Parafimi er skemmtilegt keppnisform

  • 3. mars 2021
  • Fréttir

Sigurvegarar í parafimi Suðurlandsdeildarinnar, Ólafur Þórisson og Sarah Maagaard.

Pistill frá Sigurði Ævarssyni

Sigurður Ævarsson

Parafimi er góð hugmynd í flóru hestakeppni og hestamennsku á Íslandi en keppni í parafimi fór fram í Suðurlandsdeildinni í gær.

Keppnin var stórskemmtileg og keppnisformið sérlega skemmtilegt. Þarna eru saman áhuga- og atvinnumaður inni á gólfi að gera æfingar og gangsýningar, bæði saman og í sitthvoru lagi eftir getu manns og hests. Samsetningar para geta verið algjörlega frjálsar, og einnig á hvaða getustigi er riðið. Þetta gerir þessa grein svo sérstaka og skemmtilega bæði á að horfa, dæma og örugglega að ríða hana, eða eins og nokkurs konar „hópfimleikar“ á hestum.

Ég sé fyrir mér að þetta keppnisform yrði notað miklu meira af öðrum deildum og hestamannafélögum, bæði til sýninga og keppni. Margar sýningarnar í gær voru þaulæfðar, hraðar, fallegar og kraftmiklar. Gríðarlega gaman var að sjá t.d. margfaldan Íslandsmeistara í tölti, Storm frá Herríðarhóli, með eiganda sinn á baki leika listir sínar í höllinni, og ekki var minna gaman að sjá kraftmikla og þaulæfða sýningu hjá sigurvegurunum Óla og Söruh, sem og breiddina í hópum knapa og hesta almennt, og bera saman reiðtækni og léttleika sýninganna.

Nú er það þannig að þetta var tekið upp á Alendis.tv svo ég hvet þá sem geta að skoða þetta og spá í hvort þetta henti ekki þeirra félagi eða hóp. Ég sé fyrir mér að t.d. reiðkennari og nemandi myndu ríða svona fimi saman og það myndi skila fullt af nýju fólki inn í keppni og í stigskipta fimi almennt. Það er einmitt verið að gefa út reglur um Gæðingafimi, stig 1, 2 og 3. Reglur fyrir Parafimi eru til hjá hestamannafélaginu Geysi og vonandi er þetta bara opið fyrir félög að nýta sér í þágu hestamennskunnar. Það væri sannarlega framfaraskref.

Siggi Ævars

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar