Helstu afrek áratugarins – Keppnishluti ársins 2011

  • 20. mars 2020
  • Fréttir

Sigursteinn Sumarliðason og Alfa voru sigursæl en þau sigruðu tölt bæði á landsmóti og Íslandsmóti árið 2011

Samkvæmt tímatali okkar erum við nú á öðrum áratugi 21. aldarinnar en hann hófst 1. janúar árið 2011 og lýkur 31.desember árið 2020. Á þessum áratug hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku og hrossarækt og margt markvert átt sér stað. Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu afrek hvers árs og nú tökum við fyrir keppnishluta ársins 2011 en þetta ár var nóg að gera hjá keppnisknöpum því það var bæði landsmóts og Íslandsmóts ár.

Sigursteinn og Alfa sigursæl

Sigursteinn Sumarliðason sigraði þetta árið tvöfalt í tölti þ.e.a.s. bæði á landsmóti og Íslandsmóti á hryssunni Ölfu frá Blesastöðum 1A. Hlaut hann m.a. einkunnina 9,0 í úrslitum á Íslandsmótinu.

Ómur frá Kvistum stóð uppi sem sigurvegari í A-flokki með einkunnina 8,98 í úrslitum knapi á honum var Hinrik Bragason. Kjarnorka frá Kálfholti sigraði í B-flokki með einkunnina 9,19, knapi á henni var Sigurður Sigurðarson.

Hinrik Bragason varð einnig Íslandsmeistari í fjórgangi þetta sama ár á Sigri frá Hólabaki með einkunnina 8,07, þeir félagar kepptu svo fyrir hönd Íslands á HM 2011.

Þá þóttu Haukur Baldvinsson og Falur frá Þingeyrum sýna flotta takta á Íslandsmótinu á Selfossi þegar þeir sigruðu í gæðingaskeiði með einkunnina 8,25.

Elvar Einarsson setti íslandsmet í 250 metra skeiði á Íslandsmótinu sem fram fór á Selfossi tími þeirra var 21,89 sekúndur. Þeir félagar kepptu fyrir hönd Íslands á HM og hlutu silfur í 100 metra skeiði á tímanum 7,44 sekúndum. En þeir félagar voru Heimsmeistarar í 100 metra skeiði í um það bil 15 mínútur en knapinn sem sigraði Tania Hojvang Olsen fékk að fara auka sprett þar sem tímataka hafði klikkað á hennar spretti.

Á heimsmeistaramótinu lönduðu Íslendingar þremur gullum í fullorðinsflokkum. Jóhann Rúnar Skúlason mætti til leiks með nýjan hest, Hnokka frá Fellskoti, og urðu þeir heimsmeistarar í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum. Bergþór Eggertsson og Lótus frá Aldenghoor urðu heimsmeistarar í 250 metra skeiði og þá varð Eyjólfur Þorsteinsson heimsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum á Ósk frá Þingnesi en þau urðu einnig Íslandsmeistarar í slaktaumatölti.

Arna Ýr Guðnadóttir var kosinn efnilegasti knapi ársins en hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í ungmennaflokki á Þrótti frá Fróni.

Jóhann Rúnar Skúlason var útnefndur knapi ársins á uppskeruhátíð hestamanna þetta ár.

 

 

Of mikið væri að telja upp alla sigra ársins og biðjumst við velvirðingar ef einhver sérstök afrek vantar og tökum við ábendingum á eidfaxi@eidfaxi.is

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar