Nökkvi frá Syðra-Skörðugili seldur

  • 4. september 2020
  • Fréttir

Stóðhestamarkaðurinn er greinilega líflegur þessa dagana og nú hafa borist fregnir af því að enn einn gæðingurinn og Landsmótssigurvegari B-flokks frá 2016, Nökkvi frá Syðra-Skörðugili, hafi skipt um eigendur.

Nökkvi er tólf vetra gamall, undan Aðli frá Nýjabæ og Láru frá Syðra-Skörðugili. Hans hæsti kynbótadómur hljóðaði upp á 8,55 fyrir sköpulag, 8,73 fyrir hæfileika og aðaleinkunn upp á 8,66. Hann hefur ekki síður notið velgengni á keppnisvellinum, hann varð sem fyrr segir Landsmótssigurvegari í B-flokki á Hólum í Hjaltadal árið 2016 og var um skeið einn albesti B-flokks gæðingur landsins með Jakob Svavar Sigurðsson í hnakknum. Á síðustu árum hefur hann einnig reynt sig í A-flokki gæðinga með góðum árangri.

Seljandi Nökkva er Nökkvafélagið ehf og nýir eigendur eru þau Ástmundur Norland og Hanný Heiler, en þau kenna hrossarækt sína við Hindisvík á Vatnsnesi. Má því gera ráð fyrir að Nökkvi muni verða áfram á Íslandi og hafa hlutverki að gegna í ræktun þeirra á hrossum af Hornarfjarðarkyni í framtíðinni.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<