Hestamennirnir í landinu – Björk Guðbjörnsdóttir

  • 9. apríl 2020
  • Fréttir

Fullt nafn og hestamannafélag:

Björk Guðbjörnsdóttir. Hestamannafélagið Glaður í Dölum er mitt aðalfélag en er líka í Sleipni. 

Hvað er þitt eftirminnilegasta atvik tengt hestamennsku?

Þegar við systur eignuðumst sitthvorn hestinn á stórmóti vestlenskra hestamanna á Kaldármelum 1993. Pabbi hafði nefninlega heitið á okkur að við mættum eiga hestana sem við vorum að keppa á ef við myndum sigra sitthvorn flokkinn, ég unglingaflokkinn og Ólöf Inga systir mín barnaflokkinn.  Kallinn varð tveimur hestunum fátækari þá helgina og ég eignaðist besta hest í heimi!

Af hverju stundar þú hestamennsku? 

Ég er uppalin í sveit með hestum og þeir einhvern veginn urðu bara partur af manni sem maður skildi ekki svo auðveldlega við.  Hestamennskan er frábært áhugamál til að stunda með börnunum sínum og ég held að það sé að stórum hluta ástæðan fyrir því að ég er ennþá í þessu. Við eyðum ómældum tíma saman í alls konar hestastúss alla daga og vonandi um ókomin ár. 

Besti hestur sem þú hefur riðið?

Ég varð  nú svo heppin að fá að fara fettúr lengst upp í Heiðmörk og til baka á Höfða frá Húsavík þegar ég fór 16 ára í starfskynningu hjá Sigurbirni Bárðarsyni.  Hugsa að hann sé nú af mörgum talinn sá besti sem ég hef komið á en sjálfri finnst mér mínir hestar auðvitað alltaf bestir og enginn betri en sá sem átti fjögurra vetra að fara í sláturhúsið, sökum þess að hann þótti ekki bara húðlatur, heldur líka skelfilega klárgengur, drulluhastur, lítill og ljótur. En aumingjagóða ég náði að grenja út smá frest til að forða honum frá gálganum og til að gera langa sögu stutta þá var það s.s. hann sem ég eignaðist svo tveimur árum seinna á Kaldármelum eftir að við sigruðum þar unglingaflokk á stórmóti Vestlenskra hestamanna. Þessi snillingur hét Surtur frá Magnússkógum og varð helsti keppnishestur minn og systra minna í mörg ár.

Besti stóðhestur sem uppi hefur verið?

Úff, þessi er erfið.  En af því að allir 9 heimaræktuðu hestarnir í húsinu mínu í dag eru komnir út af Gáska frá Hofsstöðum þá hefur hann nú alltaf verið á ákveðnum stalli hjá mér þó svo það séu nú ekki allir hrifnir af honum.

Fimm ræktunarhryssur að eigin vali? 

Ég er nú afskaplega lítill sérfræðingur þegar kemur að ræktun en ef ég ætti að velja mér fimm ræktunarhryssur í dag þá myndi ég eflaust bara velja 5 af þeim hryssum sem hafa heillað mig hvað mest í keppni undanfarin ár. Þá koma upp í hugann Júlía frá Hamarsey, Maístjarna frá Árbæjarhjáleigu II, Katla frá Ketilsstöðum og Brúney frá Grafarkoti.  Og svo yrði Álfadís frá Magnússkógum alltaf að fylgja með svona til að viðhalda gráa litnum og Gáskablóðinu í hesthúsinu.

Hvað skiptir máli í ræktun? 

Gott geðslag, góð gangskil og bygging sem stuðlar að góðu heilbrigði og endingu hestins.   

Eftirminnilegasta landsmótið? 

Ég er svo rooosalega gleymin manneskja svo það síðasta er alltaf eftirminnilegast fyrir mig ?  

Björk Guðbjörnsdóttir

 

Fleiri Hestamenn

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar