Heimsmet, vetrartíð og fryst sæði

  • 28. desember 2024
  • Fréttir

Forsíða á Eiðfaxa Vor. Mynd: Carolina Giese @linaimages

Árið 2024 var viðburðarríkt ár á sviði hestamennskunnar. Næstu daga munum við birta örstutta annála og rifja upp tíðindi ársins.

Þegar fór að vora kom Stóðhestabók Eiðfaxa út og haldin var Stóðhestaveisla sem er einn vinsælasti innanhús viðburðurinn. Eins og áður var safnað fyrir góðu málefni og varð stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni, Einstök börn, fyrir valinu í ár. Rúmlega 3 milljónir söfnuðust fyrir Einstök börn.

Eiðfaxi var með beinar útsendingar frá Suðurlandsdeildinni, Meistaradeild Líflands og æskunnar og WR íþróttamóti Geysis á vef sínum og í Sjónvarpi Símans.

Þorvaldur Kristjánsson var ráðinn sem hrossaræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins byrjaði að bjóða upp á mælingar á hrossum.

Dæmt var í máli Jóhanns R. Skúlasonar gegn LH. Áfrýjunardómstóls ÍSÍ komast að þeirri niðurstöðu að stjórn og landsliðsnefnd LH hafi verið óheimilt að vísa Jóhanni ótímabundið úr landsliðshópi Íslands.

HorseDay innleiddi nýja virkni í smáforrit sitt sem veitir áskrifendum betri innsýn í störf dómara.

Sær frá Bakkakoti var felldur 27. vetra að aldri.

1.maí var alþjóðlegur dagur íslenska hestsins.

Í byrjun maí var haldið skemmtilegt hestamót á Álftanesi fyrir knapa 60 ára og eldri.

Útbreiðslu- og nýliðunarnefnd Landssambands hestamannafélaga stóð fyrir hádegisfyrirlestrum á Teams um ýmislegt áhugavert og fræðandi í tenglsum við hestamennsku.

Í maí og júní fóru fram vorsýningar og héldu hestamannafélögin úrtökur fyrir Landsmót.

Nýjung var gerð á kortavefsjá LH en nú birtast þar einnig slysaskráningar.

Kostnaður við þátttöku í landsliðsverkefnum mismunandi íþrótta komst í umræðuna og var hestaíþróttin þar ekki undanskilin.

Dýralæknarnir Katrin Wagner og Helga Björt Bjarnadóttir staðfestu fyl með frystu hrossasæði en mörg ár eru síðan hestasæði var síðast fryst hér á landi.

Reykjavíkurmeistaramótið var haldið í Víðidal í Reykjavík, fyrsta mótið af þremur stórmótum sem haldin voru í Víðidalnum í júní og júlí. Landsmótið var haldið í byrjun júlí og Íslandsmót fullorðinna og ungmenna í lok júlí.

Vetrarauki á Norðurlandi í byrjun júní kallaði á mikið eftirlit hrossabænda.

Arney frá Ytra-Álandi setti heimsmet og varð hæst dæmda hryssa í heimi. Sýnandi var Agnar Þór Magnússon.

Miðbæjarreiðin var á sínum stað í lok júní, daginn áður en Landsmót hestamanna hófst þann 30. júní.

 

Eiðfaxi Vor kom út

Tímaritið var fjölbreytt. Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST var með áhugaverða grein um efnaskiptasjúkdóma í hrossum. Grein sem enginn hestamaður má láta framhjá sér fara en málefnið er mikilvægt. Stutt spjall var við Þorvald Kristjánsson sem var ráðinn sem hrossaræktarráðunautur ásamt því að í blaðinu var grein eftir hann þar sem hann fór yfir ýmislegt tengt mælingum á kynbótahrossum. Sigurður Sigurðarsson rifjaði upp eftirminnilegustu hrossin sem hann hefur verið með og viðtal var við Arnhildi Helgadóttur sem varð fyrsti sigurvegari 1. deildarinnar. Umfjöllun var síðan um Landsmót í Reykjavík og fyrrum landsmótssigurvegarar teknir tali. 

 

Mest lesnu fréttir á vefnum voru eftirfarandi:
  1. Falleg athöfn fór fram í Stykkishólmi í dag til minningar um Vigni Jónasson
  2. Nýr ræktunarleiðtogi ráðinn til starfa
  3. Ótímabundin brottvísun Jóhanns úr landsliðinu óheimil
  4. Stóðhestaveisla Eiðfaxa – Bein útsending
  5. Bein útsending frá íþróttamóti Geysis
  6. Hildur hæst dæmda hryssa í heimi
  7. Bein útsending frá Suðurlandsdeild SS
  8. Grímar með yfir 9,00 fyrir hæfileika
  9. Arney jafnar met Lukku
  10. Sær frá Bakkakoti felldur í morgun

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar