Svar við opnu bréfi til stjórnar Meistaradeildarinnar

  • 17. september 2020
  • Fréttir

Stjórn Meistaradeildar í hestaíþróttum vill byrja á því að þakka þeim Páli Braga og Snorra Dal fyrir bréfið sem þeir sendu okkur og fjölmiðlum miðvikudaginn 16. september sl. Einnig viljum við þakka þeim þann áhuga sem þeir hafa sýnt á að taka þátt í deildinni. Við í stjórninni erum að sjálfsögðu tilbúin til að svara þeim spurningum sem okkur berast og útskýra hvað lá að baki ákvörðun okkar um val á liði í deildina fyrir veturinn 2021. Enginn er yfir gagnrýni hafin og Meistaradeildin er þar ekki undanskilin.

Stjórnin vinnur eftir leikreglum og samþykktum sem allar eru birtar á heimasíðu deildarinnar; www.meistaradeild.is. Leikreglurnar og samþykktirnar eru lagðar fyrir á aðalfundi deildarinnar á ári hverju í þeim tilgangi að sníða af vankanta sem upp hafa komið, betrumbæta reglurnar og mæta óskum þeirra sem eftir þeim starfa. Á aðalfundi eru þær síðan bornar upp og samþykktar með eða án breytinga hverju sinni. Aðalfund sitja stjórn, fulltrúar frá aðal styrktaraðilum, liðseigendur og knapar. Þetta eru burðarásar deildarinnar og sjá um að setja leikreglur hennar.

Svar stjórnar Meistaradeildar við spurningum ykkar fylgir hér á eftir.

* Hvaða aðferð var notuð við matið ?

Núgildandi reglur deildarinnar mættu kveða skýrar á um hvernig standa skal að vali á liðum í deildina hverju sinni. Það er því við lítið annað að styðjast en það sem fram kemur í 7. kafla leikreglnanna sem fjallar um keppendur og knapa. Stjórnin studdist við þennan kafla við valið og verklagsreglur sem við settum okkur við valið.

Í haust var auglýst eftir umsóknum liða um þátttöku í Meistaradeildinni eins og leikreglur kveða á um. Einnig var neðsta liði deildarinnar tilkynnt að það þyrfti að skila inn umsókn til þátttöku á næsta keppnisári vegna þess að níunda liðið hafði sótt um þátttökurétt. En samkvæmt leikreglum deildarinnar er fjöldi liða í deildinni allt að átta (grein 1.3).

Valið stóð því á milli liða Sportfáka/Austurkots og Ganghesta/Margrétarhofs. Lið Sportfáka/Austurkots sem sótti um, skipa: Anna Björk Ólafsdóttir, Bjarni Jónasson, Katla Sif Snorradóttir, Snorri Dal og Þorgeir Ólafsson. Lið Ganghesta/Margrétarhofs skipa: Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir, Glódís Rún Sigurðardóttir, Ragnhildur Haraldsdóttir, Reynir Örn Pálmason og Sigurður Vignir Matthíasson.

Knapar voru beðnir um að skila inn árangri sínum á keppnisbrautinni síðustu tvö ár en tvö ár eru notuð til viðmiðunar samkvæmt reglu 7.5.  Einnig var litið til stöðulista og tilnefninga til knapaverðlauna. Eins og fyrr hefur komið fram setti stjórnin sér reglur og viðmið við mat á árangri knapa. Á stjórnarfundi þar sem matið fór fram voru sex af sjö fulltrúum stjórnar mættir og lagði hver og einn aðili sitt sjálfstæða mat á hvern knapa út frá árangri, reynslu og fjölhæfni og gaf viðkomandi stig eftir því. Fjölhæfni var þó einungis metin til aukastigs og með fjölhæfni var m.a. átt við hvort knapinn hafði keppt í mörgum greinum á tímabilinu. Stigagjöf var frá 0 upp í 5stig og gátu knapar því mest fengið 6 stig með þessu eina aukastigi. Stigin voru eftirfarandi: 4-5 stig voru gefin fyrir yfirburðaknapa sem hefur náð miklum árangri, titlar, efstu sæti á sterkum mótum og efstu sæti á stöðulistum, 3-4 stig voru gefin fyrir reynslumikla knapa sem höfðu náð góðum árangri í keppni, 2-3 stig atvinnuknapar með minni árangur en þeir sem hafa verið taldir hér upp að ofan, 1-2 stig reynsluminni knapar, enginn eða lítill árangur í meistaraflokki.
Tekið skal fram að allir knapar stóðust kröfur um aldur og voru fullgildir meðlimir í hestamannafélagi innan LH eins og reglurnar kveða á um.

* Hvaða reglur eru um hvernig liðin sem sækja um eru borin saman og með hvaða aðferð er árangur liðanna metinn?

Sjá svar hér að ofan.

* Liggja ávallt fyrir útreikningar stjórnar í matinu?

Já þeir liggja fyrir. Stjórnin er ekki tilbúin til þess að birta þessa útreikninga opinberlega af tillitsemi við þá knapa sem í hlut eiga þar sem þetta er persónubundið mat hvers og eins á einstökum knöpum. Við bjóðum ykkur hins vegar að koma til fundar við okkur þar sem þið getið séð niðurstöðurnar á prenti.

* Hvenær var sett regla sem segir að það skuli vera 2 ár sem eru metin varðandi keppnisárangur?

Við bendum á reglu 7.5 í leikreglunum þar sem segir að miða eigi við tvö síðustu keppnistímabil.

* Hvernig ætlar deildin að haga upplýsingum til umsækjenda til framtíðar litið?

Eftir að þessi staða kom upp og stjórnin stóð frammi fyrir því að þurfa að velja á milli tveggja liða kom í ljós að reglurnar eru ekki nógu skýrar hvað þetta varðar. Stjórnin er því að leggja fram breytingar á reglunum til að betrumbæta þetta ferli og verða þær teknar fyrir á næsta aðalfundi Meistaradeildar. Hann verður haldinn þriðjudaginn 22. september næstkomandi og í kjölfarið verða birtar nýjar og betrumbættar reglur deildarinnar. Einnig mun stjórnin leggja fram tillögu um breytingar á reglunum sem auðveldar einstaka knöpum að komast í lið í deildinni.

Stjórn Meistaradeildar vonar að ofangreint svari spurningum ykkar.

Með kærri kveðju,
Ingibjörg Guðmundsdóttir, Hulda Finnsdóttir, Karl Áki Sigurðarson, Helga Gísladóttir, Sigríður Pjetursdóttir, Guðmundur Björgvinsson og Sigurður Sigurðarson.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar