TÍMAVÉLIN – Glímukóngur á skeiðspretti í Þýskalandi

  • 18. janúar 2021
  • Fréttir

Þorgeir Jónsson á Kalsa frá Laugarvatni.

Tímavélin hraðspólar í þetta skiptið aftur til ársins 1987. Í 11. tölublaði Eiðfaxa það ár var sagt frá Skeiðmótinu í Þýskalandi sem haldið var þá um haustið, skammt frá Bonn. Fjöldi keppenda tók þátt í mótinu, þar af þónokkrir knapar frá Íslandi og „náðu Íslendingarnir mjög góðum árangri í flestum greinum“ eins og segir í frétt Eiðfaxa. Sigurbjörn Bárðarson sigraði t.a.m. í gæðingakeppni, gæðingaskeiði og 150m skeiði og Reynir Aðalsteinsson sigraði í 250m skeiði svo eitthvað sé nefnt.

Fimm efstu í gæðingakeppni, f.v. Sigurbjörn Bárðarson á Kalsa, Reynir Aðalsteinsson á Spóa, Einar Öder Magnússon á Hlyn, Heinz Pinsdorf á Tenór og Tómas Ragnarsson á Amor.

Einn af hápunktum mótsins tengdist þó ekki keppni heldur var Þorgeir Jónsson, bóndi og hestamaður sem jafnan er kenndur við Gufunes, heiðraður sérstaklega á mótinu. Eldri kynslóðir hestamanna þekkja nafn Þorgeirs vel, enda maðurinn að segja má lifandi goðsögn. Hann varð m.a. glímukóngur Íslands ári 1927 og einnig landsþekktur fyrir hið flugvakra hrossakyn sem hann ræktaði í Gufunesi og voru hrossin þaðan afar sigursæl á kappreiðum sinna tíma. Þorgeir var sjálfur mættur á Skeiðmótið í Þýskalandi og þessi 83 ára gamli kappi lét sig ekki muna um að taka skeiðsprett á Kalsa frá Laugarvatni við mikinn fögnuð áhorfenda.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar