Helstu afrek áratugarins – Kynbótasýningar árið 2011

  • 18. mars 2020
  • Fréttir

Af öðrum ólöstuðum var sýning Þórðar Þorgeirssonar á Spuna frá Vesturkoti afrek ársins 2011. Mynd: Henk Peterse

Samkvæmt tímatali okkar erum við nú á öðrum áratugi 21.aldarinnar en hann hófst 1.janúar árið 2011 og lýkur 31.desember árið 2020. Á þessum áratug hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku og hrossarækt og margt markvert átt sér stað. Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu afrek hvers árs og við byrjum á kynbótahluta ársins 2011.

 

Frábærir hestar á Landsmóti

Árið 2011 var sérstakt fyrir þær sakir að þá var bæði haldið landsmót og heimsmeistaramótLandsmótið fór fram á Vindheimamelum og er það að öllum líkindum síðasta landsmótið sem þar fór fram því nú hafa Skagfirðingar fært landsmótssvæði sitt að Hólum í Hjaltadal. Landsmótið átti að fara fram árið 2010 en sökum hestapestarinnar varð að fresta því um eitt ár.

Ný viðmið

Það má segja að af öðrum ólöstuðum standi sýning Þórðar Þorgeirssonar á Spuna frá Vesturkoti í fimm vetra flokki stóðhesta upp úr á þessu landsmóti. Spuni hlaut í aðaleinkunn 8,92 og varð með því hæst dæmdi stóðhestur allra tíma. Hann hlaut fyrir sköpulag 8,43 fyrir hæfileika 9,25 og í aðaleinkunn 8,92. Hann hlaut m.a. einkunninar 10,0 fyrir skeið og vilja og geðslag. Þá fékk Þórður reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna á þessu móti fyrir fallega og faglega reiðmennsku og prúðmannlega framkomu.  Þórður sýndi m.a. einnig efstu hryssuna í fjögurra vetra flokki, Úlfhildi frá Blesastöðum 1A.

Af öðrum kynbótahrossum sem hlutu háa einkunn á LM2011 má nefna Kiljan frá Steinnesi sem hlaut 9,07 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,78. Þá var Þóra frá Prestsbæ hæst dæmda hryssa mótsins með 9,08 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,77. En bæði hlutu þessi hross frábæra einkunn fyrir skeið, Þóra hlaut 10 og Kiljan 9,5.

Þá kom fram hópur af fjögurra vetra stóðhestum sem áttu eftir að gera það gott sem kynbótahestar og margir af þeim hestum hafa nú hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi en það eru þeir Arion frá Eystra-Fróðholti, Eldur frá Torfunesi, Skýr frá Skálakoti, Sjóður frá Kirkjubæ, Jarl frá Árbæjarhjáleigu, Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum, Toppur frá Auðsholtshjáleigu og Viti frá Kagaðarhóli. Mörg afkvæmi þessarra hesta munum við líklega sjá á landsmótinu í sumar á Rangárbökkum.

Þá vakti sérstaka athygli sýning Kára Steinssonar á hryssu sinni Maríu frá Feti sem stóð efst í flokki sex vetra hryssa, Kári var þá einungis 19 ára gamall. Auk þess má nefna Dívu frá álfhólum sem hlaut einkunnina 10,0 fyrir tölt á mótinu sýnd af ræktanda sínum Söru Ástþórsdóttur.

Fjórtán hestar hlutu afkvæmaverðlaun

Gári frá Auðsholtshjáleigu hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og Sleipnisbikarinn á landsmóti 2011 og Arður frá Brautarholti stóð efstur 1.verðlauna hesta fyrir afkvæmi. Þá hlutu þeir Aron frá Strandarhöfði, Hágangur frá Narfastöðum og Adam frá Ásmundarstöðum heiðursverðlaun.

Til viðbótar við Arð hlutu 1.verðlaun fyrir afkvæmi þeir Álfur frá Selfossi, Blær frá Torfunesi, Stáli frá Kjarri, Vilmundur frá Feti, Gígjar frá Auðsholtshjáleigu, Sólon frá Skáney, Þóroddur frá Þóroddsstöðum, Þristur frá Feti og Kjarni frá Þjóðólfshaga.

Í árslok var Auðsholtshjáleiga kosið hrossaræktarbú ársins og var það í fimmta sinn sem búið hlaut þá útnefningu.

Næst munum við taka fyrir helstu afrek á keppnisvellinum árið 2011.

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar