Þú ert aldrei að temja hestinn heldur sjálfan þig

  • 7. apríl 2024
  • Aðsend grein

Ljósmynd: Stikla Photography - Bára Másdóttir

Aðsend grein eftir Bjarna Sveinsson

Ekkert er hollara en að reyna sig við það að temja hest, gagnkvæm virðing og skilningur er lykillinn að góðum árangri. Hesturinn skynjar bara þetta augnablik, við sem manneskjur erum fæst þar við lifum í þráhyggju hugsun um framtíð eða fortíð. Mér finnst t.d alltaf áhugavert að finna hvernig veðrið hefur áhrif á skapið í mér, einnig hvort ég er þreyttur eða úthvíldur. Þegar ég labba út í hesthús vel upplagður í góðu veðri geng ég að öðrum hrossum. Enda er ég að vinna í því að meta hestinn núna en ekki út frá því hvernig hann var í gær.

Sturla var harður í tamningu, óhræddur, næmur en sýndi hrekki. Ég ákvað að temja hann vel inni og var ekkert að ögra neinu. Bjó til skilning og fór hægt í hlutina. Af minni reynslu er ekki góð hugmynd að fresta því of lengi að fara í reiðtúr sérstaklega ef maður hefur litla inniaðstöðu. Eftir rúma 2. mánaðatamningu fór ég fyrst í reiðtúr á honum, ég beið eftir góðum aðstæðum til þess að ekki færi illa. Þetta var í lok desember byrjun Janúar ég var að temja út í sveit á þessum tíma. Það var fallegt vetrar veður kalt og logn. Snjóað hafði og var mikill snjór en sökum skafrennings var snjór beggja vegna við veginn þannig ef eitthvað færi illa myndi hann hlaupa beint áfram nú eða fara út af veginum og þar var 1-2 metra snjór. Þannig þetta var gott færi að prufa reiðtúr því gott er að detta í snjó. Vegurinn var frekar hár og girðingar beggja vegna sem getur verið hættulegt. Ég fer út á veg og finn það að hesturinn er með kergjuvott og fer að setja i mig bakið. Hann var raun og veru að hóta mér ef þú ýtir við mér mun ég henda þér. Ég gaf mig ekki því ég þoli ekki þegar mér er hótað. Ég hafði sýnt hestinum ekkert nema virðingu en þarna var hann að reyna mig sem leiðtoga. Ég ýttti honum því áfram með fótunum þéttingsfast og hann byrjar að stinga sér og rýkur stjórnlaust út af veginum með mig í hrekkjum. Ég náði að tolla á honum og hann stóð hissa með snjó upp að kvið fastur í snjóskafli. Ég fór af baki teymdi hann upp á veg reið honum eins og ekkert væri og hann sýndi mér þetta aldrei aftur. Með góðum undirbúningi og að stilla upp aðstæðum hafði mér tekist að temja hann. Við urðum að miklum vinum og hann varð minn besti reiðhestur frá þessum degi.

Árið 2017 var ég að þjálfa Sturlu fyrir kynbótadóm. Hann hafði farið í ágætis einkunn 4.v rétt undir 8.00. Þá um veturinn á 5.v fóru að opnast nýjar víddir í hestinum. Hann varð fljótlega sá hestur í hesthúsinu sem hafði mesta getu á gangtegundum. Í byrjun vetrar bauð hann mér mjög gott brokk en þegar leið á veturinn fór hann að veigra sér á brokki en tölt og skeið styrktist og hafði ég aldrei kynnst eins flinkum hesti á skeiði. En eitthvað var skrýtið því hann vildi ekki brokka. Mér fór að leika sá grunur að ekki væri allt með felldu. Er ég var inni í reiðöll að reyna að jafna út misstyrk varð hesturinn öskureiður. Ég fann hann vildi ekki nota hægri afturfót og lét ég mynda afturfætur og mín versta martröð varð að veruleika. Sá hestur sem átti að verða minn næsti hestur í fremstu röð var úr leik, hann var spattaður.

Sturla fór heim til sín og gelding var næst á dagskrá. Árið 2019 fæ ég hann svo aftur í hendurnar og hófst við að þjálfa hann til keppni. Sú þjálfun gekk ekkert mjög vel við áttum ekki skap saman lengur. Á þessum tíma vissi ég innst inni að hægt væri að þjálfa alla hesta en það er munur á hugmynd eða framkvæmd. Ég missti aldrei sjónar á því sem ég var að gera, ég er eins og Sturla, þrjóskari en ands…. og kann illa við uppgjöf. Ég hef margoft bognað á minni vegferð en ég brotna ekki. 5 árum seinna með endalaust af tilraunum er að koma einhver heildarmynd á það sem ég er að gera.

Ég byrjaði af krafti árið 2020 að þjálfa sjálfan mig markvisst til þess að bæta mig sem þjálfara. Fór að leita mér þekkingar sem við hestamenn pælum flest lítið í. Ég hafði spurningar sem engin hafði svör við innan hestamennskunar á Íslandi og því fór ég að leyta að mönnum sem gætu svarað þessum spurningum. Eins og af hverju eru allir hestar rólegir í kring um þennan en ekki hinn og hvernig get ég haft áhrif á sjálfan mig til þess að hafa áhrif á mitt innra ástand. Ég þróaði með mér að við erfiðaraðstæður slakaði ég á. T.d í frumtamninum eða í keppni, ég fór því að leyta í erfiðar aðstæður eða pressu til þess að geta náð að slaka á. Í dag er ég að vinna í þvi að geta slakað á án þess að gera neitt sérstakt. Þetta kallast hugleiðsla, sitja og gera ekkert nema að fylgjast með mínu innra ástandi og áhrifum umhverfis á innra ástandi. Ég reyni að finna það sem kveikir á hegðun hjá mér frekar en að reyna að forðast aðstæður sem vekja viðbragð hjá mér. Allir eru svona á einhvern hátt hvet ég fólk til að skoða sína hegðun í sambandi með sínum nánustu þar erum við oftast mest barnaleg. Einnig við
erfiðar aðstæður t.d keppni eða þegar fólk er að temja erfiðan hest.

Markmið mitt með þjálfun Sturlu er að gera hann að keppnishesti sem býr yfir fjölhæfni sem hefur ekki þekkst áður. Þ.e. geta farið með hann í kappreiðar og hringvallargreinar með góðum árangri. Annað ég vill hann muni verða í fullu fjöri eftir 10 ár ennþá í keppni heilbrigður á líkama og sál. Mín skoðun er sú að við eigum ekki að skipta um hesta eins og nærbuxur þegar eitthvað kemur upp. Að þjálfa hest með miklum árangri tekur mikinn tíma því verður ekki skipt úr fyrir einn reiðtíma hjá dýrum reiðkennara eða kaupa dýran hnakk. Mín skoðun er að tengjast hestinum og sjálfum þér í leiðinni með öllum þínum kostum og göllum sé til lengri tíma meira gefandi. Þú ert aldrei að temja
hestinn heldur sjálfan þig. Tek dæmi hestur er sjónhræddur þá getur þu séð hvort hesturinn sýni þessa hegðun einn út í stóði áður en hann var taminn. Eins og Sturla hann var graður og er mjög harður. Í rekstrum er hann alltaf að smala öllum hestunum og stjórna allt og öllu. Hann lemur og bítur hin hrossin er ekki kátur hestur nema hann stjórni. Ég sem knapi hef ekkert með þetta að gera hann er alltaf að prófa hversu langt hann kemst. Svona hefur hann alltaf verið. Svo fara að koma allskonar hlutir í ljós sem ég hef aldrei tekið eftir þegar hesturinn er frjáls útí náttúrunni þá met ég sem svo að það sé lærð hegðun af mínum völdum og ég þarf að skoða hvernig hann lærði þessa hegðun. Þar sem ég hef mest megnis þjálfað hestinn er það eitthvað sem ég er að gera sem veldur þessari hegðun samspil milli mín og hans. Það er eins með hesta og menn að við mótumst mikið af umhverfi okkar erfðir eru minni þáttur en menn vilja oft viðurkenna. Þægilegra er að skella hlutunum á ytra umhverfi en að taka ábyrgð á hegðunarvandamálum sem og líkamsbeitingarvandamálum. Vandamálið sem ég myndi flýja með því að láta annan þjálfa hestinn eða skipta um hest munu á endanum koma upp með næsta hest nema ég geri mér grein fyrir hvað er vandamálið.

Ég hef farið víða séð mörg stóð og held ég það væri verðugt efni að skoða áhrif umhverfis á hesta. Ég hef séð heil stóð af hrossum sem eru annaðhvort stygg eða spök bara eftir hvernig foladið upplifir manneskjur. Þessvegna þykir mér oft ósanngjarnt að fá illa undirbúið tryppi hrætt við manninn hest sem rekur trýnið upp í loft og hleypur þegar það sér mann. Viðkomandi kúnni vill fá sömu niðurstöðu og sá sem mætir með vel undirbúið tryppi. Vel undirbúið tryppi er að mínu mati hross sem ég get náð hvar sem er en hleypur ekki yfir mig. Ef að hestur sýnir mér ekki virðingu og skilning frá jörðu er oftast ekki góð hugmynd að fara á bak.

 

Höfundur: Bjarni Sveinsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar