Meistaradeild KS í hestaíþróttum „Mjög dýrmætt að eiga svona hest“

  • 22. apríl 2024
  • Fréttir
Viðtal við Mette Mannseth sem er efst í einstaklingskeppninni í KS deildinni

Mette Mannseth er efst sem stendur í einstaklingskeppninni í KS deildinni með 137 stig. Hún vann um helgina slaktaumatöltið á Hannibal frá Þúfum en þau unnu einnig fjórganginn í deildinni og urðu í 2. sæti í gæðingalistinni.

„Það er mjög dýrmætt að eiga svona hest og mjög gaman þegar maður veit að hestinum líður vel með það sem maður er að gera og verkefnið er auðvelt fyrir hann. Ég var svo sem ekki búin að stefna að því að mæta með hann í slaktaumatöltið nema bara fyrir nokkrum vikum síðan. Ég hef samt alltaf vitað að það gæti gengið vel því hann er eðlis töltgengur og ég oft riðið honum á tölti með slökum taumi eða með hálsbandi,“ segir Mette en greinilegt er að hesturinn er afar fjölhæfur og aðspurð segist Mette ekki búin að ákveða hvar hún muni tefla honum fram í sumar.

Á hestum úr eigin ræktun

Mette hefur keppt á tveimur hestum úr sinni ræktun í deildinni þeim Hannibal og Kalsa frá Þúfum. Það er eflaust draumur margra ræktenda að keppa á hrossum úr sinni ræktun og ná góðum árangri.

„Mér finnst það mjög skemmtilegt að sjálfsögðu og það gefur manni alltaf þegar maður er með hest undan hestum sem maður þekkir. Þá getur maður notað reynsluna sína frá foreldrunum. Maður lærir mikið um þjálfun hesta af því að þjálfa hesta sem maður er að rækta sjálfur og þekkir foreldrana. Maður finnur sömu eiginleikana, sömu vandamálin og styrkleikana og getur reynt að gera betur,“ segir Mette.

Kalsi frá Þúfum og Mette Mannseth. Mynd: Freydís Bergsdóttir

Mætir með Hannibal og Vivaldi á lokamótið

Mette hefur tekið þátt í KS deildinni í mörg ár og var hún búin að vinna deildina þrjú ár í röð þangað til að Védís Huld Sigurðardóttir endaði sigurgöngu hennar í fyrra en þá lenti Mette í öðru sæti. Hún ætlar sér eflaust alla leið á lokamótinu sem haldið verður 2. maí. Keppt verður í skeiði og tölti og stefnir Mette á að mæta með Hannibal og Vivaldi frá Torfunesi á lokamótið.

„KS deildin er mjög skemmtileg og mikilvæg fyrir hestasamfélagið hérna. Það er mjög gaman að taka þátt og mikilvægt að koma og spreyta sig í öllum greinum. Mér finnst þjálfunin oft líka ganga betur en deildin er góður mælikvarði á þjálfunina,“ bætir Mette við að lokum.

Staðan í einstaklingskeppninni í KS deildinni fyrir lokamótið
  1. Mette Mannseth* 137
  2. Þórarinn Eymundsson* 132
  3. Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal 105
  4. Bjarni Jónasson 88
  5. Guðmar Freyr Magnússon* 76
  6. Barbara Wenzl 72.5

*Lægsti stigafjöldi knapa úr einni ákveðinni grein er dregin frá heildar stigafjölda eftir að öllum greinum er lokið.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar