TÍMAVÉLIN – Fyrsta Íslandsmótið í hestaíþróttum

  • 29. október 2020
  • Fréttir

Fyrsti Íslandsmeistarinn í tölti, Sigfús Guðmundsson og Þytur frá Vestra-Geldingaholti. Mynd: Eiðfaxi

Að þessu sinni fer Tímavélin ríflega 40 ár aftur í tímann, til ársins 1978. Það ár var fyrsta Íslandsmótið í hestaíþróttum haldið á Selfossi dagana 19.-20. ágúst. Í umfjöllun Eiðfaxa um mótið segir:

Töltkeppnin var ákaflega skemmtileg grein og þar kom fram að þjálfun og úthald bæði hests og knapa er nauðsyn ef þetta á að ná tilgangi sínum. Fjórgangur fór fram af leikni og þekkingu knapa. Máski kemur hér fyrst inn í hugann athugasemd varðandi vallarstærð. En þetta var glælsileg sýning. Er fimmgangskeppnin hófst var greinileg spenna í áhorfendum og heyra mátti á þeim, er að skeiðinu kom, að vallarstærð er of lítil … Unglingakeppnin vakti hvað mesta ánægju hjá áhorfendum og komu þar best í ljós kostir þessa móts.
Mótsgestir voru ekki margir, satt er það. Kannske vantaði kynningu og auglýsingar, svo og má benda á að stórglæsileg landbúnaðarsýning með hestasýningu var í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð. Við horfum fram á að fjöldi hestamóta er orðinn mikill og þarf að taka þetta atriði til athugunar.

Fyrstu Íslandsmeistarar í hverri grein voru

  • Í tölti fullorðinna – Sigfús Guðmundsson og Þytur
  • Í tölti unglinga – Gísli Gíslason og Kópur
  • Í fimmgangi – Reynir Aðalsteinsson og Penni
  • Í fjórgangi – Trausti Þór Guðmundsson og Svarti-Blesi
  • Í fjórgangi unglinga – Aðalsteinn Reynisson og Burton
  • Í gæðingaskeiði – Sigurbjörn Bárðarson og Garpur
  • Í hlýðnikeppni – Eyjólfur Ísólfsson og Glaumur
  • Í hlýðnikeppni unglinga – Þorleifur Sigfússon og Hausti
  • Stigahæsti knapi mótsins – Reynir Aðalsteinsson

Sigurður Ólafsson hestamaður og söngvari, keppti á þessu fyrsta Íslandsmóti, þá tæplega 62 ára gamall. Hann sagði þetta:
Ég er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu og bið íþróttadeildinni allrar blessunar. Þessi aldni unglingur stóð þeim yngri ekkert á sporði og átti auðvelt með að fylgja þeim reglum er farið var eftir og var það talandi dæmi um að ekki þarf aldur að standa í vegi fyrir þátttöku.

 

 

Ekki voru allir þó jafn ánægðir með þetta fyrsta Íslandsmót. Hinn þekkti hestamaður og hrossaræktandi, Páll Sigurðsson sem jafnan var kenndur við Kröggólfsstaði hafði þetta að segja:
Hestadagskráin á Landbúnaðarsýningunni kemur betur út. Völlurinn hér er alltof lítill og enginn hestur getur sýnt það sem hann á. Þetta er komið út fyrir okkar áhugasvið enda áhorfendafjöldinn talandi dæmi þar um. Þetta er sjálfsagt sæmilegt fyrir krakka og þeirra aðstandendur.

Svo mörg voru þau orð. Íslandsmót hestamanna hafa þó staðist tímans tönn og munu vafalaust verða eitt af vinsælustu mótum hvers árs, hér eftir sem hingað til.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar