„Svo kemur hann á skeiðferð sem ég hafði bara ekki séð“

  • 16. apríl 2024
  • Fréttir
Hinrik segir frá gæðingum sem mótuðu hann

Í tímaritum okkar höfum við birt viðtöl við hestamenn um þeirra eftirminnilegustu gæðinga frá ferlinum. Í síðasta tölublaði sagði Hinrik Bragason okkur frá þeim hestum sem mótuðu hann sem knapa en hann hefur í gegnum tíðina kynnst mikið af frábærum hrossum.

Við ætlum að gefa ykkur innsýn í þetta viðtal og birta lýsingar Hinriks á Eitli frá Akureyri. Á honum var Hinrik mjög sigursæll og varð m.a Evrópumeistari í 250 metra skeiði árið 1993.

Eitill frá Akureyri

Ég held að ég verði að segja það að Eitill var minn besti hestur. Eftir að ég hafði farið út á HM með Vafa  fór ég að leita mér að keppnishesti. Markmiðið var að kaupa stóran fallegan fimmgangshest. Í þeim erindagjörðum förum ég og Hulda, ásamt Jóni Steinbirnssyni, norður í land. Ég hitti Björn Þorsteinsson og spyr hvort hann eigi þannig hest. Hann segist nú ekki eiga neinn sem passar við þá lýsingu en sé engu að síður með ansi lipran fola undan Náttfara frá Ytra-Dalsgerði og spyr hvort ég vilji kíkja á hann. Við löbbum heim að rétt í Litla-Garði þar sem Eitill var og hann var nú vægast sagt ekki mikið fyrir augað. Það vantar undir hann eina skeifu og Björn byrjar á því að negla hana undir og leggur svo af stað ríðandi í átt að Ytra-Dalsgerði. Því augnabliki gleymi ég aldrei, hann var kominn í ansi mikla fjarlægð frá okkur þannig við þurftum að píra augun ansi mikið til að sjá hvað um væri að vera. Þegar hann er kominn heim að Ytra-Dalsgerði snýr hann við, hleypir hestinum á stökk og tekur hann svo niður á skeið. Svo kemur hann á skeiðferð sem ég hafði bara ekki séð, í minningunni skeiðaði hann mörg hundruð metra og sló ekkert af í beygjunni heima að Litla-Garði. Þegar hann á 10 metra eftir að mér stekkur Björn af baki og Eitill skeiðar til mín einn og sér. Björn lítur á mig og segir; þú getur prufað hann. Ég fór stuttan reiðtúr á honum en þurfti þess í rauninni ekkert því ég var sannfærður að þarna væri á ferðinni einstakur hestur. Ég keypti hann svo fyrir hátt verð, nærri það sama og ég hafði selt Vafa fyrir eftir Evrópumótið, og sá ekki eftir því. Þegar hann kom suður fór hann í hagagöngu að Laugavöllum þar nöguðu kálfar af honum taglið þannig hann var ennþá minna fyrir augað þegar hann kom til mín til þjálfunar í Reykjavík. Ég var sannfærður um að ég væri með einstakan hest í höndunum.

Ég teymdi hann mikið til að byrja með og byggi hann upp. Hann var frá náttúrunnar hendi ofboðslega flinkur á gangi og aðgengilegur. Hreingengur með gott tölt, brokkið mátti vera sterkara og það var unnið með hann 5-6 daga vikunnar. Um vorið í apríl á vetrarleikum Fáks var gæðingaskeið og ég gat ekki á mér setið, hafði í raun lítið sem ekkert lagt hann um veturinn en hann náði tveimur góðum sprettum og við urðum i þriðja sæti í mjög harðri keppni. Ég fór svo með hann í fyrsta skipti i 250 metra skeið þá um vorið og hann skeiðaði fyrsta sprett á 23,7. Ég fór einnig með hann í gæðingakeppni Fáks og komst í úrslit í A-flokki og inn á LM 1990. Þar varð ég í 11 sæti af hundrað hestum í mjög sterkum A-flokki. Mér finnst það sýna mikið um Eitil.

Upp úr því fór ég að hugsa hann sem skeiðhest í kappreiðagreinar. Á mínum ferli varð ég á honum Íslandsmeistari, heimsmeistari og margfaldur þýskur meistari.  Ég keppti síðast á honum 21.vetra árið 2005 í skeiðkeppni á ís þar rann hann 80 metra á 5,01 sekúndu og það varð síðasta keppnin okkar. Ég hef síðan átt marga góða skeiðhesta og leitað að mörgum um dagana og Eitill er alltaf viðmiðið sem ég hef. August Beyer vinur minn átti hann úti í Þýskalandi og hann hugsaði alla tíð vel um hann, enda náði hann 35. vetra aldri.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar