Viltu læra báta- og flugvélaleikinn?

  • 9. apríl 2021
  • Fréttir
Föstudagspistill Hinna Sig

Nú er hætta á því að ég sé að tala eins og við séum á leikskóla saman. En það er mjög gott að sjá fyrir sér myndir í huganum sem útskýra verkefnin vel þegar verið er að þjálfa vissa hluti og æfa sig.

Nú er það þannig að það er alveg sama hvort við ætlum að ríða tölt eða brokk, krossgang eða sniðgang eða hvað þetta heitir nú allt saman, það snýst allt um sama hlutinn.

Við verðum að geta búið til orku í mótornum á hestinum sem er í afturhlutanum, sent þessa orku fram og svo tekið við henni. Við verðum að geta tekið við orkunni án þess að hesturinn fari að flýta sér, þyngist á tauminn eða verði spenntur, ekki satt?

 

Til þess að geta tekið við orkunni sem kemur aftanfrá og fram að taumnum þarf hesturinn að skilja ábendingarnar sem við gefum, við þurfum að gefa þær í réttri röð (samhæfing) en það sem er mikilvægast af öllu og það sem við erum að vinna með í gegnum alla tamningu og þjálfun reiðhestsins er að hann sé öruggur með sig og sáttur á milli ábendinganna. Að hann skilji samspil hvetjandi og hamlandi ábendinga án þess að finna sig innilokaðan þar á milli.

Hesturinn er flóttadýr í náttúrunni og hann upplifir innilokunarkennd mjög auðveldlega af náttúrunnar hendi og því er það eitt af okkar almikilvægustu hlutverkum sem þjálfarar að passa að hesturinn “passi inn á milli ábendinganna” og finni öryggi á milli þeirra.

Ein grunnregla til þess að búa til gott samspil ábendinga er sú að hvatning og hömlun má ALDREI koma nákvæmlega samtímis!!!

Að hvetja og hamla á sama tíma, klemma hestinn á milli handa og fóta er beinlínis uppskrift að innilokunarkennd hestsins með tilheyrandi stífni og vandræðagangi.

Með tímanum þegar hesturinn skilur samspil ábendinganna getur verið stutt á milli þeirra, en ég endurtek ALDREI samtímis.

Meira að segja þegar piaf er riðið, það er að segja brokk nánast á staðnum koma ábendingar ekki samtímis. Alltaf þannig að hesturinn fær að fara fram að taumnum og leiðinni fram er ekki lokað fyrr en þarf. Það er að segja þegar piaf er riðið rétt og vel, hitt sér maður reyndar æði oft en það er önnur saga.

En aftur að efninu, Báta- og flugvélaleikurinn.

Þegar við erum að ríða gangskiptingar eða hraðabreytingar finnst mér mjög gott að nota báta- og flugvélaleikinn og hann er svona:

Þegar við erum til dæmis að ríða gangskiptingu frá feti og upp í hægt tölt ímynda ég mér það eins og þegar bátur siglir á vatni. Þ.e byrja á að kveikja á mótornum og láta hann aðeins malla (brummmmm) og svo leyfa bátnum að renna af stað þegar mótorinn er farinn að taka vatn í gegn.

Á “hestísku” þýðir þetta að undirbúa hestinn á feti þannig að við aukum orkuna þangað til töltið “kemur til okkar” á feti og renna hestinum þar fram í tölt. Hann má ekki draga sig af stað inn í töltið, og hann á ekki að henda sér í gegnum gangskiptinguna.

Þegar við erum að ríða gangskiptingu frá tölti fram í fet (athugið ég segi fram í fet og ekki niður í fet) ímynda ég mér eins og flugvél sem er að koma til lendingar. Hún verður að halda krafti þangað til hún lendir til þess að “nefhjólið” sturti ekki niður fyrst því það verður hörð lending.

Aftur á “hestísku” að taka sér góðan tíma í niðurhæginguna og halda afturfótunum á hreyfingu og léttum taum til þess að hesturinn hægi á sér án þess að lenda á “nefhjólinu” þ.e. henda sér niður í herðum í niðurhægingunni.

Svona er hægt að leika sér með báta- og flugvélaleikinn í gangskiptingum og hraðabreytingum og í leiðinni æfa sig við að bæta skilning hests og knapa á samspili hvetjandi og hamlandi ábendinga.

Á meðan pössum við upp á tóninn í ábendingum, bjóða hestinum léttleika, að stemningin sé létt og róleg og að hesturinn upplifi frjálsræði á milli ábendinganna, fyrir framan fót og aftan við hendina.

Myndin er tekin af Lisbeth Sæmundsson og lýsir nokkuð skemmtilega hesti sem var á þeim tíma farinn að skilja samspil ábendinga býsna vel, og er einnig fín lýsin á því hvaða týpa af hestakalli mig langar til að vera.

Góða helgi og ríðið vel

Kv Hinni

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar