Pur Cheval 2020

  • 18. ágúst 2020
  • Fréttir

Øder Arena er löglegur keppnisvöllur fyrir bæði gæðinga- og íþróttakeppni

Helgina 17.-18. október er annað árið í röð haldið mót á Øder Arena á búgarðinum Pur Cheval í Frakklandi. Í fyrra var keppt í gæðingakeppni en nú stendur til að keppa í íþróttakeppni.  Lesa má meira um viðburðinn með því að smella hér.

Í fyrra var mikil hátíð á Pur Cheval þegar Øder Arena völlurinn var opnaður við hátíðlega athöfn. Viðtal við Ingibjörgu Kristjánsdóttur birtist í tölublaði Eiðfaxa af því tilefni en nú er tímabært að rifja það upp þegar það styttist í næstu hátíð við þessar glæsilegu aðstæður.

 

Helgina 27.-29. september var nýr keppnisvöllur fyrir íslenska hestinn tekinn formlega í notkun við hátíðlega athöfn hjá Pur Cheval í Frakklandi. Völlurinn hlaut nafnið Øder Arena til minningar um Einar Øder Magnússon, sem helgaði hestamennskunni líf sitt og var einn af okkar fremstu í greininni, sem ræktandi, keppandi, kennari og þjálfari. Øder Arena er löglegur keppnisvöllur fyrir bæði gæðinga- og íþróttakeppni því hann samanstendur af 250 metra hringvelli og 250 metra langri skeiðbraut með upphafs og enda kafla sem gefur samtals 310 metra langa braut. Því mætti einnig nýta breinu brautina til kynbótasýninga.

Koki Olason og Frami Vom Hrafnsholt tóku þátt í keppninni í fyrra

Algjör bylting

Pur Cheval var stofnað árið 2010 í kjölfar umfangsmikillar endurgerðar á klassískum frönskum sveitabæ, komið var upp nútíma aðstöðu með reiðgerði og hringgerði ásamt endurhæfingar stöð með vatnsbretti og víbragólfi. Nú þegar keppnisvöllurinn hefur verið tekin í notkun, hefur aðstaðan verið gjörbætt og þannig náð að skapa heildrænt umhverfi sem er til þess fallið að huga að öllum þáttum hestamennskunnar fyrir ræktendur, þjálfara og keppendur. Í tilefni af opnun hringvallarins var haldinn íþróttakeppni þar sem knöpum var boðið til þátttöku og keppt var í fimmgangi, fjórgangi, tölti og 100 metra skeiði. Á sunnudeginum var svo haldið opið íþróttamót þar sem ungir og efnilegir knapar tóku þátt í fjórgangi og tölti. Eiðfaxi hafði samband við Ingibjörgu Kristjánsdóttur sem er einn af eigendum Pur Cheval og spurði hana út í íslandshesta heiminn í Frakklandi ásamt ýmsu öðru. „Øder Arena er fyrsti og eini löglegi keppnisvöllurinn í Frakklandi og sem slíkur er hann gríðarlega mikilvægur. Það hefur verið erfitt að halda hér hestamannamót vegna þessa. Völlurinn þarf að vera að réttri stærð, vel byggður og með réttu undirlagi þannig að hægt se að halda world ranking mót. Þetta breytir því miklu, nú er mögulegt að halda íþrótta- og gæðingamót í Frakklandi með nokkrum sóma.  Við höfum lagt okkur fram um að fegra umhverfið þannig að gestir okkar sjái sér aukabónus í því að koma hingað og eyða helginni á fallegum stað.  Það má einnig bæta við að Øder Arena er mjög vel staðsettur, nokkurn veginn í miðju íslenskrar hestamennsku í Frakklandi og ekki langt frá París. Frakkland er gríðarlega fallegt og fjölbreytt land en á sama tíma geysistórt og geta löng ferðalög á mótsstað dregið úr þátttöku.  Með tilkomu Øder Arena vonumst við að þar verði breyting á.

Svanhvít Kristjánsdóttir sýndi Glóðafeykir frá Halakoti með glæsibrag við opnum vallarins

Pur Cheval

Eins og áður hefur komið fram er öll aðstaða glæsileg á Pur Cheval. Auk þess að vera með umfangsmikla ræktun að þá hafa aðstandendur búgarðsins haldið úti markaðsverkefni sem snýst um að ýta undir kynningu á íslenska hestinum í Frakklandi. Núna eru um 173 félagsmenn í FFCI, sem eru íslensku hestasamtökin þar í landi. Af þessum 173 eru 30 skráðir sem professionals þ.e.a.s. ræktendur eða þjálfara. En hvernig hafa Ingibjörg og hennar fólk staðið að því að breiða út boðskapinn. „Þegar við hófum starfsemi hér út í Frakklandi ákváðum við að leggja af stað í 2ja-3ja ára markaðsverkefni sem snerist um að ýta undir kynningu á íslenska hestinum. Við einbeittum okkur annars vegar að hestaklúbbunum sem eru dreifðir um allt landi og hins vegar að öllum þeim miðlum sem snúast um hesta hér í Frakklandi.  Við lánuðum að mig minnir 10 geðgóða reiðhesta, reiðtygi og hnakka í 1-3 mánuði til vel valdra hestamiðstöðva og aðstoðuðum þá við kennslu og annað sem þurfti.  Það var sammerkt með öllum þessum miðstöðvum að íslenski hesturinn varð fljótt vinsælasti hesturinn á staðnum. Það má geta þess að uppúr þessu verkefni varð m.a. til nýr reiðskóli sem sérhæfði sig í íslenskum hestum og er sá aðili í dag með 20 íslenska hesta. Við settum okkur í samband við eitt stærsta hestablaðið í Frakklandi; Cheval Pratique og buðum þeim í heimsókn og á bak að sjálfsögðu.  Við skipulögðum m.a. ferð með þeim til Íslands og buðum þeim í Laufskálarétt o.fl. Í kjölfarið helguðu þeir einu tölublaði íslenska hestinum og skrifuðu síðan fleiri greinar sem þeir dreifðu á nokkur tölublöð.  Við áttum einnig gott samstarf við sjónvarpsstöðina Equidia sem sýnir eingöngu efni um hesta, hvaða kyni sem þeir tilheyra.  Þeir komu til Íslands í okkar boði og gerðu nokkurskonar heimildarþátt um íslenska hestinn; tóku með sér þáverandi heimsmeistara í fimleikum á hestum; Nicolas Andréani og skelltu honum á bak.  Hann fékk svo að leika sér á baki upp um fjöll, fIrnindi og fjörur Íslands og ræða jafnóðum um upplifun sína.  Þessi þáttur var svo sýndur á sjónvarpsstöðinni og fylgt á eftir með löngum viðræðuþætti um íslenska hestinn, land og þjóð. Ég held að þátturinn hafi svo verið endursýndur töluvert út allt árið.“

Elías Þórhallsson og Hildingur frá Bergi kepptu í fimmgangi

Betur má ef duga skal

Samkvæmt Worldfeng þá eru alls 3471 íslenskur hestar á lífi í Frakklandi sem stendur. Reikna má þó með því að þeir séu færri, því ef þessi listi er skoðaður sést að margir þessarra hesta eru fæddir á árunum milli 1970 og 1980 og því líklega fallnir. En hvernig finnst Ingibjörgu að til hafi tekist við markaðssetningu íslenska hestins í Frakklandi. Það er að sjálfsögðu erfitt að dæma sjálf um hvernig til tókst.  Þetta er langtíma ferðalag og breytingarnar skila sér á löngum tíma. Frakkland er rótgróin hestaþjóð með ríka hefð fyrir kappreiðum og dressage. Þeir eru eðlilega stoltir af sögu sinni og venjum og sveigja ekki auðveldlega frá einu hestakyni yfir á annað. Við ákváðum í upphafi að einbeita okkar að franska markaðnum, en frakkarnir þekkja íslenska hestinn fyrst og fremst sem fjölskyldu- og frístundahest, en átta sig kannski síður á möguleikum hans í keppni.  Hugmyndin hjá okkur var hins vegar alltaf að taka það skref í framhaldinu, þ.e.a.s. keppnina og alla þá frábæru möguleika sem hesturinn býður uppá tengda gæðinga og íþróttakeppni.   Øder Arena gerir okkur einmitt kleift að fylgja því eftir. M.a snýst þetta um að fá ungt fólk inn í íþróttina sem verður grunnurinn að öflugu starfi þegar fram í sækir. Við tökum eftir því að það er ákveðin breyting í gangi hérna hjá ungu kynslóðinni, þau eru yfir sig spennt að komast á góðan keppnisvöll og fá að prófa flotta hesta. Það kom t.d. vel í ljós við opnum Øder Arena að við erum komin með ágætis knapa sem stóðu sig með sóma.  Svo vel að alþjóðlegu dómararnir höfðu orð á því við okkur eftir á.“ Eiðfaxi óskar Ingibjörgu og hennar fólki til hamingju með nýjan og glæsilegan keppnisvöll. Vonandi verður þetta framtak upphafið af stórsókn íslenska hestins í Frakklandi.

Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir eru eigendur Pur Cheval í Frakklandi

                                                                                                                              

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar