„Þetta trúðaatriði með að slaka taum er algjör óþarfi“

  • 3. nóvember 2020
  • Fréttir

Einn af þeim hestum sem Agnar lýsir í viðtalinu er Konsert frá Hofi

Nýjasta tímarit Eiðfaxa er nú farið í prentvélarnar, stútfullt af skemmtilegu efni og fróðleik.

Í tímaritinu er m.a. að finna viðtal við Agnar Þór Magnússon þar sem hann lýsir mörgum af þeim hæst dæmdu stóðhestum sem hann hefur sýnt. Í framhaldi af viðtölum við Þórarinn Eymundsson, Árna Björn Pálsson, Þórð Þorgeirsson og Daníel Jónsson sem komu út í síðustu þremur tölublöðum Eiðfaxa.

Í viðtalinu kemur ýmislegt fram og til þess að gefa áskrifendum Eiðfaxa forsmekk af því sem koma skal grípum við niður í viðtalið þar sem Agnar  segir sína skoðun á þeim breytingum sem voru gerðar á framkvæmd kynbótasýninga í vor.

“Ég var mjög hugsandi þegar þetta byrjaði og margt sem maður var ekki hrifinn af. Eftir tímabilið er ég ekki hrifinn af þessum þröskuldi sem settur var á töltið, þ.e.a.s. að ekki megi muna meira en hálfum á hæga töltinu og töltinu. Mér finnst þetta ekki sanngjarnt og sérstaklega ekki við 5 vetra fljúgandi vakra hesta sem þurfa síðan líka að sýna mikla burðargetu á hægu tölti. Maður á að geta lesið á blaði hvernig hesturinn er. Ef hestur er að fá 8.0 fyrir hægt tölt og 8.5 fyrir tölt segir það mér ekki alla söguna. Kannski átti þessi hestur ekki skilið meira en kannski átti hann skilið 9.0 eða meira fyrir tölt. Fyrst þeir eru að gera þetta svona þá verða þeir að slíta tölt einkunnirnar í sundur. Að vera með einhverja þröskulda til að fara í einhverja tölu segir okkur ekkert. Það þurfa þá allir að horfa á alla hesta til að vita hvernig þeir eru en það geta ekki allir séð alla hesta sem eru sýndir. Síðan þetta trúðaatriði með að slaka taum er algjör óþarfi. Ef dómarar geta ekki séð það hvort hestar séu sjálfberandi á tölti þá þurfa þeir að skoða það hjá sér og þjálfa sig meira. Flestar aðrar breytingar eru góðar,” segir Agnar og bætir við að hann telji vægisbreytingar milli sköpulags- og hæfileikaeinkunnar sé ekki að fara hafa nein stórtæk áhrif á útlit hrossa sem við erum að rækta í dag. 

Tryggðu þér áskrift að Eiðfaxa, fáðu hann sendan heim að dyrum og styddu um leið við faglega umfjöllun um íslenska hestinn og allt það sem honum tengist með því að smella hér.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar