Daníel Ingi með þrefaldan sigur í skeiðgreinum

  • 3. maí 2021
  • Fréttir

Berglind og Daníel Ingi náðu bæði frábærum árangri á íþróttamóti í Romme. Mynd: Aðsend

Mótahald og kynbótasýningar virðast vera að komast á skrið í Evrópu því um helgina fóru fram tvö mót í Svíþjóð annars vegar á Romme og hinsvegar á Sundabakka. Nokkrir íslendingar náðu góðum árangri á þessum mótum.

Á Romme vekur athygli að Daníel Ingi Smárason sigraði í þremur keppnisgreinum í skeiði. 250 metra, 150 metra og gæðingaskeiði. Hann keppti á Huldu fran Margreterhof í gæðingaskeiði og hlaut þar 8,29 í einkunn og 250 metrana runnu þau á frábærum tíma 22,13 sekúndum. Í 150 metra skeiði sat hann á Rekk från Lövhagen og náði besta tímanum, 15,64 sekúndum. Á sama móti vann Berglind Rósa Guðmundsdóttir keppni í fimmgangi á Felix från Änghaga með einkunnina 7,05.

Í tölti T1 voru það Eyjólfur Þorsteinsson og Háfeti frá Úlfsstöðum sem hlutu hæsta einkunna í forkeppni (7,83) skammt á eftir honum var Erlingur Erlingsson á Álfi från Granmyra (7,73). Hvorugur þeirra mætti þó í úrslit.

Á Sundabakka var Vignir Jónasson með tvo efstu hesta í tölti T1. Hann hlaut hvorki meira né minna en 8,23 á Viking fran Österaker og 7,77 á Eyvindi frá Eyvindarmúla. Sigurjón Örn Björnsson var með bestu einkunnina í fjórgangi 6,83. Hrafnkell Karlsson og Lækur frá Efsta-Seli náðu svo í besta tíman í 100 metra skeiði.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<