Ég fordæmi!

  • 5. júní 2020
  • Fréttir

Athugasemd frá Valdimar Kristinssyni:

Ég fordæmi þá orðnotkun sem öðru hvoru og allt of oft skýtur upp kollinum þegar menn kalla það fordóm þegar hross eru sýnd í fyrstu eða fyrri sýningu í kynbótadómi. „Hlaut hann 8,81 í fordómi“ segir í frétt Eiðfaxa nýlega en um sama efni á Hestafréttum segir hinsvegar „Jökull frá Breiðholti í Flóa stendur efstur eftir forsýningar á Hellu“.

Mér hugnast ekki að menn noti orðið fordómur sem hefur afar neikvæða aðra merkingu en hér ræðir um. Þetta mjög svo neikvæða orð er einmitt mikið notað þessa dagana og þá með tengingunni við kynþátta-fordóma. Eigum við ekki bara að leyfa þessu orði að vera í friði í þessari meiningu þegar íslenskan býður upp á aðra betri kosti eins til dæmis að nota orðið forsýning. Það fellur mjög vel við orðið yfirlitssýning. Sem sagt hrossin fara fyrst í forsýningu og síðan er það yfirlitssýning og stundum endað með verðlaunasýningu eins og til dæmis á landsmótum.

Orðið fordómur hefur því miður náð nokkurri útbreiðslu og það sem kannski verst er þegar þulir á kynbótasýningu eru farnir að nota það.

Sem sagt út með fordóma úr kynbótadómum og notum forsýningar þess í stað.

 

Eiðfaxi þakkar ábendinguna, sá er vinur er til vamms segir!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar