Framkvæmdir byrjaðar á mótsvæði Heimsmeistaramótsins
Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið á Hardinkelhof í Birmenstorf í Sviss dagana 3. til 10. ágúst 2025. Formlega vinna er hafin á svæðinu en skóflustunga var tekin þann 20. ágúst s.l.
Roman Spieler, framkvæmdarstjóri heimsmeistaramótsins, sagði upphaf framkvæmda vera mikilvægan áfanga. “Nú er allt að verða að veruleika. Við höfum skipulagt heimsmeistaramótið 2025 síðan 2019. Þessi dagur er því sérstaklega merkilegur og viðburðarríkur,” sagði Roman við tilefnið.
Vinnu við æfingasvæðið lauk í júlí en svæðið verður með bestu aðstæður fyrir knapa og hross. “Æfingasvæðið er ekki síður mikilvægt en það þarf helst að bjóða upp á sömu aðstæður og keppnisvöllurinn. Samsetning vallanna má ekki vera mismunandi þannig að þátttakendur geti lagað sig að aðstæðum sem best. Einnig eru strangar reglur m.t.t. lengdar, breiddar og halla brautanna sem þarf að taka tillit til,” bætir hann við.
Einnig voru viðstaddir athöfnina Marianna Stänz fyrir hönd sveitarfélagsins Birmenstorf, Ueli Heller, formaður stjórnar heimsmeistaramótsins og Oliver Egli eigandi Egli Gartenbau AG Uster, byggingarstjóri vallanna og knapi í svissneska landsliðinu.
Þetta verður í þriðja sinn sem Heimsmeistaramót íslenska hestsins fer fram í Sviss en áður fór mótin fram í Fehraltorf (1995) og Brunnadern (2009). Búist er við allt að 35.000 gestum.
“Þetta verður upplifun fyrir unga sem aldna. Búið verður til lítið þorp á svæðinu sem er sérhannað fyrir tilefnið þar sem margt annað en að horfa á hesta verður í boði. Ekki aðeins hestaunnendur heldur allir eiga að fá eitthvað fyrir peningana sína. Það verða tónaleikar, matarvagnar, barnadagskrá, fjölbreyttir verslunarmöguleikar og auðvitað frábær hross.”
Allt um Heimsmeistaramótið er að finna á heimasíðu mótsins en þar fer einnig fram miðasala.