Kennslumyndbönd frá Sindrastöðum – Raunveruleikasjónvarp

  • 2. apríl 2020
  • Fréttir

Núna þegar samkomubann er við lýði og landsmenn halda sig að mestu heima hafa margir af þeim sem njóta þess að miðla af reynslu sinni og þekkingu til annarra gefið út kennslumyndbönd á netinu. Þau Ísólfur Líndal Þórisson og Vigdís Gunnarsdóttir á Lækjamóti II hafa sent frá sér kennslumyndbönd sem er markmiðið að setja á vef Eiðfaxa núna næstu daga og vikur.

Blaðamaður Eiðfaxa setti sig í samband við Ísólf og spurði hann meðal annars út í hugmyndina á bak við kennslumyndböndin. „Ég hef lengi hugsað hvort ég geti komið meira efni frá mér og nýtt aðra möguleika en að vera á staðnum til að kenna og nú þegar maður kemst ekki að kenna þá varð þessi tilraun til. Einnig langar manni líka að veita innblástur, ef maður getur veitt einhverjum jákvæðan innblástur í þjálfun á hestunum sínum og ekki síst núna þegar erfiðir tímar eru víða. þá vill maður leggja sitt af mörkum við það.“ Segir Ísólfur Líndal og leggur í kjölfarið áherslu á að í myndböndunum á að sýna hvernig tamningar eru í raun og veru en ekki eingöngu draga fram glansmyndir.

„Þessi myndbönd eru raunveruleika sjónvarp. Það er ekkert handrit, ekkert klippt eða taka tvö, bara venjuleg þjálfunarstund í hesthúsinu og það sem gerist fer allt á myndband. Áherslurnar eru hvernig maður bregst við með þeim þjálfunaraðferðum sem eru notaðar hjá okkur á Sindrastöðum í hverju og einu tilfelli fyrir sig. T.d eru fyrstu myndbrotin aðeins um fortamningar og undirbúning fyrir frumtamningu og má kannski geta þess að við vorum með frumtamninganámskeið sl. haust þar sem erlendir og íslenskir nemendur voru hjá okkur í nokkrar vikur að læra að temja.  Nú þegar við fórum í 14 daga sóttkví um daginn tókum við inn öll tryppin hjá okkur sem verða 3 vetra í vor til að fortemja þau og þar með undirbúa fyrir næsta frumtamninga námskeið sem verður boðið uppá næsta haust ef aðstæður í heiminum leyfa. Við  fengum mjög góð viðbrögð nemenda við námskeiðinu og þótti þeim afskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt að kynnast mikilvægi góðrar frumtamningar.“ En hverju mega fróðleiksþyrstir hestamenn búast við í þessum myndböndum?

„Síðan eftir þessi fortamningarmyndbönd með 3 vetra hestinn förum við meira að fjalla um þjálfun og uppbyggingu og sýnd mismunandi tamningastig og hvar áherslur liggja eftir því hvar hrossið er statt í sinni þjálfun.  Það verða í raun bara teknar upp þjálfunarstundir, þær bútaðar aðeins niður til að hvert video verði ekki of langt og útskýrt það sem fer þar fram.

Við höfum sett þessi video á facebook hjá sindrastöðum og Ísólfi og fengið mjög jákvæð viðbrögð allsstaðar af í heiminum og þökkum við kærlega fyrir það.  Okkur finnst mikilvægt að þó svo að maður hafi miklar væntingar og sé að sækja fram á sínu sviði að muna eftir að njóta ferðalagsins, bæði sjálfur sem þjálfari og eins með hvern grip fyrir sig.“

 

Hér fyrir neðan má sjá fyrstu tvö kennslumyndböndin en fleiri munu birtast hér á vef Eiðfaxa og heimasíðu Sindrastaða næstu daga. Það skal tekið fram að Ísólfur talar í myndböndunum ensku en með því fá velunnarar íslenska hestsins um heim allan að njóta.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar