Lið Pure North dregur sig úr Áhugamannadeild Equsana

  • 20. febrúar 2020
  • Fréttir

Lið PureNorth Recycling hefur dregið sig úr keppni í Equsana deildinni. Ástæður þess eru þær að tveir af upprunalegum liðsmönnum geta ekki tekið þátt í deildinni. Annar þeirra er Gísli Guðjónsson sem þurfti að draga sig úr liðinu í kjölfar þess að ákveðið var að fara af stað með sjónvarpsþátt um deildina á Stöð 2 Sport, þar sem hann er þáttastjórnandi. Þá er Helga Gísladóttir barnshafandi og getur því ekki tekið þátt.

Erfitt reyndist að fylla í þessi skörð vegna reglna um þátttöku keppenda í deildinni, en þeir mega m.a. ekki hafa tamningar að atvinnu né hafa keppt í meistaraflokki.

Yfirlýsingu Sigurðar Halldórssonar, liðsstjóra má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

 

Kæru liðsfélagar í Áhugamannadeild Spretts.

Sem liðsstjóri liðs PureNorth Recycling hef ég tekið þá ákvörðun að draga lið okkar úr keppni. Það var ekki létt ákvörðun enda höfum við verið með frá stofnun deildarinnar og frá upphafi lagt mikinn metnað í verkefnið. Liðsmenn og þjálfarar hafa lagt á sig ómælda vinnu við að koma sem best undirbúin fyrir átök vetrarins.

Forsaga málsins sem leiddi til þessarar ákvörðunar er sú að rúmum sólahring fyrir fyrsta mót kom í ljós að einn af okkar liðsmönnum þurfti að draga sig út úr liðinu. Samningar höfðu tekist um um að viðkomandi aðili myndi stýra sjónvarspsþætti um útsendingar frá deildinni á Stöð2 Sport. Þetta setti okkur í erfiða stöðu sérstakega í ljósi þess að annar liðsmaður bar barn undir belti og gat því ekki keppt. Við sendum því inn fyrirspurn um hvort Herdís Rústsdóttir, sem var keppandi í öðru liði í fyrra, gæti tekið sæti í liðinu. Eftir að stjórn skoðaði málið var Herdís samþykkt og hóf hún því undirbúning fyrir næsta mót. Seint á þriðjudagskvöld var okkur svo tilkynnt að hún mætti ekki keppa í ljósi þess að hún tók þátt einu sinni á síðasta ári í meistaraflokki á öðru hrossi en hún stefndi með nú. Þetta yfirsást okkur en gerum okkur grein fyrir því að það er ekki leyfilegt að hafa keppt í meistaraflokki óháð hrossi. Þetta setti okkur því í erfiða stöðu þar sem innan við 2 sólahringar voru í næstu keppni þegar okkur var tilkynnt þetta og við frekar fáskipuð í þessa grein. Í ljósi þess að tíminn var naumur og þeirrar staðreyndar að Herdís hafði fengið grænt ljós frá stjórn óskuðum við eftir því að málið yrði lagt undir alla liðsstjóra liðanna.

Ósk okkar var að fá álit hvort þeir fyrir hönd sinna liða myndu samþykkja undanþágu hvað þetta varðar þ.e. að Herdís fengi að keppa fyrir okkar hönd. Við tjáðum stjórn að ef einhver gerði athugasemd þá myndum við una þeirri nðiðurstöðu. Aftur skal það tekið fram að við gerum okkur grein fyrir því að slíkt yrði undanþága frá reglum.

Stjórn hafnaði þessari beiðni okkar. Við lögðum því fram tillögu um annan knapa sem hefur ekki mikla keppnisreynslu. Því var jafnframt hafnað á þeim forsendum að stjórn taldi viðkomandi hafa atvinnu af tamningum.

Ég vil við þetta tækifæri varpa upp umræðu á þeirri reglu sem gildir um knapaval í deildina eða reglu 7.6 þar sem knapar meiga ekki hafa þegið laun af tamningu eða þjálfun s.l. 3 ár. Þessi regla skilgreinir hvort viðkomandi sé atvinnumaður eða áhugamaður og öðist þar með keppnisrétt í deildinni. Öllum er það ljóst að margir sem eru þáttakendur í deildinni í dag hafa tekjur af slíkri starfsemi m.a. með beinum hætti eða þáttöku í rekstri tamnigastöðva. Við nánari skoðun á okkar liði eru líklega fleiri liðsmenn sem falla undir þessa reglu, Árni Sigfús Birgisson tók t.d. hest í þjálfun fyrir nágranna sinn fyrir 2 árum og þáði fyrir það greiðslu. Sjálfur á ég hlut í tamningastöð og þrátt fyrir að vera ekki launamaður eða koma nálægt daglegum rekstri þá á ég hlutdeild í hagnaði í samræmi við mitt eignarhald. Ég tel að finna megi keppendur í flestum liðum sem falla undir þessa reglu. Upplýsingar um þetta má m.a. finna á vefsíðum keppenda og í kynningum liða á knöpum sínum í deildinni. Í mörgum tilfellum ætti það því að vera augljóst að viðkomandi keppendur ættu ekki að vera með keppnisrétt m.v. fyrrgreinda reglu.

Þessi regla er óljós og virðist stundum vera farið eftir henni og stundum ekki. Ég tel því ótækt að hafa reglu í gildi sem stjórn er ekki í neinni stöðu til að framfylgja og því huglægt mat stjórnar og keppanda hvort viðkomandi sé atvinnumaður eða ekki.

Jafnframt spyr ég mig að því til hvers er þessi regla. Hefur atvinna viðkomandi eitthvað með getu til þáttöku hans að gera. Við sjáum áhugamenn í Meistaradeild og hvað er að því að fólk sem hefur hestamennsku að atvinnu taki þátt í þessari deild.

Mín skoðun er sú að stofnun þessarar deildar hafi verið mikil lyftistöng fyrir hestamennskuna eins og Meistaradeildin var á sínum tíma. Spurning mín er hinsvegar sú hvort kominn sé tími á að endurhugsa þetta fyrirkomulag t.d. með nánara samstarfi þeirra deilda sem í gangi eru. Sem dæmi að lið og þar með knapar geti unnið sig upp um deild eða fallið um deild svipað og í öðrum liðsíþróttum byggt á árangri en ekki atvinnu.

Það er ljóst að ég er verulega ósáttur við þann farveg sem þetta knapamál endaði í og tel ég málið hefði mátt leysa með farsælli hætti. Brugðist var of seint við og ótækt að tilkynna okkur eftir að skráningu lauk að afturkalla eigi keppnisrétt viðkomandi knapa. Mín skoðun er sú að stjórn hefði átt að bera málið strax undir liðsstjóra í stað þess að taka ákörðun einhliða um málið útfrá athugasemd frá öðrum keppanda. Sérstaklega í ljósi þess að verulegar undanþágur virðast hafa verið gerðar frá reglu 7.6. og er ég nokkuð sannfærður að liðstjórar hefðu tekið tillit til þeirra aðstæðna sem upp voru komanar.

Í lokin vil ég koma fram þakklæti til allra sem að deildinni standa og óska ykkur góðs gengis í vetur. Jafnframt vil ég nota tækifærið og þakka liðsmönnum mínum og þjálfara fyrir óeigingjarnt starf og næturbrölt kvöld eftir kvöld við undirbúning fyrir keppni tímabilsins. Þessi vinna mun skila sér á öðrum vettvangi.

Gengi ykkur öllum vel í kvöld.

Kær kveðja,

Sigurður Halldórsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar