu Stélbratti og til móts við okkur blasti Oddnýjarhnjúkur sem rís í tæplega 1100 m.y.s. Í upphafi ferðuðumst við á afrétti Húnvetninga því sauðfjárveikivarnagirðingin, sem girt var á milli jökla til varnar mæðuveiki, var fyrir sunnan okkur. Þegar Tjarnadölum sleppir taka við Miðdalir þar fórum við í gegnum hlið á girðingunni og vorum þá aftur komnir inn á afrétt Tungnamanna, þar riðum við um Sóleyjardal  og tókum stefnuna í átt að Þröskuldi og í Þjófadali.

Þjófadalir er einn af merkilegri stöðum afréttarins en þar er ákaflega fagurt og friðsælt. Nafngiftin er talin tengjast þjóðsögum um þjófa sem þar lögðust úti en margar sögur tengjast þessum fallega dal sem umkringdur er allháum fjöllum. Þeirra tignarlegastur er Rauðkollur sem rís í 1075 m.y.s. Í Þjófadölum var löngum náttstaður Húnvetninga og Biskupstungnamanna í göngum og þar má reikna með að hafi verið margar gleðistundir en á sama tíma oft reynt á mannskapinn í ýmsum veðrum eins og kveðskapur þessi ber með sér.

 

Brattar fjalls um brúnir hér
blása vindar svalir.
Þar sem hist nú höfum vér
heita Þjófadalir

Vindar svalir suðri frá
sveima um kalinn völlinn.
Þó skal smala þökugrá
Þjófadalafjöllinn

Séð yfir Þjófadali ofan af Þröskuldi. Rauðkollur er hæsti tindurinn fyrir miðri mynd undir regnboganum. Ef vel er að gáð má sjá þrjá smala og hesta þeirra nálgast geisla morgunsólar.

Úr Þjófadölum héldum við yfir Þverfell og í átt til Fögruhlíðar. Hlíð þessi ber nafn með rentu en þar mætast miklar andstæður í landslaginu því Fagrahlíð er alsett blómlegum gróðri en rétt innar er Langjökul kaldur og líflaus. Fúlakvísl rennur úr Langjökli með fram Fögruhlíð og þarf að koma því fé sem þar er yfir hana, en hún getur verið töluverður farartálmi í rigningatíð og leysingum. Alls voru 15 stykki,bæði ær og lömb, í Fögruhlíð. Það þurfti smá tíma til þess að sannfæra þær um að leggja í kvíslina en yfir komust þær þrátt fyrir það að lenda á sundi og berast spölkorn niður með straumnum. Þorgeir fylgdi svo fénu yfir Fúlukvísl og sá til þess að þær kæmust saman við það fé sem þeir smalar sem næstir okkur voru ráku á undan sér.

Úr Fögruhlíð var för okkar hinna svo heitið niður á milli Innra- og Fremra Sandfells og þar fram með hæsta fjallinu á þessum slóðum, Hrútfelli, sem rís í 1400 m.y.s. Hrútfell er gífurlega tignarlegt og voldugt fjall en ofan á því er Hrútfellsjökull sem stundum er einnig kallaður Regnbúðajökull.

Hrútfell er tignarlegt og voldugt með tveimur skriðjöklum á milli hárra tinda

Þegar við komum fram að Þverbrekkum skiptum við okkur og ég reið austur með brekkunum, að Fúlukvísl og niður með henni austan við Þverbrekknamúla. Suðvestan undir múlanum stendur reisulegur kofi Ferðafélagsins, þar hittumst við félagarnir aftur og  riðum svo sem leið lá austur yfir Fúlukvísl og svo beina stefnu í Gránunes og þaðan í Gíslaskála. Þangað vorum við komnir um kvöldmatarleytið eftir að hafa ferðast u.þ.b. 55 kílómetra í misjöfnu landslagi.

Aftur vestur á bóginn

Á þriðjudeginum voru hestarnir beislaðir rétt fyrir sólarupprás í fallegu og björtu veðri. Þennan dag var mér falið að fara aftur vestur á bóginn með Kjartani í Bræðratungu og áttum við m.a. að  leita svæðið inn að Langjökli vestan við Hrútfell, Leggjabrjót, Innri-Fróðárdal og að lokum Karlsdrátt.

Með okkur í för voru þeir fjallmenn sem leita áttu Baldheiði og Hrefnubúð.
Eftir að yfir Fúlukvísl var komið kvöddum við Kjartan félaga okkur og riðum í átt að suðurenda Hrútfells og þaðan í vestur inn í Hrútfellskrók , þar sem hnjúkurinn, Fjallkirkja trónir tignarlega upp úr Langjökli. Þarna vorum við í algjörri kyrrð fjarri öllum skarkala heimsins og ekkert heyrðist nema hófadynur í hestum okkar þar sem þeir fetuðu rólegir yfir urð og grjót. Sunnan við okkur blasti gígurinn Sólkatla við og hraunið Leggjabrjótur sem rann þar fyrir rúmum 10.000 árum.
Á vegi okkar urðu m.a. leifar af kofa sem fyrir löngu er hruninn. Ekki er vitað hversu gamalt þetta mannvirki er og engar heimildir til um tilgang þess, ekki er óvíst að hann tengist vist útilegumanna. Þá líka megi telja að kofinn tengist gamalli þjóðleið, en allar getgátur eru skyldar eftir fyrir ímyndunaraflið að glíma við. Ekki urðum við varir við sauðfé á þessum slóðum en hér áður fyrr gekk heilmikið fé á þessu svæði.
Þegar við komum að Hvítárvatni var mér falið að gæta hesta okkar Kjartans meðan hann gekk í Karlsdrátt, en þangað er ekki fært ríðandi.
Karlsdráttur er vogur sem gengur úr Hvítárvatni. Nafn staðarins er dregið af því að þar á Karl nokkur frá Skálholti á að hafa komið ár hvert með folaldsmeri með sér en hann geymdi folaldið öðrum megin við voginn og lét svo hryssuna synda yfir með vað á eftir sér. Síðan notaði Karl vaðinn til að koma silunganeti fyrir í voginum.
Það tók Kjartan tvær klukkustundir að ganga í Karlsdrátt og til baka á meðan beið ég og vakti yfir fjallhestunum sem undu sér vel í fallegu umhverfi Hvítárvatns.
Ekki var sauðfé að finna í Karlsdrætti en síðast kom Kjartan með tvílembu þaðan árið 2015. Eftir að við höfðum borðað nestið okkar var haldið af stað til baka.
Við  gerðum tilraun til þess að stytta okkur leið yfir Hvítárnes en komumst ekki yfir Fróðá í henni rann einnig Fúlakvísl, en misjafnt er hvar Kvíslin ryður sér fram á milli ára og var hún illfær vegna sandbleyta og jökulleirs.
Við riðum því til baka með fram Hrefnubúð og þar yfir Fúlukvísl og heim í Árbúðir þar sem gist var næstu nótt. Sú vegalengd sem við ferðuðumst á hestum þennan dag voru rúmir 62 kílómetrar.

Greinarhöfundur fylgist með fjallhestum við Hvítarvatn vinstra megin á myndinni má sjá Hrefnubúð en hægra megin er Bláfell

Í Einifell

Eins og áður hefur komið fram í greininni að þá skiptist Biskupstungnaafréttur í tvo hluta, svæðið fyrir innan Hvítá og Hvítárvatn, og framafrétt sem er þar fyrir sunnan. Miðvikudaginn 9.septembervar smalað frá Árbúðum fram undir mitt Bláfell, austan og vestan megin fjallsins. Bláfell stendur sunnan Hvítár og smölun á framafréttinum því hafin.
Eins og smalamennskum er háttað á okkar tímum að þá eru þrír smalar sendir þennan dag að Skálpanesi niður með Jarlhettum og að Einifelli þar sem þeir gista í kofa Ferðafélagsins sem þar stendur. Þessir smalar eiga svo daginn eftir að leita svæðið með fram Sandvatni að brúnni yfir Sandá þar sem féð er svo rekið yfir. Greinarhöfundur var einn af þeim sem var sendur í þetta verkefni en auk mín voru það þeir Trausti Hjálmarsson í Austurhlíð og Baldur Gauti Tryggvason frá Selfossi.

Við lögðum af stað eftir veginum frá Árbúðum í átt að Bláfelli í dásamlegu veðri logni og sól. Eftirvæntingin var mikil að komast í svo fallegu og björtu veðri að Jarlhettum og ríða niður með þeim, enda útsýnið þar engu líkt auk þess að sú leið er sjaldan eða aldrei riðin nema í þessum erindagjörðum. Þegar við vorum komnir suður yfir Hvítá og upp á Bláfellsháls sáum við að farið var að rigna niður í byggð. Við Vörðuna, sem er sennilega stærsta varða á Íslandi og stendur við Kjalveg, beygðum við til vesturs og riðum eftir vegi sem liggur að skála sem stendur í Skálpanesi, en það er töluverð hækkun því Skálpanes er í rúmum 800 m.y.s. og því er hækkunin frá Árbúðum í kringum 500 metrar. Þegar við komum í Skálpanes skall hins vegar á með snjókomu og í kjölfarið gerði blindþoku, útsýnið við Jarlhettur var því lítið sem ekkert. Þrátt fyrir að hafa ekki séð þessa tignarlegu tinda, sem rísa í rúmum 1000 m.y.s., fann maður greinilega fyrir krafti þeirra.

Skyggnið við Jarlhettur var ekki mikið og eins gott að missa ekki af hinum fjallmönnunum enda auðvelt að villast á svörtum sandi þar sem kennileiti eru enginn

Í Einifell komumst við síðla dags eftir að hafa ferðast 44 kílómetra. Verkefni fimmtudagsins 10. september var svo að leita svæðið frá Einifelli niður með Farinu, en það nefnist jökullituð kvísl sem rennur úr Hagavatni í Sandvatn, um Bolhaus og syðsta hluta Sandvatnshlíðar, niður með Sandá að brúnni yfir Sandá. Rétt sunnan Sandár er safnið rekið í svo kallaða rennu og henni lokað, safnið getur þá runnið áfram fram Hólaland en ekki runnið til baka á áður smalað svæði. Rennan er tilkomin vegna landgræðslugirðingar.  Á þessum degi fundum við 30 ær og lömb og hittum fyrir aðra fjallmenn við Sandá en þá er nær allt safn Tungnamanna komið saman sem ætla má að sé nú á dögum um 5000 fjár. Bættust þennan dag við 17 kílómetrar en um kvöldið voru fjallmenn sóttir að Sandá og gist var heima í byggð.

Tunguheiði og fram í réttir

Föstudaginn 11. september voru smalar samankomnir við Sandá snemma morguns því nú var hátíðisdagur þegar reka átti safnið til rétt. Auk þess þurfti að leita Tunguheiðina og Hólahagana. Hólahagarnir eru svæði sem tilheyrði jörðinni Hólar, jörðin fór í eyði 1958 þá keypti Biskupstungnahreppur jörðina og lagði hana undir afrétt. Tunguheiði er um 2000 hektara svæði inn með Hvítá að Sandá.
Heiðin er eign Bræðratungukirkju og  dregur nafn sitt af Bræðratungu. Árið 1997 var heiðinni og hluti af landi Hóla, afgirt og friðað fyrir beit, var það samstarfs verkefni landeigenda og Landgræðslunnar, til stendur að opna svæðið aftur fyrir beit 2024. Þó að heiðin sé afgirt og friðuð þarf að leita  svæðið þar sem nokkrar flökkukindur hugsa sér gott  til glóðarinnar og dvelja þar á sumrin enda Tunguheiðin öll orðin gróðri vaxin.
Erfitt er að smala þetta svæði enda mikið um lúpínu og stórgrýti og bæði hestar og menn eiga erfitt með að hreyfa sig  snarlega á eftir því sauðfé sem þar er sem gjörþekkir oft allar leiðir. Eftir að það fé sem kom af Tunguheiðinni, alls 46 kindur, hafði verið sameinað við safnið var það rekið niður í gegnum Hólaland að afréttargirðingunni. Þá er það rekið í gegnum Kjóastaðahagana, þeir ná allt niður að þjóðvegi, yfir þjóðveginn er farið að Myrkholti. Þar er snæddur hádegismatur og féð fær hvíld. Þaðan er svo rekið um Gýgjarhólshaga fram í Kjarnholtarhaga. Eftir að Kjarnholtalandi sleppir er safnið rekið sem leið liggur niður Eystri-Tunguna eftir Einholtsvegi  og yfir brúnna á Tungufljótinu og í Tungnaréttir, sem eru rétt sunnan við brúnna. Fór greinarhöfundur 31 km þennan dag ef smalamennska á Tunguheiðinni er meðtalin.

Sú ævintýraþrá að fá að ferðast um á hestum við smalamennskur inn á fjöllum er ólæknandi sjúkdómur. Í ferðum sem þessum kynnist maður best úthaldi, fótfimi, kjarki og ásetugæðum íslenska hestsins. Á þeim 6 dögum sem ég var á ferðinni við smalamennskur með fjallmönnum á Biskupstungnaafrétti ferðaðist ég um 230 kílómetra en reikna má með því að þar sé töluvert vanreiknað því ég studdist við Kortasjá til þess að mæla vegalengdir í svo til beinum loftlínum. Það vantar því alla þá króka og útúrdúra sem maður tekur á leið sína við það að leita að sauðfé í illfæru landi.

 

Safnið rekið fram til Tungnarétta

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<