Samskipadeildin - Áhugamannadeild Spretts „Frábærir liðsfélagar og liðsheild“

  • 21. apríl 2024
  • Fréttir
Garðar Hólm Birgisson sigurvegari Samskipadeildar í viðtali

Garðar Hólm Birgisson stóð efstur í einstaklingskeppninni í Samskipadeildinni. Auk þess að liðið sem hann keppti fyrir, Tommy Hilfige sigraði liðakeppnina Garðars eru í því liði Hrafnhildur Blöndal, Guðlaug Jóna Matthíasdóttir, Hannes Sigurjónsson og Valdimar Ómarsson.

„Ég er með frábæra liðsfélaga og liðsheildin hefur verið góð í allan vetur. Við hittumst t.d. strax eftir að síðustu keppnisgrein ársins var lokið á kaffistofunni hjá mér og skáluðum fyrir vetrinum. Við skemmtum okkur svo konunglega á lokahófi deildarinnar.“

Lið Tommy Hilfiger. Frá vinstri: Hannes Sigurjónsson, Garðar Hólm Birgisson, Guðlaug Jóna Matthíasdóttir, Hrafnhildur Blöndal og Valdimar Ómarsson

Með hjálp frá góðu fólki

„Til þess að ná árangri í þessari deild þarf maður að vera með góð hross í allar greinar. Ég notaði fjögur hross í vetur. Þrjár hryssur frá mér og svo fékk ég Vissu frá Jarðbrú lánaða í gæðingaskeið. Maður þarf að vera duglegur að leita sér aðstoðar og reiðkennslu svo maður festist ekki í vitleysu og ég var duglegur við það í vetur. Fór meðal annars til Árna Björns og Sylvíu, Guðmar Þórs Pétursson og Eyjólfs Ísólfssonar og reyndi að troða mér að allsstaðar sem ég gat. Guðmar Þór fylgdi mér í gegnum hverja einustu upphitun í vetur og þá verð ég að nefna það að ég hefði ekki náð þessum árangri án stuðnings tilvonandi eiginkonu minnar henni Sólrúnu Sif Guðmundsdóttir.“ Hryssurnar þrjár sem eru í eigu Garðars eru þær Kná, Kata og Kara allar frá Korpu og komumst þær allar í úrslit í deildinni í vetur.

Það er eitt að ná góðum árangri en annað og stærra að gera það að stórum hluta á hrossum úr eigin ræktun eða eigu. „Þegar ég byrjaði að rækta hross að þá leigði ég þrjár hryssur, þrjú ár í röð. Ég lagðist alveg yfir þetta hvaða stóðhest ég ætti að nota á hverja hryssu með það í huga að rækta afrekshross. Svo því til viðbótar hef ég lagt mig fram um það að gefa þeim besta mögulega atlæti í formi uppeldis, tamningar og þjálfunar. Þetta virðist hafa heppnast ágætlega hjá mér og ég er stoltur af því. Framhaldið með þær núna er svo að sýna þær í kynbótadómi í vor og vonandi komast þær á Landsmót. Kná var í verðlaunasæti í elsta flokki hryssa á síðasta Landsmóti þannig að hún á ekki rétt á því að mæta þangað en ég finn henni einhvern góðan farveg í sumar. Læt sýna hana í síðasta sinn í kynbótadómi og svo kannski í keppni. Svo þarf ég að gera það upp við mig hvort hún fari í folaldseign, sem ég er nú hálfpartinn búinn að ákveða. En það yrði mikill missir fyrir mig á keppnisvellinum að hennar nyti ekki við í því hlutverki.“

Það að lið Tommy Hilfiger hafi sigrað deildina þýðir að þau eiga þátttökurétt í 1.deildinni í hestaíþróttum á næsta ári. „Það verður klárlega mjög krefjandi að fara þangað upp. Þá þarf maður að ríða á Meistaraflokksstigi í hringvallargreinum auk þess að það bætist við gæðinga list og 100 metra skeið. Við ætlum bara að njóta sigursins núna og sjá svo til hvernig við verðum hestuð á næsta ári en mætum að sjálfsögðu full tilhlökkunar í fyrstu deildina.“

 

Eiðfaxi óskar Garðari Hólm og liði Tommy Hilfiger innilega til hamingju með árangur vetrarins.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar