Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum „Það eru öll augu á manni og maður finnur alveg fyrir því“

  • 16. september 2021
  • Fréttir

Sara Sigurbjörnsdóttir á Flóka frá Oddhóli.

Viðtal við Söru Sigurbjörnsdóttur, nýjan liðsmann Auðsholtshjáleigu í Meistaradeildinni í hestaíþróttum.

Mikil spenna er oft fyrir liðaskipan í Meistaradeildinni. Lið Auðsholtshjáleigu datt úr deildinni eftir síðasta keppnistímabil en sótti aftur um þátttökurétt nú í vetur sem það fékk.

Liðið hefur tekið þó nokkrum breytingum frá fyrra tímabili. Þórdís Erla Gunnarsdóttir, Ásmundur Ernir Snorrason og Sylvía Sigurbjörnsdóttir eru enn í liðinu en í stað Jóhanns Magnússonar og Snorra Dal eru þau Daníel Gunnarsson og Sara Sigurbjörnsdóttir komin inn í liðið. Daníel hefur verið að gera það gott að skeiðbrautinni með hryssu sína Einingu frá Einhamri 2 og Sara Sigurbjörnsdóttir hefur átt góðu gengi að fagna á hringvellinum nú síðast á Suðurlandsmótinu þar sem hún stóð efst í bæði fjórgangi og fimmgangi, á Flugu og Flóka frá Oddhóli.

Í samtali við Eiðfaxa kvaðst Sara vera spennt fyrir vetrinum og telur liðið mæta sterkt til leiks. “Ég held þetta verði gaman. Ég hef einu sinni áður verið með í deildinni en þá var ég meira svona uppfyllingar knapi og tók aldrei þátt í neinni grein. Mér líst mjög vel á liðið en ég held þetta sé sterkt lið. Mér finnst líka gaman að fá að vera með Sylvíu systur minni í liði en ég lít mikið upp til hennar og ber mikla virðingu fyrir henni. Reyndar líka hinum knöpunum en það er alltaf gaman að vera með góðum vinum,” segir Sara.

Sara stefnir á að tefla fram þeim Flóka og Flugu en þau Flóki urðu Suðurlandsmeistarar í fimmgangi með 7,41 í einkunn og Sara og Fluga urður Suðurlandsmeistara í fjórgangi með 7,57 í einkunn.  “Ég er með þessi tvö sem ég er búin að vera keppa svolítið á í sumar og gengið vel. Ég held að framhaldið verði skemmtilegt og þau eigi bara eftir að bæta sig enda bæði stútfull af hæfileikum,” segir Sara. Aðspurð hvort hún finni fyrir aukinni pressu að vera fara taka þátt í Meistaradeildinni telur hún svo vera. “Aðallega samt pressa sem ég set á sjálfa mig. Þetta er auðvitað krefjandi. Það eru langflestir áhugamenn um íslenska hestinn sem horfa á deildina út um allan heim. Það eru öll augu á manni og maður finnur alveg fyrir því. Maður þarf því að koma vel undirbúin til leiks svo þetta gangi vel,” segir Sara og bætir við “einhvern tíman verður maður þó að fullorðnast og koma sér á stóra sviðið.”

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar