Hin hliðin – Herbert „Kóki“ Ólafsson
Áfram höldum við að kynnast hinni hliðinni á hestamönnum víðsvegar um heiminn. Síðast skoraði Högni Fróðason á Herbert Ólafsson sem er betur þekktur sem Kóki.
Það stóð ekki á svörum hjá þessum mikla snilling honum Kóka og svörin eru þræl skemmtileg, hér fyrir neðan eru þau.
Fullt nafn: Herbert Óskar Ólafsson
Gælunafn: Kóki, ég hef verið kallaður það frá því ég var hálfs árs gamall
Starf: Síðustu 40 ár hef ég helgað mig hestamennskunni, reiðtygjaframleiðslu og fatnaði. Var húsgagnasmíðameistari og um tíma tískukóngur norðurlands. Í 10.000 manna bæ náði ég eitt sumarið að selja 20.000 gallabuxur. Geri aðrir betur 😀
Aldur: Ég er fæddur 4.nóvember árið 1943 og er því 77 ára
Stjörnumerki: Sporðdreki
Hjúskaparstaða: Ég er sjálfstæður maður
Uppáhalds drykkur: Íslenskt ískalt vatn
Uppáhalds matur: Íslenskur fiskur og lambakjöt
Uppáhalds matsölustaður: Heima í Hrafnsholti, við erum með stjörnukokka hérna oft á tíðum bæði Öldu hans Geira og Hauk Tryggva sem var í átta ár kokkur. Hér eru oft miklar veislur.
Hvernig bíl áttu: Ég á 7 bíla allt frá Range Roverunum niður í Benza.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi eiginlega bara á íþróttir og fréttir.
Uppáhalds tónlistarmaður: Það eru þeir félagar Freddie Mercury og Michael Jackson ég er mikill aðdáandi þeirra beggja!
Fyndnasti Íslendingurinn: Laddi er klassískur svo verð ég að minnast á Ara Eldjárn sem ég hlustaði á í veislu í Spretti hann er þrælfyndinn.
Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Rjúpur
Þín fyrirmynd: Ég held bara að það séu börnin mín sem öll eru föðurbetrungar. Ég myndi kalla þetta góða ræktun!
Mest óþolandi keppandi sem þú hefur mætt: Ég er ekki vanur að láta aðra fara í taugarnar mée
Sætasti sigurinn: í lífinu er það að hafa tekist á við mörg erfið verkefni og náð að klára þau sæmilega. Í hestamennskunni koma margir sigrar á þýskum meistaramótum á löngum tíma upp í hugann. Á Íslandi var síðasta mótið sem ég var á íþróttamót Léttis þar sem ég vann 8 titla. Sætasti sigurinn er þó líklega árið 1992 á Blekkingu frá Miðsitju þegar ég var tíundi í B-úrslitum í fimmgangi og vann mig upp í A-úrslit þar sem ég sigraði á sama móti vann hún líka T2 og samanlagðan fimmgang.
Mestu vonbrigðin: Lítið um vonbrigði í lífinu maður hefur lært að harka af sér, þó eru oft vonbrigði að vera svikinn af vinum sínum sem maður hefur lagt ýmislegt á sig til þess að hjálpa.
Uppáhalds lið í íslenska boltanum: Ég er KR-ingur
Uppáhalds lið í enska boltanum: Ég er mikill aðdáandi Herr Jurgen Klopp og Liverpool, nema þegar þeir spila við Bayern Munich í Meistaradeildinni.
Ef þú fengir að eiga einn hest, lífs eða liðinn, hvern myndir þú velja og af hverju: Því er fljótsvarað. Árið 1978 á Skógarhólum þá sá ég Náttfara og ég var ákveðinn í að kynnast Alberti og komast á bak Náttfára. Ég þekkti Albert ekkert en var einu sinni í viku í Reykjavík og í eitt skiptið ákvað ég að keyra austur að Stóra-Hofi bankaði upp á hjá Alberti Jónssyni og sagði: ég ætla að ríða út með þér og upp úr því tókst mikil vinátta okkkar í milli, þá reið ég Náttfara oft og það er ógleymanlegt hann var ofsalegur gæðingur, vel taminn og flottur.
Efnilegasti hestamaður/kona landsins: Ég get ekki svarað því öðruvísi en að til allrar hamingju eigum við fjöldann allan af frábæru reiðfólki á Íslandi.
Fallegasti hestamaður/kona á Íslandi: Þær eru margar mjög fallegar en ef ég á að velja eina að þá segi ég Freyja Hilmarsdóttir. Hún bar af eins og gull af eiri.
Besti knapi frá upphafi: Sko ég hef á mínum langa aldri kynnst rosalega mörgum góðum knöpum og þetta er því erfið spurning. Ég var svo heppinn að Tommi Ragg vann hjá mér árið 1983 og við vorum einnig að vinna saman á Wisenhof. Hann var algjört náttúrubarn á hesti og ég verð að nefna hann. Þá vil ég líka nefna Reyni Aðalsteins. En þessir miklu snillingar hafa nú kvatt okkur.
Við eigum svo einn mann sem hefur gert hluti sem enginn annar hefur gert og hann verður að tróna á toppnum því hann hefur afrekað svo frábæra hluti í tölti með marga mismunandi hesta. Hann er Freddie Mercury Íslandshestasögunnar hann er Jói Skúla!
Besti hestur sem þú hefur prófað: Frami minn frá Hrafnsholti er ofboðslegur eðlisgæðingur og ég vel hann.
Uppáhalds staður á Íslandi: Það fer eftir veðri og vindum. Ísland er bara svo fallegt og fjölbreytt að maður finnur alltaf einhvern fallegan stað sama hvar maður er. Ísland er fallegt frá toppi til táar.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Það er nú þannig með mig að ég er með svo mikið í hausnum og þegar ég leggst á koddan eftir langan dag er ég ekki búinn að klára að hugsa allt sem ég er að pæla. Þannig ég hugsa mikið og sofna út frá því.
Fyrir utan hestamennsku, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já ég er alæta á íþróttir og fylgist með öllu á þeim vettvangi!
Í hverju varstu lélegastur/lélegust í skóla: Ég held að það hafi verið efnafræði
Í hverju varstu bestur/best í skóla: Ég var bara þrælgóður í flestu, ef ég nennti því og átti frekar auðvelt með að læra en var ekki með hugann mikið við það, því miður.
Vandræðalegasta augnablik: Það var þegar ég var einu sinni með strákana mína og konuna á flottu hóteli á Spáni. Ég vingaðist við eigenda hótelsins sem var pókerspilari, eitt kvöldið náði hann öllum peningunum af mér. Ég var því í miklu veseni, auralaus í upphafi ferðar. Hótelstjórinn segir við mig, Kóki ég læt þig hafa peningana aftur ef þú kemur í kvöld þegar matsalurinn er opin og allir hótelgestirnir eru þar að snæða á hælaskóm, nærbuxunum einum klæða með hliðartösku og labbar í gegnum salinn. Ég átti ekki annan séns en að gera það og þetta var það vandræðalegasta sem ég hef gert, sérstaklega fyrir strákana og konuna sem þarna voru með mér en ég varð að redda þessu klandri og gerði það.
Hvaða þrjá hestamenn tækir þú með þér á eyðieyju: Ég myndi taka Albert Jónsson, Daníel Jónsson og Sigga Óskars með mér. Það væri mikil gleði á eyjunni og svo inn á milli myndi maður læra að slaka sér eins og Albert er svo góður í.
Sturluð staðreynd um sjálfa(n) þig: Ég veit nú ekki hvað ég á að segja. En ég er til dæmis mjög gagnrýninn á sjálfan mig og það er það sem oft hefur hamlað mér, ég hefði átt að vera miklu kaldari með margt í lífinu og láta vaða en maður getur svo sem alltaf verið vitur eftir á. Ég vil þó taka það fram að ég er mjög ánægður með lífið og tilveruna eins og það hefur verið.
Hvaða hestamaður hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum/henni og af hverju: Það er örugglega Tómas Ragnarsson ég kynntist honum svon ungum og hann var svo flinkur á hesti og mikið náttúrubarn og það eru margar stundir sem ég minnist Tomma með hlýju.
Ef þú fengir eina spurningu til að spyrja hvern sem er, hver yrði spurningin og hvern myndirðu spyrja: Ég myndi hringja í Svein á Króknum og spyrja hann hvað hann var að hugsa þegar hann valdi Ragnars-Brúnku til undaneldis. Hann náði með sínu viti að búa til eitt besta ræktunarhross sögunnar sem reynst hefur frábærlega fyrir íslenska hestinn
Ég skora á Daníel Jónsson að sýna hestamönnum hina hliðina næstur.