“Við ætlum að breyta og fara aftur til fortíðar“

  • 2. október 2022
  • Fréttir
Viðtal við eigendur Baldvins og Þorvaldar

Flestir hestamenn sem hafa lagt leið sína í gegnum Selfoss hafa orðið varir við hestavöruverslunina og söðlasmíðaverkstæðið Baldvin og Þorvald og jafnvel margir kíkt við enda elsta hestavöruverslunin á Suðurlandinu.

Komið er að tímamótum en verslunin/verkstæðið ætlar að flytja sig um set en verður þó áfram á Selfossi. “Við ætlum að fara breyta og fara aftur til fortíðar. Það halda allir að við erum að stækka en við ætlum að minnka við okkur. Fara í minna húsnæði og minnka opnunartímann. Vera í söðlasmíðinni áfram og vera með hestavöruverslun en svona í minna umfangi.” segir Ragna Gunnarsdóttir en hún og maðurinn hennar Guðmundur Árnason hafa rekið Baldvin og Þorvald nú í 25 ár.

Guðmundur sem er lærður söðlasmiður fékk að fá lánaða saumavélina hjá forvera sínum í Baldvini og Þorvaldi sem endaði með að þau hjónin keyptu fyrirtækið.

“Við vorum nýflutt austur. Það kom kona til okkar og bað mig um að smíða fyrir sig hnakktöskur, sem ég gerði á malargólfinu í bílskúrnum. Ég þurfti síðan að komast í saumavél og talaði við þær í Baldvini og Þorvaldi hvort ég mætti koma og aðeins fá að vinna í vélinni hjá þeim. Það stóð ekkert á því og þegar ég er að vinna við töskurnar þá snýr Ósk sér að mér og segir “Gummi afhverju kaupirðu þetta ekki af mér?””.

Kaupin voru handsöluð á staðnum, 20. nóvember 1997, og stofnuðu þau Ragna og Guðmundur fyrirtækið 24. nóvember og opnuðu verslunina og verkstæðið í byrjun desember. Verslun Baldvins og Þorvaldar er gamalt nafn og vildu þau Ragna og Guðmundur ekki skipta því út þó það tengdist þeim ekki neitt. Verslunin var upprunalega stofnuð árið 1927 og því styttist í 100 ára afmæli Baldvins og Þorvaldar. Þegar þau taka við 1997 þá var verslunin staðsett í kjallaranum á gamla Landsbankahúsinu við Austurveginn en í ágúst 1999 fluttu þau að Austurvegi 56 þar sem þau hafa verið í 23 ár.

En hvað kemur til að þau eru að breyta til? “Fólk sem er vitrara en við hefur verið að segja við okkur að maður þurfi að eiga líf með þessu því það er víst of seint þegar maður er dauður,” segir Ragna og Guðmundur bætir við “já þetta eru nokkrir samverkandi þættir en búðin gengur vel og við erum hraust. Það eru engin vandamál en okkur langar að sinna hrossunum betur og kannski fara í fjölskyldufrí af og til en það eru 10 ár síðan við fórum síðast í frí með sonum okkar sem nú eru orðnir fullorðnir menn. Okkur langar að prufa að vera þetta fólk sem vinnur átta til fjögur en ekki til sjö jafnvel átta og alla laugardaga eins og við höfum gert síðan 1997.”

Baldvin og Þorvaldur er að flytja á Háheiði 2 og verður opið frá kl: 08:00 til 16:00 virka daga en lokað verður um helgar.

“Við komum til með að sakna fólksins sem við höfum kynnst hérna og vonumst eftir að það eigi eftir að halda áfram að kíkja til okkar. Við erum búin að eignast ótrúlega marga vini og kunningja í gegnum árin. Við erum spennt fyrir nýjum tímum og hlökkum til að sjá ykkur öll á nýja staðnum.” segir Guðmundur að lokum.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar