Álfaklettur einni kommu frá heimsmeti

  • 11. júní 2020
  • Fréttir
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum og Olil Amble
Yfirlitssýningu lokið í Hafnarfirði

Fyrr í dag lauk yfirlitssýningu kynbótahrossa í Hafnarfirði þar sem fjöldi glæsigripa sýndi sínar bestu hliðar og háar einkunnir litu dagsins ljós.

STÓÐHESTAR

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum hlaut hæstu aðaleinkunn sýningarinnar og var aðeins einni kommu frá því að jafna heimsmet Þráins frá Flagbjarnarholti. Álfaklettur hlaut fyrir sköpulag 8,82, fyrir hæfileika 9,01 og í aðaleinkunn 8,94. Sýnandi var ræktandi og eigandi Álfakletts, Olil Amble.
Skammt á hæla Álfakletts í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri kom Rauðskeggur frá Kjarnholtum með 8,76 fyrir sköpulag og 8,92 fyrir hæfileika – aðaleinkunn upp á 8,87. Knapi var Daníel Jónsson.
Í þriðja sæti í þessum flokki var svo moldótti glæsigripurinn Arthúr frá Baldurshaga, setinn af Teiti Árnasyni. Arthúr hlaut fyrir sköpulag 8,79 og fyrir hæfileika 8,69, skeiðlaus. Hæfileikaeinkunn Arthúrs án skeiðs hljóðar upp á litla 9,30 og fékk hann m.a. 9,5 fyrir tölt, brokk, greitt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið.
Henning Drath hjá Isibless sendi Eiðfaxa þessa skemmtilegu klippu frá þessu magnaða holli:

Í flokki 6 vetra stóðhesta stóð efstur Eldjárn frá Skipaskaga með sköpulag upp á 8,74 og hæfileika upp á 8,71 – aðaleinkunn 8,72. Knapi var Daníel Jónsson.

Í flokki 5 vetra stóðhesta stóð efstur Hávaði frá Haukholtum með sköpulag upp á 8,74 og hæfileika upp á 8,28 – aðaleinkunn 8,45. Knapi var Daníel Jónsson.

Í flokki 4 vetra stóðhesta stóð efstur Goði frá Oddgeirshólum 4 með sköpulag upp á 8,19 og hæfileika upp á 8,01 – aðaleinkunn 8,07. Knapi var Eyrún Ýr Pálsdóttir.

HRYSSUR

Í flokki hryssa 7 vetra og eldri stóð efst Fold frá Flagbjarnarholti. Fold hlaut fyrir sköpulag 8,36 og fyrir hæfileika 8,93 – aðaleinkunn upp á 8,73. Knapi var Ævar Örn Guðjónsson.

Í flokki 6 vetra hryssa stóð efst Mirra frá Tjarnastöðum sem hlaut fyrir sköpulag 8,46 og fyrir hæfileika 8,53 – aðaleinkunn upp á 8,51. Knapi var Daníel Jónsson.

Í flokki 5 vetra hryssa stóð efst Lýdía frá Eystri-Hól. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,57 og fyrir hæfileika 8,39 en Lýdía er klárhryssa og var hæfileikaeinkunn hennar án skeiðs heilir 9,01. Aðaleinkunnin hljóðaði upp á 8,51. Knapi var Ævar Örn Guðjónsson.

Í flokki 4 vetra hryssa stóð efst Flugsvinn frá Ytra-Dalsgerði sem hlaut fyrir sköpulag 8,54 og fyrir hæfileika 7,73 – aðaleinkunn upp á 8,01. Knapi var Ævar Örn Guðjónsson.

Á morgun, föstudaginn 12. júní, fara svo fram tvær yfirlitssýningar, annars vegar á Gaddstaðaflötum við Hellu og hins vegar á Hólum í Hjaltadal. Báðum sýningunum verður streymt beint hér á eidfaxi.is.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<