,,Vil vinna jöfnum höndum fyrir öll hestamannafélög í landinu“

  • 26. nóvember 2020
  • Fréttir
Viðtal við Ólaf Þórisson frambjóðanda til formanns LH

Ólafur Þórisson býður sig fram til formanns LH og er annar af þeim aðilum sem er í kjöri til þess starfa á landsþingi hestamanna, sem fram fer um helgina. Blaðamaður Eiðfaxa setti sig í samband við hann með það að markmiði að fræðast meira um hann og hans skoðanir á málunum.

Óli Þóris, eins og hann er jafnan kallaður, er fæddur árið 1977 og er því 43 ára gamall í ár en hann starfar sem bóndi og tamningamaður í Miðkoti í Landeyjum.

Óli hefur skrifað þrjár greinar í aðdraganda kosninganna sem lesa má með því að smella á þær hér fyrir neðan.

Það er komið að landsþingi LH

Mikilvæg málefni

Gef kost á mér til formanns Landssamtaka hestamannafélaga

Hér fyrir neðan eru svör Óla við spurningum blaðamanns Eiðfaxa.

 

  • Hvers vegna býður þú þig fram til formanns LH?

Áhugi á félagsmálum og ég hef mjög gaman að þessu vafstri. Í félgasstörfum kynnist maður mikið af kröftugu og gefandi fólki sem gaman er að vinna með. Mig langar að láta gott af mér leiða fyrir hestamenn og hestamennskuna á Íslandi áfram sem hingað til.

 

  • Bakgrunnur í hestamennsku?

Ég vinn við tamningar og þjálfun hrossa er einnig að rækta og selja hross. Ferðast mikið á hestum á hverju sumri og tek þátt í keppni. Hef komið mikið að æskulýðsstarfi, mótahaldi og kem í raunininni að flestum hliðum hestamennskunnar. Er ekki í útflutning en „tikka“ í  öll önnur box sem tengjast hestamennskunni.

 

  • Bakgrunnur í félagsmálum?

Ég hef verið formaður Geysis í u.þ.b. 10 ár þar áður var ég gjaldkeri félagsins í 2 ár. Ég hef einnig verið í stjórn annarra íþróttafélaga. Gjaldkeri LH og gjaldkeri LM ehf undanfarin 6 ár. Ég hef tekið þátt í stofnun Suðurlandsdeildar og Meistaradeildar Ungmenna ásamt, Áhugamannamóti íslands. Tók þátt í að koma af stað mótaröð fyrir börn og unglinga sem nefnist Æska Suðurlands. Verkefnið er samstarfsverkefni hestamannafélaga á suðurlandi. Staðið að 1.maí Æskulýðssýningu Geysis auk fjölda annarra verka í félagsmálum.

 

  • Hver verða þín helstu forgangsmál náirðu kjöri?

Verkefni Landssambands hestamannafélaga eru æði mörg og mismunandi. Ég myndi vilja sjá hestamennsku sem val á fleiri stöðum í menntakerfinu og að þetta verði íþróttagrein sem börn geti átt kost á að stunda líkt og aðrar íþróttagreinar. Vinna jöfnum höndum fyrir öll hestamannafélög í landinu stór sem smá.

 

  • Hvernig sérðu hestamennskuna þróast á næstu árum og áratugum

Ég held að hún þróist á þann hátt að það verði öflugri þessi hópur hestamanna sem nýtur íslenska hestsins í sýnu náttúralega umhverfi og þetta verði íþróttagrein sem fjölskyldan öll getur tekið þátt í. Útlitið er mjög bjart ef okkur tekst að vinna saman sem ein heild. Mikið hefur gerst í reiðmennsku og allri þjónustu hvað varðar hestamennsku. Allur þessi hraði í nútíma samfélagi gerir það að verkum að fólk mun vilja komast frá í frið og rólegheit, þar er sóknarfæri fyrir hesta og hestamennsku sem samverustundir fjölskyldunar og því verður að fylgja eftir, það geta hestamannafélögin gert og því mun ég vinna að.

„Hraðaspurningar“

  • Uppáhaldsstaður á Íslandi – Hálendi Íslands eins og það leggur sig.
  • Lífsmottó – Heiðarleiki og metnaður
  • Sturluð staðreynd um sjálfan þig – Ég gat ekki sagt R fyrr en ég varð 12 ára
  • Uppáhaldsmatur – Grilluð folaldalund
  • Þín fyrirmynd – Þær eru margar, metnaðarfullir einstaklingar
  • Hestamennska er… Skemmtileg
  • Ef þú fengir að vera formaður LH í einn dag, hvað er það fyrsta sem þú myndir gera? – Það er svo margt að einn dagur myndi ekki duga en örugglega eitthvað gáfulegt sem myndi hjálpa hestamennskunni að taka stórt stökk inní framtíðina og svo kannski fá mér ís með forseta íslands ef hann væri laus þennan dag sem ég væri formaður.

Ólafur Þórisson mynd: Aðsend

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar