Smitandi legbólga greinist í íslenskum hrossum í Danmörku

  • 1. júlí 2020
  • Fréttir

Smitandi legbólga hefur mjög neikvæð áhrif á frjósemi hrossa mynd: Stald Gavnholt

Á búgarðinum Stald Gavnholt í Danmörku búa þau Agnar Snorri Stefánsson og Anne Stine Haugen. Þau eru bæði á meðal fremstu afreksmanna í hestaíþróttum og hafa unnið til fjölda verðlauna á því sviði auk þess að vera umsvifamikil í ræktun íslenska hestsins en á búgarði þeirra eru oft á tíðum til notkunar fjölmargir stóðhestar.

Þau Agnar Snorri og Anne Stine eru á meðal fremstu afreksknapa í heimi

Nú nýlega greindist smitandi kynsjúkdómur í hrossum á þeirra búgarði sem hefur neikvæð áhrif á frjósemi. Sjúkdómurinn heitir á íslensku smitandi legbólga (Contagious equine metritis (CEM)) og er þetta í fyrsta skipti sem hann greinist í íslenskum hestum í Danmörku.

„Hjá okkur hafa einkennin ekki verið augljós því það ætti að vera sterk lykt frá hryssunum og útferð frá skeiðaropi en við höfum ekki orðið var við þau einkenni. Stóðhestarnir eru nánast einkennalausir en þeir eru smitberar. Þetta veldur því að hryssurnar verða tímabundið ófrjósamar og er því mikið áfall fyrir alla hlutaðeigandi.“ Segir Agnar Snorri þegar hann er spurður að því hvernig sjúkdómurinn lýsi sér.

Stald Gavnholt er myndarlegur búgarður í Danmörku eins og sést á myndinni

En hvernig uppgötvaðist það þá að þessi leiðinlegi sjúkdómur væri kominn upp hjá þeim? „Við erum með nokkra stóðhesta hér til notkunar og þegar einn þeirra var einungis búinn að fylja eina hryssu af þeim átta sem voru hjá honum tókum við sæðissýni úr honum og sendum á almenna rannsóknarstofu þar sem það uppgötvaðist að örsökin væri smitandi legbólga. Dýralæknirinn okkar segir að þetta hafi ekki áður greinst í íslenskum hestum í Danmörku og þess vegna höfum við ekki farið fram á það við hryssueigendur að þeir skimi fyrir þessu. En mér skilst að t.d. í Þýskalandi, þar sem sjúkdómurinn er algengari, geti stóðhestseigendur farið fram á það við hryssueigendur að þeir skili vottorði um að hryssa þeirra sé ósýkt.“

Í framhaldinu af því að þetta greinist voru allir stóðhestar hjá þeim settir í einangrun og eru meðhöndlaðir daglega með skaufaþvotti í 10 mínútur og borið á þá krem við sjúkdómnum. Hryssurnar voru settar á sýklalyf. „Við bregðumst við þessu eins vel og við getum í samráði við okkar dýralækni en hann er nú á fullu að taka sýni á öðrum stöðum og með því athuga hvort þetta sé komið í dreifingu víðar. Það er vitað að þetta er komið á tvo staði þar sem íslenskir hestar eru og því nánast ógerlegt að rekja hvaðan það kemur og hvort einhver hryssan hafi verið smitberi. Það er þó ljóst að þetta er mikið tekjutap hjá okkur en mikilvægast er þó að ná að koma í veg fyrir þennan leiðinlega sjúkdóm.“ Segir Agnar Snorri að lokum. Eiðfaxi þakkar honum fyrir viðtalið og óskar þeim alls hins besta í baráttu við þennan leiðinlega sjúkdóma.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar