Nú byrjar ballið…

  • 22. janúar 2021
  • Fréttir
Pistill eftir Hinrik Sigurðsson

Góðan daginn hestamenn og -konur.

Ég vona að þjálfunin gangi vel og ég sé að það er heilmikið líf í hestamennskunni út um allt.

Í komandi viku hefst keppnistímabil ársins með fyrsta móti Meistaradeildar, og svo sé ég að félögin eru farin að auglýsa vetrarmót strax um helgina sem fylgir, já og þar á eftir Áhugamannadeildin í Spretti, svo það er óhætt að segja að hjá keppnisfólki landsins er bara „rock on“ framundan.

Þegar farið er að undirbúa keppni og tímabilið sem því fylgir eru nokkrir punktar sem mig langar lána ykkur og mér finnst hafa hjálpað mér, og mörgum nemendum mínum sem ég er að þjálfa.

Til þess að virkilega halda vinnunni okkar á þeim nótum að njóta þess og hafa gaman af þjálfuninni og undirbúningnum vil ég benda knöpum á að hugsa um það út frá eigin hesti og þjálfun hans, hvað þið stefnið á þegar á hólminn er komið.

Þá er ég ekki að meina í samanburði við aðra keppendur, að hugsa sér sæti í keppninni sjálfri, eða einhverja vissa einkunn, heldur að pæla í því hvernig þið viljið sýna hestinn ykkar.

Að fyrirfram setja sér skýrt markmið um það hvað maður er ánægður með að ná fram.

Hér að neðan er dæmi um það sem ég hef sett mér með eitt af mínum keppnishrossum:

“Ég ætla að vera Rólegur (stjórna stemningu)-Einbeittur (einbeita mér að léttleika í taumhaldi)- Kraftmikill (geta sýnt hana með orku en rólegur).

Þegar mér tekst að halda þessari stemningu fæ ég léttleika í taumsambandið og hún gengur með hálsinn langan og spennulausan. Þetta virðist vera uppskriftin að því að hún tölti mjúkt og mér finnst hún létt og auðveld í þessu ástandi.

Ég stilli upphitun þannig að ég byrja á að losa hliðar á sveigðu spori, fæ hana til þess að ganga á hægu tölti í lágum höfuðburði (comfort zone) og svo fer ég að bæta við orkustigið í rólegheitum.

Note to self:

Mundu að fara á feti að hliðinu, með langan háls og bakið uppi, því hún er fljót að finna góða hreyfingu á tölti þegar hún er slök, og hefur þá styrk til þess að halda vel á sér lengur!

Brostu og sittu á rassinum 🙂

Þessi texti er bara afrit frá því sem ég setti upp sjálfur þegar að ég keppti á Tíbrá frá Silfurmýri, vinkonu minni í fyrra og geri þetta alltaf fyrir mót.

Þetta geri ég til þess að vita fyrirfram hvað ég verð ánægður með að ná fram í mótinu og svo er mitt hlutverk að standa við að vera ánægður ef ég næ því sem ég setti upp fyrirfram alveg sama hvá listanum ég á endanum lendi.

Það er nefnilega heilmikill árangur að útfæra prógramm þar sem maður nær að sýna mómentin sem eru góð og líða vel í hnakknum á meðan.  Svo er það þannig að með svona plan verður útgeislunin á manni góð, hesturinn fær skýrari skilaboð og þá verður útkoman góð í langflestum tilvikum.

Þetta er að minnsta kosti fyrir mitt leyti frábær aðferð til þess að njóta þess að keppa og hafa hrikalega gaman af því, maður keppir við sjálfan sig.

Finnið út hvaða atriði ykkur langar að ná fram með ykkar hesti, skrifið það hjá ykkur og ákveðið hvað myndi gera ykkur ánægð með ykkar eigin frammistöðu á æfingu, í upphitun, undirbúningi og keppni og svo vinnið þið útfrá því.

Einn punktur enn sem mig langar rosalega til að þið spáið aðeins í útfrá ykkar hesti, og það er þannig að stemningin sem þið náið að búa til í þjálfunartímanum með hestinn ykkar stýrir útkomu þjálfunartímans voða mikið.

Líkamstjáningin, stemningin og ”tónninn” sem þið gefið í ábendingum er í raun mikilvægari en ábendingin sjálf.

Svo það er rosalega áhrifaríkt og gaman að prófa sig svolítið fram með hestinn sinn og finna út hvaða stemning hentar hverju verkefni með hestinn. Og að þið hafið líkamstjáninguna og ábendingartóninn í huga, þ.e. að líkamstjáningin þarf að stemma alveg við það sem þið viljið að ábendingin segi.

Þetta er uppskrift að léttleika í ábendingakerfið og mér finnst að minnsta kosti alveg hrikalega gaman að spá í það á mismunandi hestum.

Mér datt í hug að deila þessu með ykkur sem eruð að huga að keppni, en ég vil líka nefna að þessi texti er byggður á texta sem ég lét knapa í liði í Áhugamannadeild Spretts hafa, lið sem ég held að hljóti að vera skemmtilegasta lið landsins og ég er svo heppinn að ég fæ að fylgja þeim í mótaröðinni.

Vonandi geta fleiri nýtt sér punktana, og ég vona að komandi keppnistímabil verði gefandi og skemmtilegt fyrir okkur hestamenn 🙂

Góða helgi

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar