Mikilvægt að finna öllum hrossum verkefni til framtíðar

  • 11. apríl 2021
  • Fréttir

Hrossaræktarbúið á Skáney í Reykholtsdal í Borgarfirði er eitt elsta hrossaræktarbú landsins, en ræktun hefur verið stunduð þar markvisst í ríflega 75 ár.

Það var árið 1944 sem Marinó Jakobsson bóndi hóf að stunda hrossarækt þar og niðjar hans hafa haldið því merki á lofti allt síðan þá, fyrst Bjarni Marinósson og Birna Hauksdóttir kona hans og síðar tóku Haukur Bjarnason og Randi Holaker við keflinu.

Feðgarnir Haukur og Bjarni á hestunum Braga og Þórfinni frá Skáney, en báðir þessir hestar eru búnir að fara undir 8,o sekúndum 100 metrana.

Eiðfaxi hafði samband við Hauk og spurði hann hvernig tíðin fyrir vestan hefði verið í vetur. „Tíðin hefur verið þokkaleg svona yfirleitt“ segir Haukur. „Það er engin afsökun hjá okkur ef veður er slæmt þá er hægt að þjálfa í reiðhöllinni sem við höfum svo allir dagar eiga að nýtast. Mikið þjálfað og reiðkennsla er á góðu róli, eins hefur hrossasala verið með allra líflegasta móti síðasta árið, við höfum fundið talsverða  aukningu í sölu bæði innanlands sem erlendis. Í vetur höfum við verið með um 30 plús hross á húsi, þetta eru flest hross frá okkur. Við erum einnig að leiga nokkrar stíur út til annara sem vilja nýta aðstöðunna og félagsskapinn á staðnum.“

Randi og Þytur hafa gert það gott á keppnisvellinum undanfarið.

Þau Randi og Haukur sjá að mestu um þjálfun hrossana á Skáney ásamt dætrunum Kristínu Eir og Söru Margréti sem eru duglegar að taka þátt eins og tími er til. Einnig er Bjarni enn mjög iðinn á milli annara verka. Þau hafa jafnaframt verið dugleg að keppa síðustu misseri, á ekki að halda því áfram í vetur? „Við erum með í Vesturlandsdeildinni og eins erum við með í KS-deildinni annað árið í röð. Það var skemmtileg tilbreyting síðastliðinn vetur að skella okkur norður yfir heiðar og bera okkur saman við Norðlendinga oft  með ágætum árangri. Randi var t.d. í 3. sæti í einstaklingskeppninni í fyrra. Svo er stefnt á Fjórðungsmót Vesturlands sem verður án vafa skemmtilegt stórmót.“

Sóló og Kristin Eir

Aðspurður um hvaða hross séu best í hesthúsinu þessa stundina segir Haukur að það séu allmörg skemmtileg hross á húsi þennan veturinn mörg ung en uppistaðan séu 4 og 5 vetra hross. „Þekktustu nöfnin eru líklega reynsluboltarnir Sólon, Þytur og Ísar allir frá Skáney. Við erum líka með efnilega stóðhesta á 4., 5. og 6. vetur undan t.d. Hrannari frá Flugumýri, Auð frá Lundum, Straum frá Feti, Toppi frá Auðsholtshjálegu, Ský frá Skálakoti, Fork frá Breiðbólsstað, Álfgrími frá Syðri-Gegnishólum, Arion frá Eystra Fróðholti og Hreyfli frá Vorsabæ. Hryssurnar í húsinu eru undan t.d. heimahestunum Sóloni og Sókrates, Straum frá Feti, Eldi frá Torfunesi, Vita frá Kagaðarhóli, Skaganum frá Skipaskaga, Loga frá Oddsstöðum, Konsert frá Hofi og Herkúles frá Ragnheiðarstöðum svo einhverjir feður séu nefndir.“

FM 2013 Sólon og Þytur. Ljósmynd Kolbrún Grétarsdóttir

Kapparnir Sólon og Þytur frá Skáney hafa að öðrum ólöstuðum verið flaggskip búsins síðustu misseri og Haukur segir allt gott að frétta af þeim. „Sólon er við hestaheilsu í léttu trimmi hjá Kristínu Eir fyrir komandi sumar í að sinna hryssum. Það sem er sammerkt með afkvæmum Sólons er myndarskapur, auðtamin, gott ganglag og traust geðslag. Þytur er sömuleiðis í fullu fjöri í tveimur deildum í vetur, Meistaradeild KS og Vesturlandsdeild, sem aðal hestur hjá Randi. Þau munu skemmta sér áfram saman í sumar, kannski bara í ferð á Löngufjörur eða á fjórðungsmóti á Vesturlandi.“

Kristín Eir og Ísar Íslandsmeistarar í fimi barna 2020

Síðasta sumar fæddust 10 folöld í Skáney og mörg spennandi folöld og tryppi bíða þess að komast á tamningaaldur á næstu árum. Skáneyjarbændur hafa verið duglegir að sækja í úrvals stóðhesta á síðustu árum og nú eru til á búinu unghross undan Gaumi frá Auðsholsthjálegu, Sægrími frá Bergi, Ský frá Skálakoti, Stormi frá Herríðarhóli, Stála frá Kjarri, bræðrunum Draupni og Spaða frá Stuðlum, Gljátoppi frá  Miðhrauni, Forki frá Breiðabólsstað og Safír frá Mosfellsbæ, auk heimahestanna Sólons, Kapteins og Þrótts frá Skáney. Síðastliðið sumar fóru svo hryssur frá búinu undir þá Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum, Þráinn frá Flagbjarnarholti, Sólon frá Þúfum, Hrannar frá Flugumýri og Glampa frá Kjarrhólum. Aðspurður um áherslur þeirra í hrossarækt segir Haukur „Við leggjum mikið upp úr góðu geðslagi, myndarskap með gott ganglag. Alhliða hross með góðan klárgang sem er hægt að stilla upp í allar keppnisgreinar eins og t.d. Sólon og Þytur eru gangandi dæmi um.  Mikilvægt er að hægt sé að finna öllum hrossum verkefni til framtíðar þá eru þessir eiginleikar sem hafa verið taldir mest mikilvægir að okkar mati.“

Höfðinginn Sólon frá Skáney og Haukur Bjarnason Ljósmynd Kolbrún Grétarsdóttir

 

Eiðfaxi þakkar Skáneyjarbændum kærlega fyrir spjallið og er þess fullviss að þau munu verða áberandi á Fjórðungsmóti Vesturlands nú í sumar

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar