Það er komið að  Landsþingi Landssambands Hestamannafélaga

  • 25. nóvember 2020
  • Fréttir
Pistill frá Ólafi Þórissyni

Nú eru tveir dagar í Landsþing Landssamband Hestamannafélaga.  Á þinginu eru málefni hestamanna rædd. Nú liggur fyrir hverjir bjóða sig fram til formanns, aðalstjórnar og varastjórnar sambandsins. Allt er þetta mjög frambærilegt fólk og er tilbúið að láta gott af sér leiða fyrir okkur hestamenn og fagna ég því að svo margir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum fyrir okkur hestamenn.

Margar tillögur liggja fyrir þinginu að fjalla um og afgreiða.  Þannig hefur og mun hestamennskan taka skrefin áfram og við getum horft björtum augum fram á veginn.

Rafrænt þing

Nú í fyrsta skipti fer þingið fram eingöngu á internetinu.  Það verður gaman og fróðlegt að sjá hvernig það allt mun höfða til okkar. Mörg okkar hafa á undanförnum mánuðum setið rafræna fundi sem óneitanlega hafa kosti en einnig galla.  Einn af stóru ókostunum við rafrænt þing er að við munum ekki hittast, spjalla og mynda tengsl.  Það er einmitt einn af fjölmörgum kostum hestamennskunnar að maður kynnist mörgum og einhvernveginn erum við stundum eins og ein stór fjölskylda sem er yfirleitt samhent en stundum ekki. Ég hef heyrt af mismunandi útfærslum hvernig þingfulltrúar munu sitja þingið. Einhverjir verða heima hjá sér og aðrir koma saman í litlum hópum á vegum síns félags og taka þátt í þinginu.

Ég þekki það af eigin raun að það getur verið mun erfiðara að halda athyglinni á fjarfundum en þegar við hittumst, sitjum saman, hlustum, förum yfir málin í nefndum og ræðum málin á göngum og í gleðskap.  Það er því enn mikilvægara en áður að þingfulltrúar kynni sér vel þau málefni sem liggja fyrir þinginu.  Eflaust munu flestir kynna sér vel hverjir eru í framboði til stjórnar lesa greinar, skoða síður, lesa fundargerðir og kynna sér verk og reynslu frambjóðanda.  Nú er ég í framboði til formanns LH. Ég hvet þingfulltrúa til að kynna sér mín störf sem eru margþætt innan hestamennskunnar. Einnig væri gaman að fá símtal frá þingfulltrúum ef þeim langar að spyrja mig spurninga eða vantar aðrar upplýsingar. 8637130

Margþætt störf sambandsins

Það er sí stækkandi hópur sem kýs að ferðast á hestum í styttri eða lengri ferðum. Aukin hestakerrueign gefur hestamönnum möguleika á að velja reiðleiðir sem eru í öðrum sveitum. Á fáum árum hefur hestatengd ferðaþjónusta vaxið mikið. Þessir þættir hafa aukið þörfina á góðum og öruggum reiðleiðum og vegum.  Við erum með mjög öfluga nefnd innan LH sem heldur utanum reiðvegamálin. Það verður alltaf þéttari róður fyrir okkur hestamenn að standa vörð um reiðleiðirnar og reiðvegina sem við höfum merkt inná Kortasjánna. Það verður klárlega aukin krafa á að halda reiðleiðum opnum, góðum og öruggum.   Ég er einn af þeim sem ferðast mikið á hestum, bæði með fjölskyldunni og góðum vinum. Ég hef því góða þekkingu á málaflokknum og mun leggja mig fram um að þoka þessum málum og standa vörð um það sem verið hefur. Við þurfum að óska eftir meira fé til reiðvegagerðar, sækja í þá sjóði sem í boði eru. Áskoranir framtíðarinnar í þessum málum verður ekki síst að standa vörð um að ekki verði lokað á umferð ríðandi manna og að sjá til þess að reiðvegir verði nýttir sem slíkir.  Halda þarf áfram að fjölga vönduðum áningarhólfum á fjölförnustu reiðleiðunum.  Ef um blandaða notkun er að ræða þá þurfum við að njóta forgangs og upplýsa aðra hópa, svo sem hjólreiða – eða gönguhópa, um hvernig ber að umgangast og mæta ríðandi fólki.  Við hestamenn þurfum svo að halda áfram að vera ábyrg í umgengni við landið og til fyrirmyndar.

Fjölgum í Landssambandi Hestamannafélaga

Öll höfum við metnað til þess að halda á lofti hestamennskunni. Við viljum að sem flestir séu skráðir í hestamannafélög og LH. Í því sambandi nefnum við gjarnan nýliðun og æskulýðsmál. Hvort um sig er gott og gilt og vík ég að því síðar.  Við megum þó ekki gleyma öllum þeim sem eru með hesta en eru ekki skráð í hestamannafélög eða eru á svæðum sem eiga undir högg að sækja og eru í varnarbaráttu með að halda hestamennskunni á lífi á sínum svæðum.  Stjórn LH hefur verið að vinna með þessa stöðu og sótt fram.  Við fórum í átak í samstarfi við Horses of Iceland verkefnið til að höfða til þeirra sem halda hesta en eru ekki í hestamannafélagi. Átakið var samfélagsmiðlaherferð  þar sem við reynum að ná til hestamanna um að taka þátt í uppbyggingu þeirrar þjónustu sem við erum að nota. Yfirskrift verkefnisins var „Samfélag íslenska hestsins. Ert þú í hestamannafélagi?“  Við þurfum að halda áfram að vinna í þessu máli því það er vont ef hestamenn sjá ekki ástæðu til að vera í hestamannafélagi og taka þátt í og nota þá uppbyggingu sem til staðar er.

Hitt atriðið sem ég nefni og snýr að svæðum þar sem hestamennskan á undir högg að sækja.  Við þurfum að aðstoða hestamenn á þessum svæðum til að sækja fram og byggja upp innviði hestamennskunnar á hverju svæði.  Stjórn LH hefur farið vel yfir þessa stöðu og rætt leiðir. Það er ljóst að við verðum að standa saman við að aðstoða þessi félög og svæði.  Er þetta ekki einmitt hlutverk félagskerfis? Standa vörð um hestamennskuna um allt land. Það er öllum hestamönnum dýrmætt. Það er allavega mín skoðun og hef ég og mun vinna í þeim anda.

Hinn þátturinn sem við þurfum að leggja áherslu á til að fjölga í hestamennskunni er að hlúa vel að yngri knöpunum og áhugasömum sem hafa ekki kost á að komast á hestbak en áhuginn er fyrir hendi.  Þarna tvinnast saman flokkarnir sem við nefnum æskulýðsmálin og nýliðunarmálin.  Þessa málaflokka þekki ég vel en mitt félaga Geysir sem ég hef verið formaður í síðastliðin 10 ár, fékk einmitt æskulýðsbikar LH 2019 og hefur tvisvar fengið æskulýðsbikar HSK á þeim tíma sem ég hef verið formaður.  Þau hestamannafélög sem hafa kraftmikla einstaklinga í æskulýðsmálum eru yfirleitt með hvað mesta nýliðun hverju sinni. Allt gengur samt í bylgjum og er það þekkt hjá öllum hestamannafélögum í landinu.

Ég tel það mjög mikilvægt að hafa sem fjölbreyttast æskulýðsstarf og þarf að skoða hvert hestamannafélag fyrir sig um hvað gæti virkað því ekki hentar það sama á hverjum stað. Þéttbýlið þarf eina hugmynd og dreyfbýlið aðra. Einnig fer aðstaða innan hvers félags mikið eftir því hvaða hugmyndir henta á hverjum stað. LH getur hjálpað til við þessa hugmyndavinnu ásamt því að miðla upplýsingum milli hestamannafélaga hvað hentar á hverjum stað miðað við aðstæður hverju sinni.

Ég mun leggja áherslu á að æskulýðsmál og menntamál verði í hávegum höfð á næsta kjörtímabili. Þetta eru nátengd mál innan hestamennskunar og mikilvægt að koma þessu meira inní skólana og að hestaíþróttir verið valmöguleiki eins og aðrar íþróttir sem víðast.  Þessi mál þarf að vinna vel með hestamannafélögunum því eins og áður hefur komið fram eru aðstæður misjafnar eins og þær eru margar.

Við gleymum stundum í þessari umræðu nýliðun fullorðinna en þar eru sóknarfæri.  Einstaklingar sem voru á reiðnámskeiðum á sínum yngri árum en fóru svo í annað á meðan fólk var að mennta sig og stofna fjölskyldur. Það er til fullt af fólki sem langar að byrja aftur og þarf tækifæri til þess. Tækifærin eru til staðar og þarf að hluta til sama og með börn og unglinga, reiðnámskeið þar sem hestar eru í boði. Að fólk geti keypt sér mánaðarkort til að geta komist á hestbak eins og mánaðarkort til að geta mætt í ræktina. Að foreldrar geti fylgt börnum sínum eftir þegar börnin fara á reiðnámskeið. Að fá tækifæri að fara í útreiðartúr með börnum sínum. Allt eru þetta hugmyndir sem má útfæra á marga vegu. Það er nefnilega þannir að hestamennskan er heilsueflandi hreyfing og útivist fyrir alla fjölskylduna og því megum við ekki gleyma.


Ég býð fram krafta mína

Þingfulltrúar munu taka upplýsta ákvörðun um þau málefni sem til umræðu verða á þinginu og vera búnir að kynna sér stöðuna á vinnu Landssambands hestamannafélaga og þá sem í framboði eru.  Ég er stoltur af að hafa tekið þátt í uppbyggingu sambandsins og þeirri samstöðu sem hefur ríkt innan greinarinnar síðastliðin sex ár.  Ég hef gengt stöðu gjaldkera í stjórn LH og stjórn LM.

Ég gef kost á mér áfram til starfa fyrir sambandið og þá sem ykkar formaður.

Ólafur Þórisson gjaldkeri LH og formannsframbjóðandi til formanns LH 2020-2022

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar