Föstudagspistill Hinna Sig

  • 20. nóvember 2020
  • Fréttir

Mér finnst eins og það séu alltaf föstudagar orðið, vikurnar fljúga áfram og ég sé að hesthúsahverfin eru að fyllast af hestum og fólki og það er að færast heilmikið líf yfir hestamennskuna.

 

Það er geggjað, nú þurfum við bara að losna við bölvaða veiruna og þá er sko bara ROCK ON!!!

Allavega þá er það eitt sem ég var að velta fyrir mér að ræða við ykkur í dag, sem ég tel henta glimrandi vel að skoða svolítið nánar nú þegar við erum að setja hrossin í gang eftir hausthvíldina, og starta nýju tímabili.
Það er það sem ég persónulega tel vera alstærsta og mikilvægasta gegnumbrotið sem við fáum í þjálfun og tamningu á hestinum okkar:
Það þegar við getum búið til tilfinningu/smá þrýsting í hvaða átt sem er og hesturinn fylgir með, færir sig frá.
Ég ætla að útskýra þetta betur, náttúrulegt viðbragð hestsins þegar hann finnur stöðugan þrýsting er að ýta sér á móti honum. Þeir þrýsta á móti þrýstingi og verða þungir.
Þegar við getum í staðinn búið til tilfinningu í einhverja átt, getur verið með jafnvæginu fram, aftur, hægri eða vinstri, með taumnum að hálsi eða bóg, taumtak, eða með fótum að hliðum hestsins og hann skilur það að fylgja þessari tilfinningu í stað þess að ýta sér á móti getum við í raun sent hestinn í hvaða átt sem er.
Bara það að hesturinn skilji það að færa sig frá þrýstingi sama hvar hann kemur gerir að verkum að við náum stjórn á fótum hestsins sem er það almikilvægasta þegar kemur að leiðtogahlutverki knapans.

 

Þess vegna segi ég stærsta og mikilvægasta gegnumbrot í allri þjálfun er að hesturinn færi sig frá þrýstingi sama hvar hann kemur.
Með það sagt vill ég minna á að þrýstingur er í raun ekkert sem kemur góðri reiðmennsku við, nema hvað að knapinn hafi stjórn á tóninum í ábendingunni, þ.e. að hann bjóði hestinum sínum upp á léttleika í þessari ábendingu, og þá fáum við léttleika til baka.

Nú í upphafi vetrarþjálfunar mæli ég sterklega með því að þið leikið ykkur með þemað að búa til tilfinningu í einhverja átt, og leggja áherslu á að fá hestinn til þess að elta hana. Trúið mér, þið eigið eftir að upplifa meiri léttleika en áður og opna fyrir fullt af allskonar skemmtilegu.
Byrjið við hendi, bakka, færa fram- og afturhluta, sveigja hálsinn og svo framvegis, svo á baki að gera sama.
Byrja alltaf með því að búa til tilfinningu í áttina sem þið viljið senda hestinn, og svo hvetja smá og hesturinn fylgir.

Munið að hesturinn lærir á umbuninni, þegar ábendingin fer af, en ekki á ábendingunni sjálfri.
Góða skemmtun og ríðið vel 🙂
Hinni

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar