Tryggvi Björns á heimleið

  • 18. mars 2020
  • Fréttir

Tryggvi sýndi Bastían frá Þóreyjarnúpi í einkunnina 10,0 fyrir tölt í kynbótadómi mynd: Tina Johansen

Tryggvi Björnsson er hestamönnnum vel kunnugur en hann starfaði um árabil á Blönduósi áður en hann flutti erlendis ásamt fjölskyldu sinni. Hann hefur sýnt fjöldan allan af hátt dæmdum hestum í kynbótadómi og samkvæmt Worldfeng hefur hann alls 705 sinnum sýnt hross í fullnaðardóm.

Nú hefur hins vegar heyrst af því að Tryggvi sé á heimleið og hafði Eiðfaxi því samband við hann og spurði út í ýmislegt tengt hestamennskunni í Danmörku og heimkomunnni. „Já það er rétt, við erum að flytja heim i sumar, það var nú alltaf meiningin að á einhverjum timapunkti kæmum við heim aftur. Við höfum fest kaup á húsi á Akueyri og ætlum að setjast þar að og okkur fjölskyldunni hlakkar bara mikið til þess. Hvað ég fer að gera er nú nokkuð ljóst, kann lítið annað en að brasa eitthvað i kringum hesta, en hvernig því verður háttað veit ég ekki alveg ennþá. Ég hlýt að fá inni einhvers staðar, skoða það þegar nær dregur. Ég á nú slatta af hestum á Íslandi, svo maður getur strax hafist handa með að vinna úr þeim.“

Frábært fólk og aðstaða
En hvernig hefur vistin verið í Danmörku?

„Við fluttum út í júlí 2015, svo þetta hafa verið fimm frábær ár í Danmörku. Við erum svo heppin að hafa allan þennan tíma verið með aðstöðu nálægt Kaupmannahöfn hjá góðu fólki sem eiga Stald Ulbæk. Þau eiga mikið af góðum hestum og eins höfum við átt og eigum góða hesta saman. Við áttum t.d. Ham frá Hólabaki saman, en hann var á HM í Berlín fyrir Ísland sl. sumar í 5 vetra flokki stóðhesta. Stefnan hjá mér er að þvælast í framtíðinni eitthvað hingað og hjálpa þeim t.d. í kringum kynbótasýningar ofl.“ Finnst Tryggva vera mikill munur á hestamennskunni hér heima og þar í landi?

„Það er ansi mikill munur. Hér eiga flestir bara einn til tvo hesta og því ekki mikið um hrossabændur. Fá hross eru afsett og öllum hrossum er fundið hlutverk.Hjá mér var þetta mikið það sama og á Íslandi, temja, þjálfa og sýna, ásamt því að vera með söluhesta. Það góða við þennan tíma er að ég hef m.a. kynnst mikið af frábæru fólki út um allan heim og fengið tækifæri til að þvælast um evrópu og sýna hross og keppa. Ég get því ekki annað en mælt með því að allir sem tök hafa á prófi þetta, þar sem þetta hefur svo sannarlega víkkað sjóndeildarhringinn og opnað fyrir mér margar nýjar dyr.“

Erfitt að skilja við Bastían

Tryggvi nefnir að hann hafi verið með söluhesta en hvernig hefur hrossasala gengið?

„Þau hafa gengið mjög vel þessi ár. Síðustu vikur hef ég verið að vinna í því að selja síðustu hestana sem ég á hér úti og eftir söluna á Bastían frá Þóreyjarnúpi í síðustu viku er það nánast komið. Bastían er líklega einn albesti hestur sem ég hef kynnst á ævinni og verður hans sárt saknað, en hann fer i góðar hendur hjá ungri stúlku í Noregi og gengur vonandi bara vel hjá þeim. Hamur og Stormur frá Hólabaki eru einnig seldir, en þá átti ég með Stald Ulbæk, en þau haf keypt minn hlut í þeim. Þeir verða því áfram hér á Stald Ulbæk næstu ár og verða þjálfaðir af Önnu Ulbæk.“

Hamur frá Hólabaki

Tryggvi og Hamur frá Hólabaki á HM2019

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar