,,verðum alltaf að vera á varðbergi gagnvart smitsjúkdómum“

  • 2. júlí 2020
  • Fréttir

Vegna einangrunar hér heima á fróni eru íslenskir hestar lausir við marga af þeim sjúkdómum sem herja á önnur hestakyn

Viðtal við Sigríði Björnsdóttur

Eiðfaxi fjallaði um það í gær að smitandi legbólga hefði í fyrsta skipti greinst í íslenskum hrossum í Danmörku og tók viðtal við Agnar Snorra Stefánsson af því tilefni en það má lesa með því að smella hér.

Sigríður Björnsdóttir er sérgreinadýralæknir hjá Mast og hefur hún umsjón með heilbrigði og velferð hrossa og því lá beinast við að hafa samband við hana og spyrja út í sjúkdóminn og hverjar líkurnar séu á því að hann berist hingað til lands. „Smitandi legbólga er einn þeirra sjúkdóma sem okkar ströngu reglur um smitvarnir beinast gegn. Um er að ræða bakteríusjúkdóm sem smitast fyrst og fremst við fyljun en ekki er útilokað að smitefnið geti borist í hross með óhreinindum frá búnaði eða fatnaði. Megin varnirnar liggja í banni við innflutningi lifandi dýra, sæðis og fósturvísa en ennfremur er óheimilt að flytja til landsins hvers kyns búnað sem notaður hefur verið í umhverfi hrossa erlendis. Notaðan fatnað og skófatnað þarf ævinlega að hreinsa og sótthreinsa fyrir komuna til landsins og bannað er að taka til landsins hanska sem notaðir hafa verið í umhverfi hrossa erlendis.“

Hér á landi hefur íslenski hesturinn verið einangraður frá öðrum hestakynjum frá landnámi og er því laus við marga af þeim sjúkdómum sem herja á önnur hestakyn. En hvernig er sjúkdómsstaða íslenska hestsins gagnvart öðrum hestakynjum og íslenskum hestum erlendis? „Almennt má segja að íslenski hesturinn sé í sömu hættu gagnvart smitsjúkdómum og önnur hross á sama svæði ef frá eru taldar fyrstu vikurnar eftir innflutning, áður en bólusetningar hafa veitt fullgilda vörn. Hross sem flutt eru frá Íslandi eru alla jafna bólusett fyrir hestainflúensu og jafnvel fleiri smitsjúkdómum fljótlega eftir komuna í ný heimkynni. En það getur tekið allt að 4 vikur að mynda nægilegt mótefni og á þeim tíma eru þau í meiri hættu. Þar sem smitandi legbólga (CEM) smitast fyrst og fremst við fyljun og hverfandi lítið er um erfðablöndun milli íslenska hestsins og annara hrossakynja, hefur þessi sjúkdómur ekki verið mikið vandamál í hrossakyninu. Tilvist hans sýnir þó að bakterían getur borist í hross með öðrum hætti og er þá nærtækast að líta til þess að íslenski hesturinn á erlendri grundu deilir oft og tíðum gerðum og beitarhólfum með öðrum hrossakynjum og er meðhöndlaður af sama fólki og með sama búnaði og önnur hrossakyn.“

Frjósemi er undirstöðu atriði í allri ræktun en smitandi legbólga hefur mjög neikvæð áhrif á fyljun hryssa og því er aldrei of varlega farið í hreinlæti þegar fólk ferðast á milli landa. „Það er nauðsynlegt fyrir íslenska hrossarækt að standa vörð um heilbrigði hrossastofnsins og það verður aðeins gert með því að fylgja settum reglum um smitvarnir. Ég vil í því sambandi ítreka að bannað er að flytja inn notaðan búnað, svo sem reiðtygi og hvers kyns  tæki og tól sem notuð hafa verið í umhverfi hesta. Þeir sem starfa í greininni þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi og allir sem taka á móti erlendum gestum, vinnufólki eða öðru fagfólki þurfa að tryggja að smitvarnir hafi verði viðhafðar.“ Segir Sigríður og bætir við að lokum.

„Smitandi legbólga er lúmskur sjúkdómur. Ekkert sést á stóðhestunum og hryssurnar geta verið einkennalitlar þar til í ljós kemur að þær hafa ekki fest fang. Ákveðið hlutfall hryssna sem sýkjast verða í framhaldinu fískir smitberar. Þetta eru erfiðustu sjúkdómarnir að verjast og atvikið í Danmörku sýnir að við verðum alltaf að vera á varðbergi gagnvart smitsjúkdómum í hrossum.
Ég vona að vel takist til við að uppræta sýkinguna þannig að hægt verði að lágmarka tjónið hjá þeim ræktendum sem í hlut eiga.“

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar