„Ljónheppin að geta starfað við áhugamálin“

  • 21. september 2020
  • Fréttir

Fríða á hryssunni Heklu frá Leirubakka mynd: Aðsend/einkasafn

Viðtal við Fríðu Hansen

Fríða Hansen reiðkennari og tónlistarkona frá Leirubakka í Landssveit gaf  út fyrir helgina lagið Tímamót ásamt myndbandi. Af því tilefni fannst Eiðfaxa tilvalið að heyra í henni og spyrja út í ýmislegt er tengist hestamennskunni og tónlistinni.

Hvernig  gengur að samtvinna hestamennsku og tónlist?
Það gengur ennþá mjög vel. Mér finnst ég ljónheppin að geta unnið bæði hvar og hvenær sem er og það að geta unnið við áhugamálin sín eru algjör forréttindi! Það hljótum við að geta verið sammála um. Ég vonandi næ að stilla strengi þannig áfram að þetta verði bara úrvals blanda ? .

Hver er innblásturinn að laginu tímamót?
Ég sæki innblástur að miklu leyti í náttúruna og fólkið í kringum mig. Lagið fæddist að hausti þegar mér fannst einsog lífið væri eintóm tímamót, sumarstarfsfólkið  ásamt vinunum sem voru í námi erlendis voru að fara á sama tíma og farfuglarnir, liturinn á grasinu að breytast úr grænum í gulan og haustið var ekki bara lent í hrossunum heldur líka í mér sjálfri. Tónlistin finnst mér svo frábært tæki til að ná utan um tilfinningar, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar!

Fríða við píanóið mynd:Aðsend

Hvað mun Fríða starfa við í vetur og hvar?
Ég er tónlistarkennari í ca. hálfu starfi og kenni á Flúðum, á Selfossi og svo aðeins í Reykjavík. Ég er líka mikið í reiðkennslu, bæði í einkatímum og svo í kennslu fyrir hestamannafélagið Sprett. Svo verð ég með mín skemmtilegustu hross inni í vetur á meðan ég set aðeins meiri kraft í tónlistina. Ég skráði mig í smá tónlistartengt nám sem ég hef verið að hlakka til að gera í nokkur ár nefnilega! Ég verð svo 1 til 2 daga í viku heima á Leirubakka líka til að aðstoða við bústörfin. Við Orri kærastinn minn og Sunna hundurinn okkar verðum í Reykjavík, en það hentaði best í þetta skiptið upp á nám og vinnu.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar