,,Hversu magnaður getur einn hestur verið?!“

  • 5. september 2020
  • Fréttir

Aðalheiður og Kveikur leika listir sýnar heima á Margrétarhofi

Viðtal við Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur þjálfara og sýnanda Kveiks

Eins og allir hestamenn vita er Kveikur frá Stangarlæk 1 á leið til Danmerkur í haust. Á vef Eiðfaxa birtust nú fyrr í vikunni viðtöl við Rögnu og Birgi ræktendur hans og einnig við Gitte og Fast Flemming sem eru nýjir eigendur Kveiks.

Það var ekki hægt annað en slá á þráðinn til Aðalheiðar Önnu Guðjónsdóttur, sem séð hefur um þjálfun og sýningar á Kveik með eftirminnilegum hætti, og spyrja hana út í hestinn á þessari kveðjustundu þessa magnaða pars.

Varð alltaf betri og betri

Aðalheiður sýndi hann fyrst árið 2017 þá 5.vetra gamlan þegar hann hlaut 8,51 fyrir sköpulag, 8,24 fyrir hæfileika og 8,35 í aðaleinkunn en sá hún strax í upphafi tamningar hvað í honum bjó?
„Hann lét ekki mikið yfir sér í fyrstu, en var alltaf ofboðslega geðgóður, rólegur og með frábærlega eðlisgott tölt.Svo eftir því sem hann styrktist og varð eldri þá óx hann mikið og var alltaf að verða betri og betri, endalaust að manni fannst.“

Aðalheiður hlaut reiðmennskuverðlaun FT á LM2018 fyrir sýningu á Kveik mynd: Aðsend

Einstakur höfðingi

Hún sýndi hann svo aftur ári seinna fyrst á vorsýningu á Hellu þar sem hann hlaut frábærar einkunnir m.a. 10,0 fyrir vilja og geðslag, 9,5 fyrir tölt,brokk,stökk og fegurð í reið. Þau slógu svo eftirminnilega í gegn á Landsmótinu í Víðidalnum þar sem hann bætti m.a. við sig einkunninni 10,0 fyrir tölt en hvernig lýsir Aðalheiður Kveiki? „Hann er einstakur höfðingi. Eiginlega erfitt að finna nógu sterk orð til að lýsa honum. En hann er með einstakt geðslag, alltaf kátur og jákvæður, rólegur að eðlisfari og ekkert sem kemur honum úr jafnvægi. Gangtegundirnar eru náttúrulega engu líkar, töltið eins og það verður best, endalaust rými og alltaf mjúkur.  Mér finnst ég mjög heppin að hafa fengið að kynnast svona yfirburðar gæðingi og efast um að maður muni nokkurn tímann komast aftur í kynni við hest í líkingu við hann.“

Aðalheiður og Kveikur á Reykjavíkurmeistaramótinu Mynd: Henk Peterse

Það verður mikill söknuður af Kveik úr hesthúsinu

Aðalheiður reið honum í sinni fyrstu töltkeppni í Meistaradeildinni veturinn 2019 þar sem hún hlaut 8,07 í forkeppni og 8,22 í úrslitum. Þann veturinn komu þau einnig fram eftirminnilega á Stóðhestaveislunni í Samskipahöllinni í Spretti. Þá komu þau í sína fyrstu töltkeppni utandyra á Reykjavíkurmeistaramótinu í sumar þar sem einkunn þeirra var 8,53 í forkeppni en það er hæsta einkunn ársins í forkeppni í þeirri grein í ár. Nú er þó ljóst að það skilja leiðir og er því við hæfi að spyrja hvort ekki verðir söknuður af honum í hesthúsinu og hvaða kveðju hún sendi Kveik að lokum.“Jú það verður mikill söknuður, tómlegt að hafa hann ekki. Hann hefur gefið mér margt og mörg móment með honum þar sem maður situr hálf hlæjandi með aulabros og gæsahúð í hnakknum og hugsar hversu magnaður getur einn hestur verið?! Þar sem hann fer um á þeirri gangtegund og hraða sem maður vill, alltaf fisléttur á tauminn, sjálfberandi, óhræddur og nánast spyr hvað eigum við að gera næst??

Ég óska honum alls hins besta og vona að hann haldi áfram að blómstra.“

Aðalheiður og Kveikur komu fram á Stóðhestaveislunni þar sem folatollur undir hann var boðinn upp til styrkar Barnaspítala Hringsins. Móðir Aðalheiðar, Anna Björk Eðvarðsdóttir, tók við styrknum fyrir hönd Hringsins. Mynd: Anna Guðmundsdóttir

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar