Enn tækifæri til að sækja um Youth Cup

  • 22. apríl 2024
  • Tilkynning

Hinn geysivinsæli viðburður FEIF Youth Cup 2024 fer að þessu sinni fram í Sviss dagana 13. til 20. júlí. Viðburðurinn fyrir knapa á aldrinum 14-17 ára sem vilja öðlast keppnisreynslu á erlendri grundu. Þetta er einnig frábært tækifæri til kynnast ungum og efnilegum knöpum frá öðrum löndum. Áhersla FEIF Youth Cup er á teymisvinnu, íþróttamennsku, bætta reiðfærni og vináttu þvert á menningu.

Hinni Sig reiðkennari og afreksstjóri LH fór á fyrsta Youth Cup mótið sem haldið var í Lúxemburg árið 1995. Hann segir svo frá sinni reynslu:

 

,,Ég var 13 ára gamall á þeim tíma, að klára barnaflokk og var að stíga mín fyrstu skref inn í það sem síðar varð að skemmtilegum ferli sem atvinnuknapi, reiðkennari og þjálfari.

Í minningunni var þetta risastórt skref að fara og keppa á erlendri grundu með hópi knapa frá Íslandi.

Nú eru 29 ár síðan og ég man þessa viku ennþá mjög skýrt, og það sem eftir situr í minningu minni er hversu ótrúlega lærdómsríkt og skemmtilegt var að hafa farið þessa ferð.

Við fengum lánshesta að keppa á, góða hesta og hópurinn náði frábærum árangri í greinum mótsins á sama tíma og við kynntumst fjölda fólks í kringum þetta allt saman.

Á undirbúningsvikuni voru reiðkennarar að þjálfa hópana og það er enn við lýði á mótinu held ég og þarna voru það Walter Feldmann, Johannes Hoyos og Reynir Aðalsteinsson sem allri voru stórstjörnur í hestamennskunni og hafa orðið einskonar goðsagnir í hestamennsku á íslenskum hestum.

Ég kynntist þarna krökkum á mínum aldri frá ýmsum löndum, og ég get í fullri alvöru sagt að mikið af þessu fólki er á fullu í greininni í dag og eru enn í netverki mínu nú tæpum 30 árum síðar ýmist sem vinir, kollegar eða samstarfsaðilar í félagsmálastörfunum. Ég hitti þetta fólk á öllum stórmótum, á samskipti við það í félagsmálunum og kennslu og svo má lengi telja.

Félagsskapurinn, diskótekin, æfingar og keppni var alveg ótrúlega skemmtilegt og ég man að ég svaf í heilan dag þegar ég kom heim því ákafinn í vikunni var slíkur.

Ég vil því meina að þessi fyrstu skref inn í alþjóðlega þátttöku hafi í raun verið upphafið að mörgu sem ég bý að enn þann dag í dag og mæli eindregið með því fyrir alla áhugasama unglinga að reyna að fá að upplifa þetta!

Framlengdur frestur er til 24. apríl.

Frekari upplýsingar: FEIF YOUTH CUP 2024 – framlengdur umsóknarfrestur | Landssamband hestamannafélaga (lhhestar.is)

 

www.lhhestar.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar