Afrek áratugarins – Keppnishluti ársins 2012

  • 31. mars 2020
  • Fréttir

Einar, Svanhvít og Glóðfeykir að úrslitum loknum

Samkvæmt tímatali okkar Íslendinga erum við nú á öðrum áratugi 21. aldarinnar en hann hófst 1. janúar árið 2011 og lýkur 31.desember árið 2020.

Á þessum áratug hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku og hrossarækt og margt markvert átt sér stað. Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu afrek hvers árs og nú tökum við fyrir keppnishluta ársins 2012

Árið 2012 var hestamönnum gjöfult en stærstu viðburðir ársins voru Landsmót í Reykjavík, Norðurlandamótið sem fram fór í Svíþjóð og Íslandsmótið í hestaíþróttum sem fór fram á Vindheimamelum.

Einar Öder átti „comeback“

Einar Öder Magnússon sigraði hug og hjörtu allra viðstaddra á landsmótinu í Reykjavík þegar hann reið Glóðafeyki frá Halakoti til sigurs í B-flokki. Einar hafði ekki sigrað gæðingakeppni á Landsmóti síðan hann reið Júní frá Syðri-Gróf til sigurs í A-flokki á Landsmóti á Hellu 1986.

Einar sagði m.a. í samtali við Eiðfaxa af þessu tilefni. „Hugarfarið skiptir öllu máli. Þegar ég hugsa til baka, til ársins 1986 þegar ég varð Landsmótsmeistari í A-flokki minnist ég að í mér bjó mikil gleði og jákvæðni. Ég hugsa að ég hafi gleymt því á tímabili. Undanfarið hef ég tileinkað mér jákvætt hugarfar sem hefur reynst mér vel. Einhvern vegin finnst mér ég aldrei hafa haft það betra en núna fimmtugur að aldri“. Einar kvaddi þennan jarðneska heim árið 2015 eftir hetjulega baráttu við krabbamein, hans er sárt saknað.

Fróði frá Staðartungu varð efstur alhliða gæðinga á Landsmótinu knapi á honum var Sigurður Sigurðarson. Sigurður náði með þessum mögnuðum árangri og hafði sigrað A-flokk, B-flokk og töltkeppni Landsmótsins á glæstum ferli.

Sigursteinn Sumarliðason varði sigur sinn í tölti á Landsmóti á Ölfu frá Blesastöðum 1A en þau höfðu sigrað í sömu grein á Landsmóti árið 2011.

Sigurbjörn Bárðarson náði frábærum árangri í skeiðgreinum á landsmótinu þegar hann hlaut tvö gull og eitt silfur. Hann var fljótastur í 150 metra skeið á Óðni frá Búðardal og í 250 metra skeiði á Flosa frá Keldudal. Þá hlaut hann silfur í 100 metra skeiði á Andra frá Lynghaga.

Glódís Rún Sigurðardóttir varði titil sinn í barnaflokki á Landsmóti á Kamban frá Húsavík með einkunnina 9,02 sem var hæsta einkunn sem gefin hafði verið í barnaflokki á Landsmóti fyrr og síðar. Þá sigraði Guðmunda Ellen Sigurðardóttir keppni í unglingaflokki á Blæju frá Háholti og Kári Steinsson sigraði keppni í ungmennaflokki á Tóni frá Melkoti.

Góður árangur í íþróttakeppni

Jakob Svavar Sigurðsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari á Al frá Lundum bæði í fimmgangi og slaktaumatölti.

Árni Björn Pálsson varð Íslandsmeistari í tölti á Stormi frá Herríðarhóli eftir að hafa farið lengri leiðina að titlinum og komist í A-úrslit með sigri í B-úrslitum. Markaði þessi sigur upphafið að glæstum sigurferli þeirra.

Agnar Snorri Stefánsson var atkvæðamestur íslenskra landsliðsknapa á Norðurlandamótinu þar sem hann vann til þrennra gullverðlauna á stóðhestinum Feng frá Staagerup í slaktaumatölti, fimmgangi og samanlögðum fimgangsgreinum. Þá varð Flosi Ólafsson norðurlandameistari í tölti ungmenna á Kveik frá Lian sem hann fékk að láni hjá Agnari Snorra og konu hans Anne Stine Haugen.

Gústaf Ásgeir Hinriksson náði frábærum árangri í yngri flokkum en hann varð fjórfaldur Reykjavíkurmeistari og náði í fjóra sigra á Suðurlandsmótinu. Á Íslandsmóti yngri flokka varð hann efstur í öllum greinum í unglingaflokki, nema tölti. Hann sigraði gæðingaskeið, 100 metra skeið, fjórgang og varð stigahæsti knapi mótsins.

Ásmundur Ernir Snorrason hlaut útnefninguna efnilegasti knapi ársins en hann átti frábært ár í ungmennaflokki. Varð Íslandsmeistari ungmenna í tölti og samanlagður Íslandsmeistari bæði í fimmgangs- og fjórgangsgreinum. Þá hlaut hann silfur í fjórgangi á Íslandsmótinu og einnig í ungmennaflokki á Landsmótinu.

Blesastaðir 1A hlutu útnefninguna keppnishestabú ársins 2012 enda voru mörg glæsileg hross í keppni frá búinu og má þar nefna Ölfu, Fláka og Óskar.

Guðmundur Björgvinsson varð knapi ársins en hann átti gott ár bæði á kynbóta og keppnisvellinum og varð t.d. íslandsmeistari í fjórgangi á Hrímnir frá Ósi og annar í B-flokki á landsmóti.

Of mikið væri að telja upp alla sigra ársins og biðjumst við velvirðingar ef einhver sérstök afrek vantar og tökum við ábendingum á eidfaxi@eidfaxi.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar