„Lagðist undir feld í þrjá daga og þetta er útkoman“

  • 8. september 2021
  • Fréttir

Lið Þjóðólfshaga / Sumarliðabæjar. Liðsmenn eru Sigurður Sigurðarson, Ólafur Ásgeirsson, Metta Moe Mannseth, Bjarni Jónasson og Þórarinn Eymundsson

Nýtt lið í Gangmyllunnar í Meistaradeildinni í hestaíþróttum.

Lið Gangmyllunnar í Meistaradeildinni hefur tekið breytingum fyrir keppnistímabilið 2022. Fjórir knapar hættu í liðinu og því tók Sigurður Sigurðarson liðsmaður Gangmyllunnar málið í sínar hendur og ákvað að stofna nýtt lið. Það eru engir aukvissar sem Sigurður fékk með sér en það eru þau Bjarni Jónasson, Mette Moe Mannseth, Ólafur Brynjar Ásgeirsson og Þórarinn Eymundsson.

“Það er skarð fyrir skildi að missa út liðsfélaga mína úr Gangmylluliðinu, þau Olil, Berg, Elínu og Ævar og ekkert létt verk að fylla það skarð. Ég lagðist undir feld í þrjá daga, var reyndar ekki allann tímann undir feldinum en niðurstaðan úr því hjá mér var að ég þyrfti að renna norður í land sem ég gerði í gær. Útkoman úr þeirri ferð varð svo sú að ég fékk til mín í liðið þrjá feikna sterka norðan knapa sem ég held að geti verið skemmtilegur vinkill fyrir deildina líka. Það eru þau Þórarinn Eymundsson, Mette Moe Mansett og Bjarni Jónasson. Síðan talaði ég við nágranna mína í Sumarliðabæ og fékk þau í lið með mér sem liðseigendur og Ólafur Ásgeirsson er þeirra fulltrúi í liðinu. Það er enginn búin að vinna þessa deild fyrirfram en við stefnum alla veganna hátt,” segir Sigurður og bætir við “ef að tekst að púsla þessu vel saman þá getum við verið skeinuhætt en það er víst alltaf best að láta verkin tala. Mig langaði að fá fólk með mér sem hefur eldmóð fyrir verkefninu eins og Olil og Bergur hafa haft. Liðið er mjög vel saman sett af knöpum með ólíka styrkleika og held ég að við munum ná að púsla þessu vel saman. Gríðarlega öflugir knapar sem eru með frábæran hestakost,” segir Sigurður liðsstjóri liðsins sem mun hljóta nafnið Þjóðólfshagi / Sumarliðabær.

Þeir Þórarinn Eymundsson og Ólafur Ásgeirsson hafa áður verið liðsmenn í deildinni en þetta er í fyrsta skipti sem þau Mette Mannseth og Bjarni Jónasson eru í deildinni. Það er alltaf gaman að sjá nýja knapa bætast í hópinn en þau hafa öll átt góðu gengi að fagna á keppnisvellinum undanfarin ár og verður því spennandi að fylgjast með þessu liði á komandi tímabili.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<