Nýjar nálganir í reiðkennslu við Háskólann á Hólum

  • 26. mars 2020
  • Fréttir

Fjarkennsla - kennari og nemandi fara yfir myndband.

Eins og Eiðfaxi sagði frá á vef sínum um daginn að þá var Háskólanum á Hólum lokað frá og með mánudeginum 16.mars í kjölfar samkomubanns. Flestir nemendur héldu heim á leið en einhverjir af þeim dvelja ennþá á Hólum og þá sérstaklega erlendir nemendur.

Kennarar við skólann deyja þó ekki ráðalausir því þeir hafa komið á laggirnar fjarkennslu í reiðmennsku og nýtt sér tæknina til að miðla af reynslu sinni til nemenda.

 

Kennarar við Hestafræðideild beita óhefðbundnum aðferðum við verklega kennslu í samkomubanni.
Þegar samgöngubann skall á voru góð ráð dýr til að geta haldið áfram kennslu á nemendahestum við Hestafræðideild Háskólans á Hólum. Nemendur fóru flestir af staðnum með hesta til sína þar sem skólanum var lokað og allt nám fært yfir í fjarkennslu. Kennarar ákváðu strax og þetta varð ljóst, að snúa vörn í sókn og leita leiða til að láta námið ganga sem best upp við breyttar aðstæður.
Meginforsenda þess að fjarkennsla í reiðmennsku geti gengið upp er sú, að kennarar og nemendur hafa verið að vinna þétt saman í vetur og þekkjast því vel, bæði tví- og fjórfætlingar. Ein af þeim fjarkennslulausnum sem nú eru nýttar er að nemandinn leysir reiðmennskuverkefni sem hann skilar til kennarans á myndbandi. Síðan fer kennarinn yfir verkefnið í fjarskiptasambandi við nemandann, t.d. í gegnum síma eða  samskiptaforritið zoom.
Við þessa nálgun fær nemandinn heimaverkefni frá þeim fundi og hugmyndir að þjálfun sem bætt er við næsta myndbandsverkefni, sem hann skilar inn til sameiginlegrar yfirferðar. Með þessu verður kennslan gagnvirk og nemandinn heldur áfram að þróa sig og hest sinn.
Kennarar Hestafræðideildarinnar hafa einnig streymt sýnikennslu úr Þráarhöllinni og verið á „zoomfundi“ með nemendum samtímis og þannig skapað gagnvirka hópkennslu.
Enn fremur hafa kennarar beitt þeirri aðferð að taka upp sýnikennslu er tengist verkefnum nemenda og senda þeim eða birta á annan hátt.
Óvissutímar bjóða upp á tækifæri til að læra og opna á nýja möguleika.
Mette Mannseth / Sveinn Ragnarsson

Teikning af æfingu sem nemandi á að framkvæma og fékk senda sem sms.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar