Helstu afrek áratugarins – Kynbótahluti ársins 2012

  • 27. mars 2020
  • Fréttir

Nói frá Stóra-Hofi stóð efstur í flokki fjögurra vetra stóðhesta á LM 2012 og setti heimsmet í þeim aldursflokki. Ljósmynd: Kolbrún Grétarsdóttir

Samkvæmt tímatali okkar Íslendinga erum við nú á öðrum áratugi 21. aldarinnar en hann hófst 1. janúar árið 2011 og lýkur 31.desember árið 2020.

Á þessum áratug hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku og hrossarækt og margt markvert átt sér stað. Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu afrek hvers árs og nú tökum við fyrir kynbótahluta ársins 2012.

Árið 2012 var hestamönnum gjöfult en stærsti viðburður þess árs í kynbótageiranum var að sjálfsögðu Landsmót í Reykjavík. Þar komu fram frábær hross í yndislegu veðri.

Frábær hross komu fram á árinu

Hrannar frá Flugumýri var hæst dæmda kynbótahross ársins en hann hlaut í aðaleinkunn 8,85 sýnandi hans var Þorvaldur Árni Þorvaldsson. Hann hlaut 8,39 fyrir sköpulag og fyrir hæfileika 9,16. Hæst hlaut hann einkunnina 9,5 fyrir eiginleikanna tölt, brokk og vilja og geðslag. Einkunnina hlaut hann á vorsýningu á Selfossi en Hrannar stóð einnig uppi sem sigurvegari í flokki sex vetra stóðhesta á landsmótinu.

Kolka frá Hákoti var hæst dæma hryssa ársins þá sex vetra gömul, hún var sýnd af eiganda sínum Hrefnu Maríu Ómarsdóttur sem á hana ásamt móður sinni Rósu Þorvaldsdóttur. Hlaut Kolka fyrir sköpulag 8,44, fyrir hæfileika 8,85 og í aðaleinkunn 8,69. Hún hlaut m.a. einkunnina 9,5 fyrir vilja og geðslag. Kolka stóð efst í flokki sex vetra hryssa á landsmótinu árið 2012 og undirstrikaði yfirburði í sínum aldursflokki því hún sigraði í flokki fimm vetra hryssa á landsmóti 2011.

Konsert frá Korpu stóð efstur í flokki sjö vetra stóðhesta og eldri og endurtók því leikinn líkt og Kolka því hann stóð efstur í flokki sex vetra stóðhesta á landsmóti árið 2011. Konsert hlaut í aðaleinkunn 8,58 en knapi á honum var John Kristinn Sigurjónsson.

Nói frá Stóra-Hofi sigraði í flokki fjögurra vetra stóðhesta á landsmótinu og varð um leið hæst dæmdi fjögurra vetra stóðhestar allra tíma. Hann hlaut fyrir sköpulag 8.37, fyrir hæfileika 8,60 og í aðaleinkunn 8,51. Sýnandi var Daníel Jónsson.

Alsystkinin Arion og Spá frá Eystra-Fróðholti stóðu efst í sínum aldursflokkum á landsmótinu. Arion stóð efstur fimm vetra stóðhesta með 8,67 í aðaleinkunn og Spá stóð efst í flokki sex vetra hryssa með 8,63 í aðaleinkunn. Sýnd af Daníel Jónssyni.

Pála frá Hlemmiskeiði 3 stóð efst í flokki fjögurra vetra hryssa en hún hlaut 8,31 fyrir sköpulag,  8,19 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,24. Sýnandi á henni var Þórður Þorgeirsson. Sá hörmulegi atburður átti sér stað síðar um sumarið að Pála fórst af slysförum.

Þá vakti klárhryssan Fura frá Hellu mikla athygli sýnd af Guðmundi Björgvinssyni. Stóð hún efst í flokki fimm vetra hryssa með 8,46 í aðaleinkunn og þar af einkunnina 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið.

 

Margir hestar hlutu afkvæmaverðlaun

Á landsmótinu í Reykjavík hlutu alls ellefu stóðhestar afkvæmaverðlaun en fimm þeirra hlutu heiðursverðlaun og sex fyrstu verðlaun. Efstur heiðursverðlaunahesta og þ.a.l. Sleipnisbikarshafi var Álfur frá Selfossi einungis 10 vetra gamall, aðrir hestar sem hlutu heiðursverðlaun voru Markús frá Langholtsparti, Þóroddur frá Þóroddsstöðum, Huginn frá Haga og Þristur frá Feti.

Víðir frá Prestsbakka stóð efstur fyrstu verðlauna stóðhesta fyrir afkvæmi en auk hans hlutu þessa viðurkenningu þeir Aðall frá Nýjabæ, Krákur frá Blesastöðum 1A, Eldjárn frá Tjaldhólum, Þytur frá Neðra-Seli og  Gaumur frá Auðsholtshjáleigu

Töluvert um tíur!

Nokkrar tíur voru gefnar árið 2012, tveir hestar hlutu einkunnina 10,0 fyrir skeið en það voru þeir Trymbill frá Stóra-Ási og Flugnir frá Ketilsstöðum. Óskasteinn frá íbishóli hlaut 10,0 fyrir vilja og geðslag. Óskar frá Blesastöðum hlaut hina fágætu einkunn 10,0 fyrir hægt tölt. Í einstökum eiginleikum í sköpulagi voru einnig gefnar tíur en Rán frá Þorkelshóli hlaut 10,0 fyrir fótagerð og þeir Víkingur frá Ási, Kostur frá Skagaströnd, Vafi frá Ysta-Mó, Bútur frá Víðivöllum-Fremri og Eldur frá Torfunesi hlutu einkunnina 10,0 fyrir prúðleika.

Syðri-Gegnishólar/Ketilsstaðir voru ræktunarbú ársins en frá þeim voru sýnd 25 hross árið 2012 og var þetta í annað sinn sem þau hlutu þessa útnefningu. Meðaleinkunn sýndra hross frá búinu var 8,12 og meðalaldur 5,6 ár.

Of mikið væri að telja upp alla sigra ársins og biðjumst við velvirðingar ef einhver sérstök afrek vantar og tökum við ábendingum á eidfaxi@eidfaxi.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar