„Það er engin stimpilklukka í hestamennskunni“

  • 19. september 2021
  • Fréttir
Íslendingar erlendis - Viðtal við Magnús Bjarka Jónsson
Íslendingar erlendis er nýr liður á vef Eiðfaxa sem nú hefur göngu sína. Markmiðið er að fá að kynnast íslenskum hestamönnum og hestalífinu erlendis nánar. Magnús Bjarki Jónsson ætlar að ríða á vaðið.

 

Magnús Bjarki Jónsson er fæddur 1974 á Hvolsvelli. Hann kynntist konu sinni Anu Kaarinu Mehtonen, árið 1996, þegar hún var að stunda nám við Háskólann á Hólum. “Það var hún sem dróg mig út til Finnlands en við fluttum fyrst út árið 1998, fluttum síðan reyndar aftur heim til Íslands árið 2005 og fórum síðan aftur út til Finnlands 2012. Við búum í Urjala sem er sveitarfélag rétt fyrir neðan Tampere sem er þriðja stærsta borg Finnlands. Við erum með búgarð á leigu rétt við þorpið þar sem við búum og þar er ég með uppeldi fyrir unghross”, segir Magnús en saman eiga hann og Anu þrjú börn, Jón Daníel, Sölku Maríu og Jóel Óskar.

Magnús er menntaður búfræðingur frá Hólum og er einnig með tamingarpróf FT en í dag vinnur hann að mestu leyti við járning ásamt því að vera með unghross í uppeldi. “Ég hef líka verið að kenna örlítið og leiðbeina fólki með hrossin sín. Einnig er hestasala öðru hvoru og þá sinnir maður því líka,” segir Magnús en hann hefur aðeins verið að aðstoða fólk við að finna sitt draumahross. “Þá er gott að hafa traust fólk heima á Íslandi til að finna hesta í verkefnin. Ég hef unnið þetta mikið með Eysteini Leifssyni, þeim eðal náunga, og svo hefur Lena Zielinski einnig aðstoðað mig. Þetta eru nú alla veganna hross svona eins og gengur og gerist, þæg reið- og reiðskólahross, efnileg unghross og svo eitthvað af keppnishrossum.”

En hefur Magnús eitthvað verið viðloðinn keppni sjálfur? “Ég hef aðeins verið í keppni hérna úti í gegnum tíðina. Ég keppti fyrir Finnland á tveimur Norðurlandamótum og einu Heimsmeistaramóti. Það gekk nú svona upp og niður en gaman að hafa prófað þetta. Ég hef keppt nokkuð mikið hérna í Finnlandi og unnið nokkra meistaratitla. Síðustu meistaratitlana vann ég á hesti, Hvammi frá Hvolsvelli, sem er úr okkar ræktun og það var alveg extra gaman,” segir Magnús en hann og Anu eru með litla ræktuna sem byggist helst á hryssu sem Anu ræktaði, Eydísi frá Stokkseyri, sem var undan Hemju frá Krossi og Hlyn frá Kjarnholtum. “Hún var óvenjulegt folald og minnistætt hversu mikið hreyfieðlið var og var hún afar tignarleg. Við fengum undan henni mörg skemmtileg og góð hross,” segir Magnús en þau Anu eiga ekki mikið af hrossum í dag.

Hestagullið Eydís frá Stokkseyri

Hvernig lítur dagurinn út hjá járningarmanni í Finnlandi ? “Hann byrjar svona um sjö leitið, ræsa þann yngsta Jóel, sem er eina barnið eftir heima. Við fáum okkur morgunmat og förum svo um átta leitið út úr húsi, hann í skólann og ég í hesthúsið. Anu er yfirleitt farin fyrr í sína vinnu en hún hefur lagt hnakkinn á hilluna og starfar nú sem hjúkrunarfræðingur. Þegar búið er að hugsa um tryppin þá er farið í járningarnar. Það er þannig að hér þarf maður að keyra stundum talsverðar vegalengdir og mikið af deginum fer í það, ég járna 5 hesta á dag og með keyrslunni þá er maður oft að koma heim um 5-6 leitið, stundum fyrr og líka seinna.

Við vitum það öll að það er engin stimpilklukka í hestamennsku,” segir Magnús sem lítur björtum augum á framtíðina. „Við erum dugleg að koma til Íslands enda mikilvægt að hitta fjölskyldu og vini. Við stefnum á að mæta á Landsmót á næsta ári,“ segir Magnús að lokum.

Hvinur frá Hvolsvelli og Anu

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar