Íslendingar tróna á toppnum í 250 metra skeiði
Á heimasíðu FEIF er að finna alþjóðlega stöðulista ársins í ár byggða á einkunnagjöf í forkeppni alþjóðlegum mótum (WR). Þar eru tvær hæstu einkunnir/tími knapa og hests lagðar saman og meðaltal þeirra raðar þeim niður á stöðulista.
Á næsta ári er framundan Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss og því áhugavert að skoða þessa stöðulista sem gefa fyrirheit um það hvers er að vænta á því móti. Ljóst er þó að við eigum ekki von á því að sjá öll þessi pör á því móti auk þess að fleiri knapar munu leggja meiri metnað og orku í næsta keppnistímabil með heimsmeistaramótið í huga.
250 metra skeið
Í þessari lengstu grein skeiðkappreiðanna eru það íslenskir knapar sem trjóna á toppnum. Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk eru efsti á þessum lista en skammt á eftir þeim er Sigursteinn Sumarliðason á Krókusi frá Dalbæ. Þriðja besta árangur ársins á Þorgeir Ólafsson á Rangá frá Torfunesi, í fjórða sætinu er Gústaf Ásgeir Hinriksson á Sjóði frá Þóreyjarnúpi og fimmta besta árangurinn á Árni Björn Pálsson á Ögra frá Horni.
Ríkjandi heimsmeistari í þessari grein er Elvar Þormarsson sem sigraði keppinauta sína eftirminnilega á Fjalladís frá Fornusöndum. Fjalladís er nú með nýjan knapa, Sigurð Óla Kristinsson, sem vafalaust setur stefnuna á HM en hann keppti fyrir hönd Danmerkur á Norðurlandamóti og vann þar gæðingaskeið. Elvar sagði í viðtali við Eiðfaxa að hann stefni með Djáknar frá Selfossi á HM í fimmgang. Líklegt verður því að teljast að nýr Heimsmeistari verði krýndur í þessari grein á næsta ári.
Þeir Sigursteinn Sumarliðason, Þorgeir Ólafsson og Gústaf Ásgeir Hinriksson eru allir í landsliðshópi Íslands en það eru þeir Árni Björn Pálsson og Konráð Valur Sveinsson ekki.
P1 – 250 m | |||
# | Knapi | Hestur | Tími |
1 | Konráð Valur Sveinsson | Kastor frá Garðshorni á Þelamörk | 21,515 |
2 | Sigursteinn Sumarliðason | Krókus frá Dalbæ | 21,535 |
3 | Þorgeir Ólafsson | Rangá frá Torfunesi | 21,785 |
4 | Gústaf Ásgeir Hinriksson | Sjóður frá Þóreyjarnúpi | 21,935 |
5 | Árni Björn Pálsson | Ögri frá Horni | 22,01 |