Föstudagspistill Hinna Sig

  • 4. desember 2020
  • Fréttir
Lesendabréf

Góðan daginn hestamenn.

Föstudagur aftur, og ég ætla aðeins að gera nýtt í dag.

Ég ætla svosem ekki að þykjast vera einhver Dr. Phil en eitt sem er farið að gerast undanfarið, það er að ég fæ tölvupósta og símtöl frá fólki með spurningum um efnið sem ég hef verið að birta hér á Eiðfaxa, þar sem fólk er að biðja um ráð við hinum ýmsu aðstæðum.

Kærar þakkir fyrir það, ég kann virkilega að meta það og finnst mjög gaman að geta hjálpað til á einhvern hátt.

Ég ætla því í dag að taka mér það leyfi að birta eina af þeim spurningum frá lesanda sem hafa borist undanfarið og svara henni. (Lesandinn hefur að sjálfssögðu gefið leyfi, og fengið sitt svar).

” Sæll Hinni,

Takk fyrir fróðlega pistla á Eiðfaxi.is.

Ég vill fá að spyrja þig aðeins út í markmiðasetningu. Getur þú gefið mér góð ráð um hvernig á að ná markmiðum sínum? Og svo er ég forvitinn að heyra, hefur þú náð þínum markmiðum?

Kv Guðjón”

 

Sæll Guðjón og takk fyrir póstinn.

Góð spurning og ég spáði mikið í þetta áður en ég settist til þess að svara þér. Í fyrsta lagi vill ég segja já, ég hef náð mínum markmiðum EN svo koma alltaf ný, það er mjög breytilegt, og ég er misgóður í að setja skýr markmið. Á vissum sviðum er ég mjög skýr á því og minna á öðrum.

Þetta er aðeins þannig að hausinn á okkur vinnur í mismunandi áttir. Stundum vill hann draga sig frá vissum hlutum ”Ég vill ekki gera þetta” ”Ég vill hætta gera þetta” ”ég vill komast frá þessu” eða þá að hann sækist að vissum hlutum ”Ég vill gera þetta” ”ég vill vinna” ”Ég vill skapa”. Það er að segja annaðhvort vill maður í áttina að einhverju eða í áttina frá einhverju.

Ertu að fara að heiman eða ertu að fara í vinnuna? Frá einhverju eða að einhverju.

Gott dæmi til að átta sig hvar maður er, til dæmis ef þú ert að gera 20 armbeygjur, telur þú 1,2,3 og svo famvegis (að markmiðinu) eða 20,19, 18 ,17 og niður (frá endapunkti og niður). Oft er það þannig að maður byrjar ægilega jákvæður og reiknar að markinu en þegar að verður erfitt fer maður að telja niður (síðustu 10 armbeygjurnar).

Við erum öll í báðar áttirnar á einhvern hátt. Ef einhver segir við mig ”Ef þú vinnur svakalega mikið núna áttu meiri pening í framtíðinni” þá hefur það engin svakaleg áhrif á mig (að markmiði) en ef ég heyri ef þú vinnur ekki mikið þá missir þú húsið, bílinn, krakkarnir komast ekki í almennilegan skóla og svo framvegis (frá einhverju) þá myndi ég starta á öllum fjórum á nóinu.

Ég get alveg viðurkennt fyrir þér svona prívat (ekkert vera að kjafta því útávið svo maður missi ekki kúlið) að hræðsla við að klúðra málum eða mistakast mótiverar mig oft ansi hressilega til þess að undirbúa mig betur og meira til dæmis ef ég er að halda fyrirlestur, kemur mér af stað í undirbúninginn. En svo er ég ofboðslega skýr með rétt fyrir verkefnið sjálft að búa mér til mynd af því þegar ég flyt fyrirlesturinn vel og að fólk verði ánægt með mig, og það hjálpar mér að vera góður í verkefninu sjálfu.

Við erum sem sagt í mjög einfölduðu máli annaðhvort ”problemsolvers” eða ”goalseekers” þegar kemur að því að mótivera sig af stað í að komast að ákveðnum markmiðum. Annaðhvort að sækjast í eitthvað sem maður vill eða sækja frá einhverju sem maður vill alls ekki.

Fjórir hlutir að hafa í huga þegar þú setur þér markmið:

Þú þarft að hafa stjórn á markmiðinu.

Markmiðið þarf að vera eitthvað sem þú getur haft áhrif á og enginn annar. Til dæmis er ekki gott markmið að segja ”ég vill vinna fimmgang á félagsmótinu í vor” því þú getur átt þína bestu sýningu ever en svo kemur annar knapi og vinnu fimmganginn með 0.2 í mun og það gast þú ekki haft áhrif á.

Í öðru lagi þarf það að vera myndrænt. Þú verður að geta séð, heyrt og fundið fyrir markmiðinu. Hvernig mun það líta út þegar ég næ markmiðinu. Hvernig verður tilfinningin. Þú verður að ímynda þér það mjög greinilega, og ekki bara næstum því.

Markmiðið verður að vera raunhæft, að það sé möguleiki á að ná því og þú getir virkilega séð fyrir þér skrefin sem þarf að taka og hafa þau skýr (hlutamarkmið).

Svo þarf það að vera mótiverandi (hvetjandi) það er að átta sig hvort þú sért að fara að markmiði eða frá einhverju.

Sá sem dregur sig að markmiði má ekki skrifa ”ég ætla ekki að þyngjast” hann verður að skrifa ”ég vill léttast”

Sá sem dregur sig frá einhverju skrifar ”ég get ekki verið svona þungur áfram, það eyðileggur heilsuna”.

Semsagt, þú þarft að geta stjórnað markmiðinu, það þarf að vera myndrænt og hægt að finna það, þú þarft að vita hvaða skref þarf að taka og að lokum hafðu á hreinu hvað mótiverar þig (til eða frá).

Smá dæmisaga sem ég heyrði varðandi þetta um daginn var saga af tannlækni sem var ægilega ánægð með að kúnnarnir hennar voru með fínar tennur, og hún var alltaf að hvetja þá til þess að nota tannþráð til þess að halda þeim svona fínum og góðum. En það voru voðalega fáir sem gerðu það af einhverju gagni samt. (goalseeker)

Svo hún prófaði nýja aðferð, og fór að segja við fólkið að nota bara tannþráð á þær tennur sem þau vildu hafa áfram því hinar myndu hvort sem er bara detta úr þeim. Og sjitturinn hvað fólk fór að nota tannþráð. Það að draga sig frá einhverju getur oft verið meira mótiverandi heldur en að einhverju J

Gangi þér vel,

Bestu kveðjur Hinni

 

Föstudagspistill 27. nóvember

Föstudagspistill 20.nóvember

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<