Ný og uppfærð Knapamerki – frábær grunnur fyrir alla hestamenn

  • 30. september 2020
  • Fréttir

Knapamerkin, stig 1–5, hafa fengið yfirhalningu, en bæði námskeiðin og bækurnar hafa verið uppfærðar með öllum nýjustu upplýsingum. Þetta vandaða og viðurkennda nám hentar öllum knöpum 12 ára og eldri, frá byrjendum til keppnisfólks.

Knapamerkin eru flestum hestamönnum á Íslandi kunn en þetta stigskipta reiðkennslukerfi telur til fimm stiga. Mælt er með að nemendur taki sér u.þ.b. eitt ár í hvert stig þó það sé misjafnt á hvaða hraða nemendur læri. Námið er bæði bóklegt og verklegt og hverju stigi lýkur með prófi.

„Markmiðið með Knapamerkjunum er að stuðla að auknum áhuga á reiðmennsku og hestaíþróttum og auðvelda aðgengi, bæta þekkingu, meðferð og notkun á hestinum,“ útskýrir verkefnastjóri Knapamerkjanna, Þórdís Anna Gylfadóttir.

Mette Mannseth, yfirreiðkennari Háskólans á Hólum, telur Knapamerkin vera frábæran grunn.

„Knapamerkin eru í fyrsta lagi frábær grunnur fyrir alla hestamenn til að byggja á og bæta sig. Bóklega efnið er líklega besta og viðamesta efnið sem til er um íslenska reiðmennsku og eykur skilning á hestinum og reiðmennsku. Fyrir utan persónulegan ávinning eru Knapamerkin opinbert kennsluefni og geturðu t.d. byggt ofan á þau þjálfaramenntun LH og ÍSÍ, og þau eru líka góður grunnur fyrir áframhaldandi nám í hestamennsku t.d. á Hólum. Ég myndi einnig mæla með Knapamerkjunum fyrir dómara og verðandi dómara í öllum hestagreinum,“ segir Mette.

Skipulagning námskeiðanna er nokkuð frjáls, en Þórdís bendir áhugasömum nemendum á að hafa samband við sitt hestamannafélag þar sem langflest félög bjóða upp á Knapamerkjanámskeið. Einnig er hægt að hafa samband við reiðkennara beint en upplýsingar um starfandi reiðkennara Knapamerkjanna má finna á heimasíðunni, knapamerki.is, ásamt fjölmörgum öðrum upplýsingum.

Á 1. og 2. stigi er farið yfir öll helstu grunnatriði hestamennskunnar: m.a. helstu öryggisatriði, atferli og umgengni við hesta, ásetu og taumhald knapans, gangtegundir, að hesturinn sé rólegur og í jafnvægi og einnig er lagður grunnur að fimiæfingum. Þeir sem telja sig hafa nægilega góðan grunn geta tekið stöðupróf á stigum 1 og 2, og ef þeir ná þeim, farið beint á 3. stig.

Á 3. stigi er lögð áhersla á nákvæmari reiðleiðir, stígandi ásetu, bauga og baugavinnu, kenndar eru fimiæfingarnar framfótasnúningur og krossgangur, fjallað er ítarlega um fóðrun og byggingu hestsins, gangtegundir hestsins og hreyfistig.

Námið þyngist svo jafnt og þétt. „Á stigi 4 og 5 er farið í dýpri og ítarlegri hluti. Á 4. stigi er farið vel yfir allt það sem snýr að knapanum, t.d. sjálfstraust, hugþjálfun og líkamsbeitingu. Sérstakur kafli er um fætur, bak og tennur hestsins. Fjallað er ítarlega um þjálfunarhugtök líkt og jafnan takt, samspil, samspora, sveigjanleika, fjöðrun, spyrnu, söfnun, burð og svo mætti lengi telja. Á 5. stigi er að finna mjög fróðlegan kafla um þjálfunarlífeðlisfræði sem er skrifaður af Guðrúnu Stefánsdóttur lektor og Höskuldi Jenssyni dýralækni, saga reiðmennskunnar er gerð skil, ítarlega er farið í gangtegundaþjálfun og leiðir til að bæta gangtegundir skýrðar í máli og myndum,“ segir Þórdís og hvetur alla fróðleiksþyrsta hestamenn til að kynna sér nýjar og uppfærðar Knapamerkjabækur.

Prófin verða einnig meira krefjandi með hverju stigi, en á síðasta verklega prófinu þarf að sýna allar gangtegundir, nema skeið, og helstu fimiæfingar. „Á 5. stigs prófinu eru t.d. gerðar kröfur um að hesturinn sé í fyrsta lagi takthreinn, að hann sé við taum, knapinn ríði prófið í lóðréttri ásetu, það sé gegnumflæði ábendinga, form og líkamsbeiting hestsins sé mjög góð og að reiðleiðir séu nákvæmar. Sýna þarf m.a. stökk á miðhring, hraðaaukningar á skálínu, opinn sniðgang á tölti og taumur gefinn á brokki,“ segir Þórdís og bendir á að Knapamerkin eru tekin gild inn í menntakerfið. Nemendur í grunn- og framhaldsskólum geta fengið einingar fyrir Knapamerkin og nýtt þau sem valfag. Einnig er hægt að nýta frístundastyrkinn fyrir börn og fullorðnir geta nýtt sér íþróttastyrk frá stéttarfélögum.

Eins og sést af ofantöldum atriðum er ávinningurinn af Knapamerkjanámi margþættur. „Að fara með hestinn sinn í gegnum Knapamerkin gefur honum góðan grunn til að verða þjáll og endingagóður reið- og/eða keppnishestur. Það auðveldar alla þjálfun til framtíðar hvort sem þú átt hestinn sjálfur áfram eða einhver annar fær að njóta hans. Hann kannast þá við almennt notaðar ábendingar og þjálfunarkerfi sem minnkar líkurnar á misskilningi milli hests og knapa,“ segir Mette.

Þórdís hvetur hestamannafélög og reiðkennara til þess að bjóða upp á námskeið í Knapamerkjum. Ef nánari upplýsinga er óskað um fyrirkomulag eða framkvæmd námskeiðanna er hún tilbúin til aðstoðar. Sendið henni póst: thordis@holar.is. Mette bætir við að fyrir reiðkennara eru knapamerkin frábært verkfæri fyrir markvissa og metnaðarfulla kennslu þar sem kennari og knapi eru með fyrirfram skilgreind markmið og svo ákveðið lokamat (próf) á framvinduna. „Samstarf og umræður við aðra kennara og mat prófdómarans á frammistöðu nemandanna eykur líka metnað og árangur, og virkar sem endurmenntun.“

Námið hefur reynst vinsælt meðal Íslendinga frá því að boðið var upp á það fyrst, en nú eru reiðkennarar erlendis einnig farnir að kenna Knapamerkin og fyrstu námskeiðin fara vel af stað.

Höfundur Knapamerkjanna er Helga Thoroddsen reiðkennari. Vinna við Knapamerkin hófst á vegum Átaks í hestamennsku sem var starfrækt á árunum 2000–2004 og að því stóðu Bændasamtök Íslands, Landssamband hestamannafélaga, Félag tamningamanna og Félag hrossabænda en þessi samtök ýttu verkefninu úr vör áður en það færðist yfir til Háskólans á Hólum árið 2004. Knapamerkin eru í umsjón og á ábyrgð Háskólans á Hólum sem er jafnframt útgefandi námsefnisins.

Lesið meira á knapamerki.is og á Facebook-síðu Knapamerkjanna.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gígja Dögg Einarsdóttir.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar