Hvað með Íslandsmót?

  • 25. janúar 2020
  • Fréttir
Vangaveltur um stöðu Íslandsmótsins í hestaíþróttum

Fyrirhugað er að halda íslandsmót fullorðinna og ungmenna á Rangárbökkum dagana 12. til 16. ágúst. Sú dagsetning hefur fallið misvel í kramið hjá keppnisknöpum.

Ástæður þess að Íslandsmótið í ár er haldið svo seint eru tvær. Landsmóti (LM) hefur verið seinkað um viku og er núna dagana 6.-12.júlí. Þá hefur Norðurlandamótinu (NM) verið flýtt um viku er núna dagana 27.júlí – 2.ágúst.

Á árum sem þessum hafa Íslandsmótin yfirleitt verið haldin um miðjan júlí.
Þá gefst tími fyrir þá knapa sem stefna á NM að taka þátt og einnig er LM og öllum aðdraganda þess lokið. Í kjölfar breyttra dagsetninga á LM og NM skapast þó ákveðið vandamál sem erfitt er að leysa úr, þannig að allir séu sáttir.

Í lok maí og júní fara fram víða um landið gæðinga- og úrtökumót fyrir LM. Flestir knapar hafa þjálfað hesta sína með þau mót í huga og hyggjast taka þátt á LM. Einhverjir knapar, sem hafa stóran flota keppnishesta, eru þó með sér hesta í íþróttakeppni og aðra í gæðingakeppni. Það væri því erfitt að setja á Íslandsmót á sama tíma og þau mót fara fram. Þá eru á þessum tíma kynbótasýningar þar sem fleiri hundruð hross eru sýnd og knapar og aðstoðarmenn standa í stórræðum.

Í samtali við Eiðfaxa hafa sumir keppnisknapar talað um að heppilegt væri að halda Íslandsmót á svipuðum tíma og verið hefur. Halda það sömu daga og Íslandsmót yngri-flokka fer fram, en það er fyrirhugað á Selfossi helgina 24.-26.júlí.

Aðrir hafa sagt að heppilegra sé að halda það fyrr um sumarið, einfaldlega í lok maí eða þá síðustu helgina í júní. Með því að halda það í ágúst takmarkist þátttaka margra af þeim stóðhestum sem eftirsóttir eru til ræktunar, þar sem þeir verði farnir í hólf að sinna hryssum.

Í lögum og reglum LH segir m.a. svo um Íslandsmót: „Dagsetning mótanna skal ákveðin með hliðsjón af Landsmóti og heimsmeistaramótum hverju sinni“

Kannski er komin tími á að LH setji lög um hvenær Íslandsmót skuli haldið, þannig að keppendur og aðrir gangi að mótinu vísu. Þannig viti knapar nákvæmlega hvenær Íslandsmót er haldið og geti hagað þjálfun sinna keppnishesta eftir því.

Hvað skal til bragðs taka er erfitt að segja til um. Kannski er kominn tími á  að íþróttakeppnin lúti sömu formerkjum og gæðingakeppnin hefur búið við, að haldið sé stórt mót í keppnisgreininni á tveggja ára fresti?

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<